Samningur hefur verið gerður við Tröppu ráðgjöf ehf. um sérfræðiráðgjöf við Grunnskóla Fjallabyggðar. Megin áhersla ráðgjafarinnar er framkvæmd á skólastefnu sveitarfélagsins og endurgerð á skólanámaskrá, sýn og stefnu grunnskólans með það fyrir augum að í daglegu starfi skólans endurspeglist starf í anda nýrrar fræðslustefnu Fjallabyggðar, núgildandi aðalnámskrár og ríkjandi menntastefnu í landinu – menntun án aðgreiningar.

Í samkomulagi Tröppu ráðgjafar og Fjallabyggðar verður unnið eftir sýn um framúrskarandi skóla þar sem gert er ráð fyrir að ná árangri umfram væntingar. Áhersla verður lögð á fjölbreytta kennsluhætti.

Haldinn var kynningarfundur þar sem Kristrún Lind Birgisdóttir og Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson ráðgjafar frá Tröppu ráðgjöf ehf. kynntu vinnuna framundan fyrir fræðslu- og frístundanefnd og fulltrúum foreldra og kennara í nefndinni, bæjarfulltrúum, stjórn foreldrafélags grunnskólans og skólaráði grunnskólans.

Vinna með starfsmönnum grunnskólans hefst í febrúar og í kjölfarið verður haldinn opinn kynningarfundur fyrir foreldra.