Sextíu kíló af sólskini – Höfundur: Hallgrímur Helgason

„Og nú stóð hann hér, Eilífur, einn á breiðri snjóblæjunni, sveittur af angist og hugsaði: Þrjú kíló hveiti fyrir þetta? Þrjú kíló hveiti fyrir bú mitt, konu, börn og kú? Þrjú kíló hveiti fyrir allt mitt líf? En þá heyrði hann allt í einu baulað undir fótum sér.“

Á þessum orðum hefst lýsing útgefanda á nýrri skáldsögu Hallgríms Helgasonar,

Sextíu kíló af sólskini.

Í Fréttablaðinu í gær birtist ritdómur um bókina. Þar segir meðal annars:

Í Sextíu kílóum af sólskini, nýjasta skáldverki Hallgríms Helgasonar, kraumar sjórinn af síld. Þannig byltast nýir tímar inn í íslenskt samfélag eins og óstöðvandi síldartorfa. Samskonar ólga af frásagnargleði, fróðleik og leifturmyndum fortíðar kraumar í sögunni sjálfri.

Þessi bók er einhvern veginn sambland af Heimsljósi og Sjálfstæðu fólki með ívafi af Sölku Völku, jafnvel Fjallkirkju Gunnars Gunnarssonar. Stórfengleg örlagasaga á tímum þegar þjóðin er að stíga út úr torfkofunum til móts við nýja öld, í umbrotum atvinnubyltingar og breyttra lífshátta. Þjóðarsaga spegluð í lífi nokkurra sögupersóna, einkum drengsins Gests sem við kynnumst á fyrstu blaðsíðum bókarinnar, þar sem hann lifir af snjófargið sem hefur brotið bæ foreldranna. Þar finnst hann undir kvið kýrinnar sem nærir hann af gnótt sinni, líkt og úlfynjan Remúlus (já eða tíkin Ástu Sóllilju í Sjálfstæðu fólki). „Glöggt er gests augað“ segir máltækið, og hver veit nema höfundur hafi hugsað til þess þegar hann valdi sögupersónu sinni nafn og hlutverk. Gesti fylgjum við gegnum söguna, hann er nokkurs konar sjóngler og leiðsögumaður um refilstigu hennar, einkum þegar líður á.

Hallgrímur byrjaði á bókinni í janúar 2016 og segist hafa lesið á þriðja tug bóka í tengslum við verkið.

Sagan gerist í lok 19. aldar þegar hákarlatíminn er að líða undir lok og við förum inn í byrjun á síldartímanum í Segulfirði, sem er að sögn höfundar tilvísun í Siglufjörð og nágrenni.

Hann notar nafnið Segulfjörður til að búa til einskonar hliðarveruleika sem þarf ekki að vera mjög nákvæmur sagnfræðilega. “Ég hef alltaf verið hrifinn af Sigló. Af því þetta var kannski eini vísirinn að stórborgarlífi sem við höfum átt.” segir Hallgrímur.

 

.

Forlagið gefur bókina út.