Þrátt fyrir að Stýrihópur Félags um Síldaævintýri á Siglufirði hafi blásið Síldarævintýrið af í ár um verslunarmannahelgina verður Síldaminjasafn Íslands með glæsilega dagskrá í boði fyrir fólk á öllum aldri.

Í næstu viku hefst dagskráin á krakka-yoga í Róaldsbrakka, mánudagsmorgunninn 27. júlí kl. 9:00. Elín Vigdís kennir yoga með leik, dans og söng fyrir krakka á öllum aldri. Það er því sannarlega ástæða til að vakna snemma, njóta saman og eiga góða morgunstund.

Ritsmiðja fyrir börn og unglinga með Markúsi Má Efraím hefst á þriðjudag og stendur fram á föstudag. Nú fer hver að verða síðastur að skrá sig.

Starfsfólk safnsins stendur fyrir netasmiðju við olíutankinn á safnsvæðinu helgina 1.-2. ágúst frá kl. 12:00 – 15:00 báða dagana. Þar gefst gestum og gangandi kostur á því að læra handtökin við að hnýta net. Fyrir þau áhugasömustu verður í boði að gera sér netapoka á staðnum og jafnvel að leggja til nokkra hnúta í mikla listaflækju sem verður til í olíutanknum samhliða námskeiðinu.

Síldargengið lætur sig ekki vanta og slegið verður upp síldarsöltun á planinu við Róaldsbrakka, laugardag og sunnudag kl. 15:00.

Árlegt síldarhlaðborð verður á sínum stað, laugardaginn 1. ágúst kl. 16:00. Nýbakað rúgbrauð, kryddsíld, marineruð síld, sinnepssíld, tómatsíld og sitthvað fleira verður í boði.
Hlaðborðið er haldið í samstarfi við Aðalbakarí, Kjörbúðina, Íslensk-Ameríska, Kútter og Ásbjörn Ólafsson. 

Boðið verður upp á tvær stuttar gönguferðir með leiðsögn.

Laugardaginn 1. ágúst kl. 11:00 býðst gestum að ganga að rústum Evangersverksmiðjunnar með Örlygi Kristfinnssyni sem fræðir gesti um sögu verksmiðjunnar og hið mannskæða snjóflóð sem féll í apríl 1919 og sópaði verksmiðjunni út á haf. Gengið verður frá gömlu flugbrautinni.

Gamla rafstöðin

Sunnudaginn 2. ágúst kl. 18:00 býðst gestum að ganga í Hvanneyrarskál með Anitu Elefsen sem fræðir gesti um sögu síldarbæjarins Siglufjarðar og hið mikla og litríka mannlíf staðarins; síldarvinnuna, landlegurnar, tónlistina og rómantíkina. Gengið verður frá gömlu rafstöðinni við Hólaveg

Bæði laugardag og sunnudag stendur safngestum til boða að slást í för með leiðsögumanni um sýningar safnsins. Leiðsagnirnar hefjast kl. 13:00 báða dagana.

Síldarminjasafn Íslands tekur á móti ferðagjöfinni.