Þann 15. maí 2019 taka gildi breytingar á gjaldskrá Vaðlaheiðarganga. Stærsta breytingin felst í nýjum gjaldflokki fyrir millistærð af bílum, t.d. pallbíla, húsbíla og minni langferðabíla (sprintera).
1. Nýr gjaldflokkur bætist við fyrir bíla með skráða heildarþyngd frá 3.501 og upp í 7.500 kg. Gjald fyrir hverja ferð í þessum þyngdarflokki verður kr. 2.900 ef ökutækið er ekki skráð á veggjald.is en ef ökutækið er skráð á veggjald.is er gjaldið fyrir hverja ferð kr. 2.523 (13% afsláttur). Í þessum gjaldflokki eru ekki seldar fyrirfram ferðir á öðrum afsláttarkjörum.
2. Gjald fyrir staka ferð ökutækja með skráða heildarþyngd 7.501 kg eða yfir verður 6.000 kr. ef bifreiðin er ekki skráð á veggjald.is. Sé hún hins vegar skráð á veggjald.is verður gjaldið fyrir hverja ferð kr. 5.220 kr. (13% afsláttur). Í þessum gjaldflokki eru ekki seldar fyrirfram ferðir á öðrum afsláttarkjörum.
3. Gjaldflokkur fólksbíla með skráða heildarþyngd að 3.500 kg verður óbreytt. Hver ferð kostar kr. 1.500 ef ökutækið er skráð á veggjald.is. Sé ökutækið hins vegar ekki skráð á veggjald.is er veggjaldið kr. 2.500. Með því að kaupa ferðir fyrirfram bjóðast sömu afsláttarkjör og áður:
10 ferðir – kr. 1.250 ferðin
40 ferðir – kr. 900 ferðin
100 ferðir – kr. 700 ferðin.
4. Frá því að gjaldtaka hófst í Vaðlaheiðargöngum 2. janúar sl. hefur vegfarendum staðið til boða að kaupa staka ferð í gegnum göngin á kr. 1.500 á veggjald.is eða tunnel.is eða með símaappi allt að þremur tímum áður eða þremur tímum eftir að ekið er í gegnum göngin. Að öðrum kosti hefur veggjaldið verið innheimt af umráðamanni ökutækis að viðbættu 1.000 kr. álagi.
Eftir sem áður býðst vegfarendum að kaupa stakar ferðir en sú breyting hefur verið gerð að vegfarendum er það í sjálfsvald sett hversu löngu áður en ferð er áætluð í gegnum göngin þeir skrá ökutæki sín inn á veggjald.is. Sem fyrr skal veggjaldið þó hafa verið greitt eigi síðar en þremur tímum eftir að ferðin er farin. Í þessu sambandi skal undirstrikað að þó svo að ökutæki hafi verið skráð á veggjald.is innheimtist veggjaldið ekki nema að ökutækinu sé ekið í gegnum göngin.