Nýjar áherslur í Evrópusamstarfinu á sviði skóla- og menntamála falla einstaklega vel að stefnu og starfsháttum Menntaskólans á Tröllaskaga. Þetta á bæði við málaflokkana loftslags- og umhverfismál og það sem kalla mætti rafræna starfshætti. Mikil áhersla er lögð á fjölbreytni og þátttöku einstaklinga með ólíka færni og þekkingargrunn.

Hægt verður að sækja um aukadaga á ferðalögum ef tengiflugi er sleppt en notaður vistvænn ferðamáti. Þá verður mögulegt að fá fé til að bjóða heim sérfræðingum til að halda erindi eða námskeið fyrir starfsmenn skólans. Hér er slóð á kynningu á þessum möguleikum á Opnunarhátíð Evrópusamstarfsins í Borgarleikhúsinu á dögunum: https://youtu.be/BphCPwK6wfw

MTR hefur þegar fengið aðild að Erasmus+ áætluninni fyrir árin 2021-2027 sem tryggir fjármagn til þátttöku í verkefnum. Aðildin gerir að verkum að ferli umsókna er einfaldara og minni vinna fer í undirbúning og umsýslu.