Dropinn holar steininn – Pistill frá slökkviliðsstjóra í Fjallabyggð

Um langt ára og áratuga skeið hafa slökkviliðsstjórar í Fjallabyggð barist fyrir því að öryggi í jarðgöngum á Tröllaskaga verði eins og best sé á kosið, enda lífæðar sveitarfélagsins til beggja átta.

Ljóst er orðið að tveir slökkvibílar liðsins, sem voru keyptir þegar Héðinsfjarðargöng voru byggð, eru orðnir gamlir og lúnir og eiga ekki erindi inni í jarðgöngum komi þar upp atburður. Það er meðal annars ástæða þess að þegar ný brunavarnaáætlun sveitarfélagsins var gefin út í desember 2022 að þá flokkuðust jarðgöngin í áhættustig 5 en Slökkvilið Fjallabyggðar ræður við áhættustig 4 samkvæmt áhættumati Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Viðamikil æfing í Strákagöngum í september 2023 staðfesti ofangreint mat slökkviliðsins og sýndi fram á að liðið getur illa eða alls ekki brugðist við komi upp alvarlegir atburðir í jarðgöngum.

Samkvæmt 10. gr. reglugerðar 614/2004 um Brunavarnir í samgöngumannvirkjum kemur fram að slökkviliðsstjóri geti sett fram kröfur um aðbúnað, t.a.m. fyrir slökkvilið, í samvinnu við sveitarfélagið og eiganda jarðganganna. Þá kemur einnig fram að eigandi jarðganganna beri allan kostnað af þeim kröfum.

Upp reis ágreiningur um túlkun laga og reglna um þetta mál á milli Slökkviliðs Fjallabyggðar og Vegagerðarinnar en stofnun taldi sig ekki þurfa að koma að endurnýjun búnaðar vegna jarðganganna. Þess ber einnig að geta að slökkvilið sveitarfélagsins hefur heldur ekki fengið viðhlítandi búnað fyrir Strákagöng og Múlagöng.

Í lok október í fyrra óskaði slökkviliðsstjóri Slökkviliðs Fjallabyggðar eftir aðkomu Innviðaráðuneytisins á túlkun á regluverki í kringum brunavarnir í jarðgöngum. Nú í lok ágúst fékk slökkviliðið niðurstöðu ráðuneytisins í hendur og þar er skýrt kveðið á um að Vegagerðin skuli greiða þann kostnað sem til fellur vegna brunavarna í jarðgöngum, þar með talið þann búnað sem slökkviliðið þarf til þess að bregðast við komi upp atvik. Ljóst er, þó þetta sé niðurstaðan, að þá vantar Vegagerðinni fjármagn frá hinu opinbera til þess að bregðast við þessum kröfum. Það sem hér að ofan greinir á við um fleiri slökkvilið sem hafa jarðgöng á sínu svæði. Sum hafa fengið viðeigandi búnað en önnur standa í sömu sporum og Slökkvilið Fjallabyggðar.

Tveir mjög alvarlegir atburðir hafa orðið í jarðgöngum á sl. ári. Í fyrra kviknaði í fólksbíl í Hvalfjarðargöngum og nú nýverið í hópferðabifreið sem var ný komin út úr Vestfjarðargöngum. Sem betur fer meiddist enginn í þessum atburðum.

Vegna þessara mála ákvað Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis að taka á dagskrá umræðu um öryggismál og viðbúnað í veggöngum. Á fundinn voru boðaðir fulltrúar frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Samgöngustofu, Vegagerðinni, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Félagi slökkviliðsstjóra og Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. Á fundinum var nefndarmönnum gerð grein fyrir stöðunni og hversu alvarleg hún er orðin og bregðast þurfi skjótt við þar sem langan tíma getur tekið að fá ný tæki fyrir önnur sem eru orðin úreld.

Fyrir hönd slökkviliðanna fóru á fundinn Jóhann K. Jóhannsson, slökkviliðsstjóri í Fjallabyggð og stjórnarmaður í Félagi slökkviliðsstjóra á Íslandi og Birgir Finnsson, varaslökkviliðsstjóri hjá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, en hann var einnig fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Myndir og heimild/Slökkvilið Fjallabyggðar