Tólf manna hópur frá Danmörku var í tveggja daga heimsókn í Menntaskólanum á Tröllaskaga í vikunni.
Þetta eru nemendur í framhaldsskóla á Jótlandi, tíu nemendur og tveir kennarar. Þetta er Erasmus+ verkefni í skólanum og markmiðið er að kynnast lífi jafnaldra í öðru landi en einnig að styrkja tengslanetið en skólinn þeirra er með Erasmus vottun eins og MTR og hver veit nema við MTR endurgeldur heimsóknina síðar meir.
Fyrri dagurinn var helgaður útivist og leikjum í snjónum og sáu kennararnir Diljá Helgadóttir og Lísebet Hauksdóttir um það en fleiri úr hópi kennara og starfsfólks komu að heimsókninni m.a. með því að bjóða dönsku gestunum gistingu á heimilum sínum.
Seinni dagurinn einkenndist af listum og menningu. Krakkarnir unnu myndverk um jafnrétti og fordóma undir leiðsögn Karólínu Baldvinsdóttur listakennara og seinni partinn var förinni heitið á Ljóðasetur Íslands þar sem Þórarinn Hannesson ræður ríkjum en hann er einnig kennari skólans. Kvöldinu vörðu þau svo á Kaffi Klöru ásamt jafnöldrum sínum.
Dönsku krökkunum þótti mikið til um veðrið og snjóinn enda hefur snjóað nánast allan tímann sem þau dvöldu í Fjallabyggð. Það er mikill munur frá vesturströnd Jótlands þar sem þau búa þar sem kemur í mesta lagi þriggja sentímetra snjór sem bráðnar eftir tvo daga að þeirra sögn.
Þá fannst þeim áhugavert að geta stundað nám án þess að mæta nokkurn tímann í skólann og fannst mjög afslöppuð stemning í skólanum. Þau nefndu einnig að lífið hjá þeim væri svo skipulagt, gagnstætt því sem þau hafa kynnst hjá krökkunum okkar. Dönsku gestirnir gista í heimahúsum á svæðinu og nefndu að þeim hefði þótt gaman að fá að kynnast íslensku fjölskyldulífi.
Þannig að þau eru klárlega reynslunni ríkari eftir Íslandsferðina.
Smellið hér til að skoða myndir
Forsíðumynd/Lísebet Hauksdóttir