Matvælastofnun hefur fengið tilkynningu um að brúni hundamítillinn (Rhipicephalus sanguineus) hafi greinst á hundi sem var í skoðun á Dýraspítalanum í Víðidal vegna kláða og útbrota í andliti. Greining fór fram á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum.

Mynd af Brúna hundamítlinum. Myndin er fengin af vefsíðu Keldna og tekin af Guðnýju Rut Pálsdóttur, sníkjudýrafræðingi. 

Brúni hundamítillinn hefur ekki oft greinst hér á landi og er ekki landlægur á Íslandi. Í hvert sinn hefur tekist að uppræta hann. Matvælastofnun vinnur markvisst að því að koma í veg fyrir að þessi sníkjudýrategund nái fótfestu hér á landi.

Hvað geta hundaeigendur gert?

Matvælastofnun hvetur alla hundaeigendur til að:

  • Skoða húð og feld hunda sinna reglulega
  • Vera vakandi fyrir kláða, roða eða sárum í húð
  • Hafa tafarlaust samband við dýralækni ef grunur vaknar um mítla

Snemmgreining skiptir miklu máli til að koma í veg fyrir útbreiðslu.

Hvernig berst mítillinn til landsins?

Brúni hundamítillinn getur borist hingað með fólki og farangri frá löndum þar sem hann er algengur, sérstaklega ef viðkomandi hefur verið í snertingu við dýr eða dýraumhverfi.

Til að draga úr áhættu er mikilvægt að:

  • Þvo allan fatnað sem hefur verið í snertingu við dýr
  • Hreinsa og þvo skó vel
  • Fjarlægja óhreinindi úr farangri
  • Sótthreinsa heimilið eftir þörfum

Um brúna hundamítillinn

  • Mítillinn nærist á blóði hunda en getur einnig lagst á önnur spendýr sem og fólk
  • Er eini mítillinn sem getur lifað allan lífsferilinn innanhúss, því getur hann fundist allan ársins hring
  • Aðeins um 5% mítla eru á dýrinu sjálfu – allt að 95% geta verið í umhverfinu
  • Getur lifað í upphituðu húsnæði í marga mánuði án fæðu

Smitsjúkdómar

Erlendis þekkist að brúni hundamítillinn geti borið smitefni sem valda alvarlegum sjúkdómum í hundum, svo sem Ehrlichia canis og Babesia canis. Þessi smitefni hafa ekki greinst á Íslandi.

Einnig getur mítillinn borið bakteríuna Rickettsia conorii, sem veldur svokölluðum Miðjarðarhafssótt í fólki. Sá sjúkdómur hefur ekki greinst hér á landi.

Viðbrögð við greiningu

Ef brúni hundamítill greinist:

  • Verður viðkomandi dýr sett í einangrun þar til lyfjameðferð er hafin og virk
  • Heimili þarf að ryksuga daglega, sérstaklega sprungur, lista og þröskulda
  • Þvo þarf bæli, teppi og fatnað
  • Frysting eða gufuhreinsun getur komið til greina ef ekki er hægt að þvo
  • Við mikla útbreiðslu gæti þurft að leita til meindýraeyðis

Til dýralækna

Matvælastofnun hvetur alla dýralækna til að vera sérstaklega á varðbergi.

  • Allir mítlar sem finnast skulu sendir til greiningar á Keldum
  • Greining er gjaldfrjáls
  • Staðfest tilfelli skal tilkynna tafarlaust til Matvælastofnunar: mast@mast.is

Ítarefni: