Þann 26. janúar s.l. hélt Sigurður Mar Svínfellingagoði Sólarblót við Menntaskólann á Tröllaskaga í tilefni þess að þann dag sést fyrst til sólar í Ólafsfirði, ár hvert, en ekki sést þar til sólar í nokkrar vikur yfir veturinn.

.

 

Ekki lét sólin þó sjá sig þann daginn vegna snjókomu, og reyndi því nokkuð á trú viðstaddra, sem töldu fullvíst að hún væri risin eftir vetrardvalann og væri á sínum stað bak við snjókomuna.

Goðinn nýtti sér nútíma tækni við athöfnina.

 

Blótið var með hefðbundnu sniði líkt og tíðkaðist á þjóðveldisöld, goðinn byrjaði á því að helga stað og stund þeim Frey og Syn. Gyðjan Syn gætti dyranna að Ásgarði að sögn Snorra Sturlusonar, og Svínfellingagoðinn líkti gangnamunnunum sitt hvorum megin við Ólafsfjörð við dyr Ásgarðs, og helgaði þess vegna bæði Frey og Syn þessa stund.

Sigurður Mar Svínfellingagoði.

 

Að því loknu sór hann hringnum eið um að allt sem hann segði og gerði væri það sem hann teldi réttast. Til forna var þetta gert í þeim tilgangi að menn héldu friðinn á meðan á athöfn stóð, því oft voru menn að setja niður deilur á blótum sem þessu. Ekki varð þó vart við neinar deilur á þessu Sólarblóti.

.

 

Í lokin lét goðinn horn ganga milli viðstaddra sem drukku heill sólarinnar eða hverju því sem þeir vildu.

.

 

Athöfnin var einlæg og allir viðstaddir nutu blótsins þrátt fyrir smávegis snjókomu.

Ásatrúarmenn halda fjögur höfuðblót á ári, auk annarra blóta sem til falla og hver goði getur haldið blót þegar hann telur ástæðu til.