Bogfimi er ein af skemmtilegri íþróttagreinum hérlendis.

Ég fékk að grípa í bogfimi á Reykjalundi stuttu eftir að þar var byrjað á atvinnu námsráðgjöf og síðar íþróttaiðkun undir stjórn Magnúsar og fleiri.

Magnús þessi er sonur Páls bifreiðarstjóra á Siglufirði hið forna og átti sennilega heima í næsta húsi sunnan við prentsmiðjuna á Sigló.

Ég sótti um lóð til íþróttaiðkunar til skipulagsstjóra á Siglufirði handan við Ás og fékk það leyfi greiðlega. Þar reisti ég markskífu sem stóð til fjölda ára og æfði mikið. Þarna var líka úthlutað stæði fyrir steypu- og gatnamöl að mér skilst og fór þetta svona þokkalega fram, en við þurftum meira pláss.

Ef ég stóð við ána rétt sunnan við vaðið upp í Skútudal náði ég 90 metra færi, það var skemmtilegasta æfingin.

Þar sem ég mátti leggja bílnum mínum á meðan á þessu stóð var þannig staðsett að bíllinn sást frá lögreglustöðinni á Siglufirði. Tilskipun var frá Jóhannesi Þórðarsyni yfirlögregluþjóni að ef bifreiðahurðin væri opinn en ég stæði ekki við bifreiðina var eitthvað að og lögreglan kom þá nær samstundis þó um langan veg væri að ræða til að huga að mér.

Sjúkraþjálfari á Siglufirði sem hafði með mína hreyfihömlun að gera hjá heilbrigðisstofnun Siglufjarðar, Sigrún að nafni og al-siglfirsk vildi að ég hætti með boga í vinstri hendi og sneri dæminu við til að æfa vöðva í baki sem örvhentur væri. Ég sem er fæddur örvhentur leist vel á þessa hugmynd en eignaðist aldrei þannig boga því miður. Ég tók frí í vinnu og æfði bogfimi og var á námskeiðum hjá Elísabeth Vilhjálmsson hjá íþróttafélagi fatlaðra í Reykjavík.

 

Viðar Jóhannsson

 

Þar lærði ég meðal annars eftirfarandi.

 

  1. Rétt staða.

 

  1. Grip á boga alltaf eins, ekki of fast, bogi hvíli í greip.

 

  1. Leggja ör á streng.

 

  1. Grípa um streng með þrem fingrum í fyrsta lið. Ekki snerta örina. Láta þumalfingur liggja samhliða vísifingri.

 

  1. Líta í átt að marki. Loka vinstra auga.

 

  1. Lyfta boga í andlits hæð og anda að sér með magaöndun, halda andanum lítið eitt niðri.

 

  1. Snúa vinstri olnboga lárétt út.

 

  1. Draga streng með fram handlegg, með hægri olnboga í andlits hæð, rétta úr baki, og á meðan er andað frá sér örlítið, en ekki alveg. 

 

  1. Dregið að miðri höku og miðjum nefbroddi, með þumalfingur undir kjálkabein, nema staðar.

 

  1. Með hægri olnbogann í axlarhæð og ýta eins vel afturábak eins og hægt er án þess þó að breyta stöðunni á streng, hökunni eða nefbroddi.

 

  1. Vinstri handleggur ýtir samtímis á bogann (fram á við).

 

  1. Miðunin á sér stað með lóðréttan bogann. Strengskuggi (aftara mið) alltaf á sama stað. (við eða utan við hring sigtisins).

 

  1. Ekki miða of lengi.

 

  1. Streng sleppt með því að draga hendi aftur með kjálkanum um leið og slakað er á fingrum.

 

  1. Fylgja örinni eftir með boganum (fram) og halda stöðu uns ör er lent í skífu.

 

  1. Anda að fullu frá sér.

 

  1. Taka skal þrisvar magaöndun áður en næsta uppbygging skot hefst með því að sækja ör í örvamælinn.

 

 

 

Texti og myndir: Viðar Jóhannsson