Á þessum degi eru jákvæð samskipti í fyrirrúmi og skólasamfélagið hvatt til að taka höndum saman gegn einelti og slæmum samskiptum.
Menntamálastofnun minnir á dag gegn einelti sem er 8. nóvember.
Einelti hefur margvíslegar afleiðingar, ekki bara á þá nemendur sem verða fyrir því og líða fyrir það andlega og/eða líkamlega heldur hefur einelti einnig áhrif á fjölskyldur. Vert er að muna að gerendur eru gjarnan börn sem sjálf hafa þolað einelti og finnst þau valdalaus. Oft er það hinn þögli meirihluti sem lætur einelti viðgangast en færri sýna ábyrgð og bregðast við.
Miðlun góðra lífsgilda, regluleg fræðsla og umræður um einelti og afleiðingar þess eru nauðsynlegar. Öflug forvörn gegn einelti og slæmum samskiptum er að veita börnum skipulega þjálfun í að vera saman í leik og starfi þar sem lýðræði, mannréttindi og jafnrétti eru höfð að leiðarljósi. Þessi færni er liður í því að gera umhverfið jákvæðara þar sem slæm samskipti ná síður að skjóta rótum.
Fagráð eineltismála í grunn- og framhaldsskólum hefur nýlega tekið til starfa hjá Menntamálastofnun. Hlutverk fagráðsins er að veita skólasamfélaginu stuðning vegna eineltismála með almennri ráðgjöf, leiðbeiningum og upplýsingagjöf. Skólum er gert að hafa aðgerðaáætlun gegn einelti með skilgreindum viðbrögðum. Ef ekki næst að leysa úr málum með þeim úrræðum sem eru til staðar innan skóla eða sveitarfélags er hægt að vísa þeim til fagráðs eineltismála. Fagráðið gefur þá út ráðgefandi álit á grundvelli upplýsinga sem það aflar. Nánari upplýsingar um fagráðið má nálgast á heimasíðu Menntamálastofnunar.
Það er ósk Menntamálastofnunar að dagur gegn einelti veiti skólum tækifæri til að auka vitund um mikilvægi jákvæðra samskipta og að gefa út þau skilaboð að brugðist sé við neikvæðu atferli og einelti. Til að auðvelda þessa viðleitni mun stofnunin á næstunni opna upplýsingasíðu um þetta málefni þar sem fagfólk, börn, ungmenni og foreldrar geta nálgast gögn og góð ráð.