Atkvæðagreiðsla á sérstökum kjörstað

Kjósanda sem verður í sóttkví eða einangrun á kjördag, og getur því ekki greitt atkvæði á almennum kjörstað eða almennum utankjörfundarstað, er heimilt að greiða atkvæði á sérstökum utankjörfundarstöðum.

Kosning á sérstökum utankjörfundarstað má hefjast mánudaginn 20. september 2021. Sýslumenn, hver í sínu umdæmi, auglýsa á vefsíðunni syslumenn.is hvar og hvenær atkvæðagreiðslan fer fram.

Kjósandi sem greiðir atkvæði á sérstökum utankjörfundarstað skal koma í bifreið á kjörstaðinn. Honum er óheimilt að opna dyr eða glugga bifreiðarinnar og hann skal vera einn í bifreiðinni. Kjósandi fær ekki kjörgögn í hendur heldur upplýsir hann kjörstjóra um hvernig hann vill greiða atkvæði, t.d. með því að sýna blað með listabókstaf framboðs eða á annan hátt sem kjörstjóri telur öruggan og nægilega skýran.

Mikilvægt er að kjósendur hafi með sér blað og ritföng til að gera grein fyrir vilja sínum og hafi með sér skilríki.

Sérstök athygli er vakin á því að þeim sem er í einangrun er heimilt yfirgefa dvalarstað sinn í bifreið í þeim eina tilgangi að greiða atkvæði á sérstökum utankjörfundarstað skv. heimild í reglugerð frá heilbrigðisráðherra.

Atkvæðagreiðsla á dvalarstað kjósanda

Kjósanda sem er í einangrun eða sóttkví á kjördag er heimilt að greiða atkvæði á dvalarstað sínum. Beiðni um atkvæðagreiðslu á dvalarstað skal beint til sýslumanns í því umdæmi þar sem viðkomandi dvelst. Sé dvalarstaður kjósanda innan kjördæmis hans skal beiðnin berast sýslumanni eigi síðar en kl. 10:00 á kjördag, en sé dvalarstaður kjósanda utan kjördæmis hans eigi síðar en kl. 10:00 fimmtudaginn 23. september 2021. Beiðninni skal fylgja staðfesting heilbrigðisyfirvalda á að viðkomandi sé í einangrun eða sóttkví fram yfir kjördag og upplýsingar um hvers vegna þeim sem er í sóttkví er ekki unnt að greiða atkvæði á sérstökum utankjörfundarstað.

Kjósandi fær ekki kjörgögn í hendur heldur upplýsir hann kjörstjóra um hvernig hann vill greiða atkvæði t.d. með því að sýna blað með listabókstaf framboðs eða á annan hátt sem kjörstjóri telur öruggan og nægilega skýran.

Synja má kjósanda um að greiða atkvæði á dvalarstað telji sóttvarnayfirvöld að atkvæðagreiðslu verði ekki við komið án þess að tefla heilsu kjörstjóra eða annarra í hættu. Sú ákvörðun er endanleg.

Á vefslóðinni island.is/covidkosning2021 verða nánari upplýsingar um framkvæmd atkvæðagreiðslunnar og þar verður unnt að sækja um kosningu á dvalarstað.

Dómsmálaráðuneytinu, 17. september 2021.

Mynd: Stjórnarráðið