Á fundi byggðarráðs Húnaþings vestra þann 15. júlí sl. var samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi skólasvæðisins Hvammstanga og til samræmis breytingu á deiliskipulagi austan Norðurbrautar Hvammstanga.

Í auglýsingunni segir að svæðið sem deiliskipulag skólasvæðisins nær til sé 5,1 ha að stærð og afmarkist af götuköntum og lóðarmörkum. Skipulagsmörk eru við Hlíðarveg að norðan, að austan meðfram Kirkjuvegi og með lóðarmörkum Hvammstangakirkju að norðanverðu og í línu suður um útivistarsvæði að leikskóla og kvenfélagsgarði. Sunnanverð skipulagsmörk miðast við lóðamörk við Garðaveg, Ásbraut og Lækjargötu og að vestan fylgja mörkin Hvammstangabraut og Fífusundi. Deiliskipulagstillagan felur í sér skilgreiningu á lóðamörkum, afmörkun byggingarreita, umferðarflæði á svæðinu ásamt staðsetningu leik- og dvalarsvæða. Fyrirhuguð stækkun Grunnskóla Húnaþings vestra er helsta forsenda fyrir gerð skipulagsins.

Samhliða skipulaginu var unnin byggðakönnun ásamt fornleyfaskýrslu á svæðinu sem er hluti af gögnunum.

Breyting á deiliskipulagi austan Norðurbrautar felur í sér breytingu á syðri skipulagsmörkum en skipulagssvæðið minnkar um 3,2 ha í samræmi við nýtt deiliskipulag skólasvæðisins og verður 25,3 ha eftir breytinguna. Breytingar í greinagerð fela í sér að kafli 5.0 skólareitur fellur úr skipulaginu. Skilmálar um lóðir íþróttamiðstöðvar, grunnskóla og kirkju falla úr gildi.

Athugasemdir og ábendingar varðandi skipulagið þurfa að berast í síðasta lagi 1. september 2019 á skrifstofu Húnaþings vestra eða á netfangið skrifstofa@hunathing.is. Þær skulu vera skriflegar, þar sem nafn, kennitala og heimilisfang sendanda kemur fram.

Tillögurnar munu hanga uppi í þjónustuanddyri Ráðhússins, Hvammstangabraut 5, 530 Hvammstanga frá 20. júlí – 1. september 2019.

Gögn varðandi tillöguna má nálgast hér:

Deiliskipulagstillaga skólasvæðisins Hvammstanga

Byggðakönnun

Fornleifaskýrsla

Tillaga að breytingu á deiliskipulagi austan Norðurbrautar vegna skipulagsmarka