Dómsmálaráðuneytið hefur lagt fram í samráðsgátt stjórnvalda drög að nýrri reglugerð um ættleiðingar. Þessari reglugerð er ætlað að koma í stað núgildandi reglugerðar um ættleiðingar nr. 238/2005.

Í nýrri reglugerð eru gerðar breytingar á ýmsum atriðum sem talin eru upp hér að neðan. Drögin að nýju reglugerðinni eru svo aðgengileg í heild sinni á vefsvæði Samráðsgáttar en opið er fyrir athugasemdir til 30. júní 2023.

Heilsufar

Í stað þess að telja upp tiltekna sjúkdóma eða líkamsástand er miðað við almennt mat á heilsufari.

Sambúðartími

Í stað þess að hjón þurfi að vera í samfelldri sambúð í 3 ár er miðað við 2 ár.

Aldur umsækjenda

Í stað þess að miða almennt við 45 ára hámarksaldur umsækjanda með undanþágu í þeim tilvikum þegar annar umsækjandi er nokkuð eldri en 45 ára og en hinn nokkuð yngri, ef umsækjendur hafa ættleitt barn á síðustu 2 árum, eða ef sérstakar ástæður mæla með því s.s. ef um sérstök tengsl er að ræða við væntanlegt kjörbarn eða systkini barns, þá er lagt til að miða einungis við það að aldursmunur þess umsækjenda sem yngri er og barns skuli ekki vera meiri en 45 ár.

Einhleypir umsækjendur

Lagðar eru til breytingar þess efnis að ekki er gerð krafa um að einhleypur umsækjandi sé „sérstaklega hæfur umfram aðra“ heldur að umsækjandi sé vel hæfur og einnig má líta til menntunar viðkomandi og þess hvort tengsl séu við heimaland barns og jafnframt hvort umsækjandi geti leitað stuðnings frá nákomnum vegna ættleiðingar.

Yfirfærsla verkefna frá Íslenskri ættleiðingu til sýslumanns

Lagt er til að kveðið verði á um hlutverk sýslumanns við það veita samþykki fyrir því að ættleiðing megi fara fram í samræmi við 17. gr. c Haag-samningsins, en slíkt hlutverk er í dag hjá löggiltu ættleiðingarfélagi. Einnig er lagt til að kveðið verði á um ábyrgð sýslumanns á eftirfylgniskýrslum í staðinn fyrir löggilt ættleiðingarfélag. Jafnframt er að finna ákvæði um ráðgjöf til uppkominna ættleiddra sem sýslumaður mun nú bjóða einstaklingum sem ættleiddir hafa verið og náð hafa 18 ára aldri. Lagt er til að sýslumaður geti boðið einstaklingum upp á 5 viðtöl að kostnaðarlausu.

Námskeið

Undanþága er til staðar í núgildandi reglugerð um að heimilt sé að gefa út forsamþykki áður en umsækjendur hafa sótt námskeið ef námskeið hefur ekki verið haldið frá því að umsókn um forsamþykki barst sýslumanni og gerð krafa um að umsækjendur lofi að sækja fyrsta mögulega námskeið. Lagt er til að undanþágan verði tekin úr reglugerðinni.

Alþjóðleg fjölskylduættleiðing

Áréttað er hlutverk sýslumanns að því er snýr að alþjóðlegum fjölskylduættleiðingum þar sem löggilt ættleiðingarfélag hefur ekki milligöngu um ættleiðingu.

Fylgigögn

Lagðar eru til breytingar sem snúa að kröfum um fylgigögn, s.s. um að fæðingarvottorð verði lögð fram af umsækjendum í stað þess að sýslumaður afli þeirra auk þess að sýslumaður geti óskað eftir vottorði um heilsufar og/eða sálfræðimati ef sýslumaður telur nauðsynlegt.

Drög að reglugerð í samráðsgátt