Siglufjörður er vissulega ekkert sérstaklega stór fjörður, mun minni, styttri og mjórri en Ólafsfjörður, en hér á Sigló eru samt til nokkrir misstórir alvöru dalir. Auðvelt er að fara inn í og sjá inn í botn af þeim flestum, eins og t.d. Hólsdal, Skútu- og Skarðsdal. Eins og sjá má á forsíðumyndinni er Kálfsdalur ekki einu sinni nefndur á nafn á kortinu, en hann er þarna ofan við gamla Selvíkurvitann. Hálf ósýnilegur og dularfullur dalur og enn meira ósýnilegur er Nesdalur, en þangað er frekar auðvelt að komast ef maður gengur yfir Kálfsskarð og þaðan niður í Nesdal. (Reyðarárdal)

Greinarhöfundur hefur oft áður birt myndasyrpu greinar eins og t.d. þessa, sem sýnir okkur í tveimur hlutum horfin ævintýraheim í suðurenda Siglufjarðar, en hér neðar bætast nú við sögur og myndir úr norðaustur hluta fjarðarins fagra :

Horfin ævintýraheimur: Skoger, Evanger, Tordenskjold… og ég! 1. hluti

Það er gaman að rifja upp ævintýri úr barnæsku og við sem nennum ekki lengur að fara í langa göngutúra, getum okkur til skemmtunar farið í svona “0neline” fjallgöngur í máli og myndum og skroppið til baka á staði sem okkur fannst bæði dularfullir og spennandi.

Í barnalegum minningum koma upp eigin tilbúinn staðar nöfn eins og t.d. “Vitavík” og “Rústirnar,” en þegar maður verður eldri, er gaman að grúska meira í örnefnum og sögum sem þeim fylgja. Þá er maður ákaflega þakklátur þeim sem lögðu á sig mikla sjálfboðavinnu, við að koma upp heilmiklum gagnagrunni, sem er öllum aðgengilegur, með ljósmyndum og fræðandi sögum úr náttúrunni á norðurenda Tröllaskaga.

Í þessari frásögn er mikið stuðst við heimildir og ljósmyndir frá þessari frábæru heimasíðu: Snókur.is/ Örnefni í Sigluneshreppi og í lokin er bent á greinargóðar lýsingar af gönguleiðum í Fjallabyggð frá heimasíðu bæjarfélagsins og síðan er lesendum bent á skemmtilegar og fræðandi gönguferða ljósmyndir.

Að fara yfrum og leika sér fyrir handan… fjörð!

… var skemmtilegur hluti af sumarleikjum barnæskunnar heima á Sigló.

Reyndar er varla til sá fjallatindur, dalur, skarð, vík eða nes, sem ég og vinir mínir höfum ekki rannsakað í okkar litla sýnilega sjóndeildarhring fjarðarins fagra. Stundum varð maður fyrir vonbrigðum, eins og t.d. að sjá að í Skollaskál er enginn verulega stór SKÁL, svo var maður hafður að fífli þegar maður var kominn alla leið upp í Fífla-dal, því þar er enginn sjáanlegur dalur.

Oft varð maður samt hissa, eins og t.d. þegar við gengum eitt sinn fram á stórt steinrunnið tré (Kolbrand) uppi á leynilegum stað, sem fáir vita um, sem oftast er vel falinn undir snjó á Hvanneyrarskálabrúninni.

Nú vorum við reyndar að tala um Kálfsdalinn dularfulla, en áður en við komum þangað, minnist ég þess mest að við krakkarnir vorum sjaldan á leiðinni einmitt þangað. Öll austurströnd fjarðarins var spennandi og þá sérstaklega Skoger skipsflakið og rústir Evangerverksmiðjunnar, markmiðið var oftast að skoða stórbrotna og klettótta fjöruna á leiðinni út í “Vitavík.” (Selvík)

Mæli samt alls ekki með fjöruleiðinni, hún er illfær, best er að ganga út í Selvík á kindastígum ofan við mýrar flákana sem liggja með fram allri strandlengjunni. Auðveldast var að róa á bárujárnskajökum, út í Selvík, en það var ekki vel séð af fullorðnum.

Þessi vík er ævintýralega falleg og skemmtilegt leiksvæði í góðu skjóli frá fullorðins augum bæjarbúa og svo er þarna flottur gulur kastalalegur viti og umhverfið minnti mjög á lýsingar úr barnasögu bókunum um “Hin fjögur fræknu

Kálfsdalur og Kálfsvatn

Ef maður gengur upp frá vitanum, upp í sjálfan frekar stuttan Kálfsdalinn, þá birtist manni óvænt lítið stöðuvatn og það sem okkur krökkunum fannst skrítið, var að það rennur enginn sýnilegur lækur úr því út í sjó og svo var þarna að mig minnir smár einangraður murtufiskur (dvergbleikja). Þetta fannst okkur allt saman mjög svo dularfullt, hvernig kom þessi fiskur hingað spurðum við okkur sjálf undrandi?

