Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra veita árlega viðurkenningar fyrir framúrskarandi verkefni sem fram hafa farið á Norðurlandi vestra árið áður. Viðurkenningar eru veittar í tveimur flokkum:
a) Verkefni á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar
b) Verkefni á sviði menningar
Viðurkenningarnar geta fallið í hlut einstaklinga, hópa, félaga, fyrirtækja eða stofnana á Norðurlandi vestra fyrir framlag sitt í ofangreindum flokkum.
Í ár hlaut eitt menningarverkefni frá Húnaþingi vestra viðurkenningu. Það er Dansskóli Menningarfélags Húnaþings vestra
Með stofnun Dansskóla Menningarfélags Húnaþings vestra hefur stórt skref verið stigið í átt að auknu aðgengi að fjölbreyttum og faglegum frístundum fyrir börn og ungmenni á svæðum þar sem slíkt framboð hefur áður verið af skornum skammti.
Dansinn sameinar list, hreyfingu og félagsfærni á einstakan hátt. Hann kennir samvinnu, tjáningu, aga og virðingu – og býður börnum og ungmennum vettvang til að njóta sín og blómstra, óháð bakgrunni, færni eða tungumáli. Verkefnið hefur sérstakt forvarnargildi og er mikilvægt fyrir samfélög sem búa við félagslega og efnahagslega áskoranir. Þar sem íþróttaframboð er takmarkað, skapar dansinn nýjan og nærandi valkost fyrir börn sem kunna að finna sig utan hefðbundinna ramma.
Það skiptir máli að skólinn er leiddur af fagkonum sem veita jákvæðar fyrirmyndir og styðja við fjölbreytileika samfélagsins á skapandi og uppbyggilegan hátt. Með þessum dansskóla er verið að veita mikilvæga þjónustu – og skapa rými þar sem gleði, sjálfstraust og samfélagsleg virkni fær að vaxa og dafna.
Önnur verkefni sem hlutu styrk eru FOODSMART – Ný framleiðsluaðferð sæbjúgu: Losun þungmálma, og Jólin heima – jólatónleikar í umsjón Jóhanns Daða Gíslasonar