Það var fyrir nokkuð löngu síðan að Siglfirðingurinn Snorri Jónsson sendi mér texta og spurði hvort ég gæti ekki búið til lag við hann. Jú auðvitað vildi ég gjarnan reyna að gera mitt besta í því, því mér fannst textinn verulega skondinn og skemmtilegur. En því miður leið talsverður tími þar til andinn mætti á staðinn og tími gafst um sama leyti. Það var núna um mánaðarmótin nóv./des. að ég settist niður við hugleiðslu og nótnaskriftir og hér að neðan má heyra árangurinn. Ég var samt ekki alveg ánægður því mér fannst vanta eitthvað. Þetta eitthvað varð síðan vídeó sem var tekið í Hljóðverinu Paradís, en það var ekki seinna vænna því verið er að taka það niður akkúrat núna þegar þetta er skrifað.

Það er ekki annað hægt en að vera þakklátur þeim ágætu drengjum sem lögðu mér lið við ævintýrið. Birgir Jóhann Birgisson sem svo oft hefur verið bæði mín hægri og reyndar líka vinstri hönd í svona málum, sá um hljóðfæraleik, hljóðvinnslu, hljóðupptökur, myndtöku, klippingu ásamt því að leika á bassa í myndbandinu. Eiríkur Sverrir Björnsson hinn ábúðarfulli með flotta kúrekahattinn er sonur Bjössa Birgis og Álfhildar og mætti til leiks með gítarinn. Ásmundur Jóhannsson trommar svo af mikilli list inni í trommuklefanum, en hann er af miklum tónlistarættum kominn, því hann er sonur Jóhanns bassaleikara í Mezzoforte og Pétur söngvari Póker, Pelican, Paradísar o.fl. stórbanda var móðurbróðir hans og Kristján hljómsveitarstjóri KK sextetts þar af leiðandi afi hans. Ég er svei mér þá ekki frá því að maður geti leyft sér að vera svolítið upp með sér að fá alla þessa stórkostlegu og eldkláru drengi til að vinna með gamla manninum með gráa skeggið. 

Hér áður fyrr ég ungur var og ævintýrin þráði,
var alveg sama hvort þau vor´á landi eða láði.
Ég dreif mig því að heiman og ég heiminn fór að skoða,
Og hamingjunnar leita, því úr ýmsu var að moða.

Svo þvældist ég um heiminn sem ég horfð´á alveg stjarfur, 
í huga mínum heimsmaður ég var svo flott og djarfur.
Í austurlöndum kynntist ég og kyssti unga meyju, 
Hún klæddist bara stuttbuxum og agnarsmárri treyju

Já, þessi hún var fallegust af flestum konum bar, 
augun brún og fögur og þau lýstu allsstaðar.
Barmurinn hann bústinn var og brjóstin mjúkar kúlur,
og bakið hennar nakið mig það minnt´á grískar súlur.

Hún leiddi mig við hönd sér og hjarta mitt tók kippi, 
ég hjúfraði mig að henni, en fann – HÚN VAR MEÐ TIPPI!
Vergirnin þá hvarf á braut og veröldin hún hrundi, 
mér vöknaði um augun, og af angist hjartað stundi.

Hvernig má það vera að karlinn hann sé kona, 
en kannski er það vitleysa, það er ég helst að vona.
Hélt því áfram könnun á „konunni“ um sinn, 
þá kom Í ljós að „hennar“ – VAR HELDUR STÆRRI EN  MINN.