Browniekaka með daim og jarðaberjafrauði

Brownie botn:

  • 110 g smjör
  • 2 1/3 dl sykur
  • 1 msk sýróp
  • 2 egg
  • 1 1/2 dl hveiti
  • 1/2 tsk salt
  • 1 1/2 tsk vanillusykur
  • 1 dl kakó
  • 2 stk. stór Daim (56 g hvor pakkning), grófhakkað

Jarðaberjafrauð:

  • 5-6 matarlímsblöð
  • 1/2 kg jarðaber
  • 3 eggjarauður
  • 2 dl flórsykur
  • 6 dl rjómi

Skraut

  • 1 kg jarðaber

Brownie botn: Hitið ofninn í 175°. Hrærið smjör, sykur og sýróp saman þar til blandan verður ljós og létt. Hrærið eggjunum saman við. Bætið hveiti, salti, vanillusykri, kakói og grófhökkuðu Daim út í og hrærið saman. Setjið deigið í smurt smelluform sem er 24 cm í þvermál og bakið í 20 mínútur. Látið botninn kólna alveg áður en jarðaberjafrauðið er gert.

Það getur verið gott að losa um kökuna í forminu áður en jarðaberjafrauðið er sett yfir hana, til að það sé einfaldara að flytja kökuna yfir á kökudisk þegar hún er tilbúin.

Jarðaberjafrauð: Leggið matarlímsblöð í kalt vatn í 5 mínútur. Maukið jarðaber í matvinnsluvél eða með töfrasprota og leggið til hliðar.  Hrærið eggjarauður og flórsykur saman þar til blandan verður ljós og létt. Léttþeytið rjómann í annarri skál. Hitið 1/10 af jarðaberjamaukinu í potti. Takið matarlímsblöðin úr vatninu, kreystið mesta vökvann frá þeim og bætið blöðunum í pottinn. Látið þau bráðna við vægan hita í jarðaberjamaukinu. Þegar matarlímsblöðin hafa bráðnað er blöndunni hrært saman við restina af jarðaberjamaukinu.

Blandið eggjablöndunni varlega saman við jarðaberjamaukið og hrærið síðan rjómanum varlega saman við þar til blandan er slétt. Hellið blöndunni yfir brownie botninn. Látið kökuna standa í að minnsta kosti 4 tíma í ísskáp áður en hún er borin fram. Það má einnig frysta kökuna og þá er hún tekin út og látin standa við stofuhita 4 tímum áður en hún er borin fram.

Setjið jarðaber yfir kökuna áður en hún er borin fram.

Browniekaka með daim og jarðaberjafrauði

Uppskrift: Ljúfmeti og lekkerheit