Vinnan hófst 18. september þegar smiðir frá Byggingafélaginu Berg mættu á staðinn og hófust handa.

Skúli Jónsson, gamalreyndur í fjölbreytilegri smíða- og byggingavinnu, stýrði verkinu.

Skútuárbrú í Siglufirði var orðin gömul, mjög illa farin og jafnvel hættuleg. Vegfarendur og sumarbústaðaeigendur þar í grennd höfðu lengi haft áhyggjur af henni, kvartað iðulega og varla treyst sér yfir hana nema af fyllstu aðgát.

Elstu menn telja brúna vera frá því um 1930 en hafa verið endurnýjaða tvisvar eða þrisvar sinnum – næst síðast fyrir um 50 árum.

Nú er brúin orðin glæsileg, vel smíðuð og traustleg og ástæða væri til að hvetja ferðamenn og íbúa Fjallabyggðar til að leggja leið sína þangað yfir um til að njóta útsýnis þaðan norður um fjörðinn og austur upp um árflúðirnar – sem sagt af brúnni er hið fegursta útsýni. En – vegurinn þangað er mjög slæmur – oftast nær líkastur „illfærustu öræfaslóð“ eins og Kári Eðvaldsson þáv. bæjarfulltrúi orðaði það fyrir fjörtíu árum. Síðan þá hefur lítið breyst – nema brúin.

Myndirnar tala sínu máli og sýna hvernig endursíði brúarinnar gekk fyrir sig.

Hafist handa

 

Skúli rífur brúargólfið

 

Sex bitar endurnýjaðir – Ólafur Natan, Skúli og Sævar Kárason.

 

Lokafrágangur – möl við brúarsporðinn. Örnólfur Ásmundsson og Skúli

 

Texti og myndir: ÖK