Ef það er einhver matarupplifun sem hamborgaraunnendur ættu ekki að láta fram hjá sér fara í nóvember, þá er það jólaborgarinn á Siglufirði. Matreiðslumeistararnir Daníel Pétur Baldursson og Hákon Sæmundsson, eigandi Fiskbúðar Fjallabyggðar, sameina krafta á ný þegar þeir bjóða upp á hinn margrómaða jólaborgara 21.–22. og 28.–29. nóvember.
Þetta er ekki hversdagslegur borgari heldur sannkölluð jólaveisla í brauði. Hér blandast saman sultaður rauðlaukur, rauðkál, camembert-ostur og stökk purusteik sem hefur orðið að einkennismerki jólaborgarans. Að setja krispý purusteik á hamborgara hefur reynst ómótstæðileg hugmynd, og í fyrra seldist hann upp á einungis 45 mínútum.
„Hann varð til við fikt,“ sagði Daníel í samtali við veitingageirinn.is. „Við vorum að prófa nýja hluti og langaði að gera eitthvað annað en hefðbundið jólahlaðborð. Ég vildi ekki hafa villibráðaborgara heldur taka nautaborgara og gera hann jólalegan. Úr varð frumgerð af þessum, og uppskriftirnar voru í stöðugri þróun fyrstu árin.“
Daníel segir leyndarmálið liggja í samsetningunni: purusteikin, rauðkálið, camembertinn og chillimæjóið sem bindur allt saman. „Hann er sætur og ljúffengur, með réttu jafnvægi í bragðinu. Þetta eru jól í hamborgarabrauði.“
Jólaborgarinn hefur á tíu árum orðið ómissandi hluti jólaundirbúnings á Siglufirði. „Það er virkilega gaman að fá að elda aftur fyrir fólkið mitt,“ segir Daníel. „Og að hafa Hákon í horninu sem partner í þessari hamborgaraveislu er frábært.“

Mynd: Veitingageirinn.is