ATH. Smellið á mynd og hún birtist þér stærri.

Á örnefna heimasíðunni Snókur.is í texta sem fylgdu með þessum tveimur flottu ljósmyndum segir meðal annars eftirfarandi:

Upp í Kálfsdal miðjum er tjörn ein er Kálfsvatn (60) nefnist, í hana fellur Kálfsdalslækur (61) en framrás hefur vatnið neðan jarðar er fram kemur upp frá Selnesi og er það Selá áðurnefnd. Í leysingum og stórrigningum dugar útrás þessi ekki, hækkar þá vatnið og fellur einnig úr því lækur ofan jarðar..

Um vatn þetta hafa hér því myndast hinar furðanlegustu sagnir sem trúgirni og fáfræði hafa getað upp spunnið, svo sem að uppganga sé þar frá sjó og stöðugt flóð og fjara, fullt hafi það verið af fiski uns búendur 2 deildu um veiði og drápu hvor annan en konur þeirra lögðu það á að fisklaust skyldi vera og fugl þar aldrei sjást !!

Nesdalur er Shangri-La dalur Tröllaskaga!

Það er mér mjög svo minnisstætt, hversu hissa ég og barnæskufélagar mínir urðum, þegar við vorum komnir upp í Kálfsskarð og sáum niður í þennan langa mjóa dal. Hann er miklu stærri, en en manni grunar, klemmdur á milli hárra hrikalegra fjalla og syðri endinn nær langleiðina að Hestskarðinu. Þarna er þó nokkuð mikið grasi gróið flatlendi og í miðjum dalnum rennur Reyðará. Í rauninni getur mér fundist að réttnefni sé Reyðarárdalur, því þegar þú kemur úr “Nesdalnum” þá er maður ekki staddur á Siglunesi, sem liggur mun vestar. Nei, þá er maður á svokallaðri Reyðarárströnd.

ATH. Smellið á mynd og hún birtist þér stærri.

Það er guðs gjöf að hafa fengið að alast upp í stórbrotnu sögulegu umhverfi og ekki síst í því frjálslega uppeldi sem ríkti á þessum tíma. Ég minnist þess vel, varðandi akkúrat þennan Nesdals ævintýradag, að hann var ekki á nokkurn hátt skipulagður. Við fjórir, 11-12 ára gamlir félagarnir, fórum ekki af stað með nesti og nýja skó. Nei, við hittumst líklega eins og vanalega niður á Leirutanga, á fallegum sumardags morgni. Einhver stingur upp á því að við færum út í Vitavík og svo erum við allt í einu komnir þangað rétt fyrir hádegi.

Frjálsum sumardögum fylgdu ekki margar reglur, en oftast var það einhverskonar tilkynningarskylda að láta vita af sér með því að koma heim í hádegis og kvöldmat. Þennan dag sáum við guttarnir að við næðum ekki heim í hádegismat á réttum tíma. Við vorum nestislausir, en alltaf var maður með vasahníf og eldspýtur eða alvöru Zippó kveikjara í vasanum. Við tíndum kræklinga í Selvíkinni og suðum þá í gamalli ryðgaðri málningardós, hundasúrur í eftirrétt minnir mig.

Þá kom einhver með þá hugmynd um hvort við ættum ekki bara að skreppa gangandi út á Siglunes. Hmm… Þetta er ekkert svo langt ef við förum yfir Nesskriðurnar. Það var ekki það að við værum lofthræddir eða smeykir við að þræða vel sýnilegar gamlar kindagötur þarna í snarbrattri fjallshlíðinni. Heldur það, ef við færum þessa leið yrðum við of sýnilegir augum bæjarins.

Þar af völdum við að fara yfir Kálfsskarð…. en börn í ævintýraferð hafa ekkert tímaskyn, þetta var mun lengra en við héldum. Við erum komnir niður í miðjan Nesdal, þegar við áttum okkur á hvað klukkan var orðin mikið og þar fyrir utan mundum við að það bjó enn fólk á Reyðará og þá myndum við örugglega sjást og þurfa að útskýra þetta ferðalag á okkur smáguttunum. Svo við snérum við og komum of seint heim í kvöldmat.

Enginn af okkur sagði samt sannleikann, eftir að hafa verið tíndir og tröllum gefnir í heilan dag. Samt hefði það verið gaman að fá að segja… en elsku mamma og pabbi, við geymdum okkur alveg, við fundum dularfulla dali sem við bara urðum að rannsaka. En eins og Svíarnir segja oft í lokin á lygilegri sögu:

Enginn ældi og enginn dó.

Gönguleiðakort Fjallabyggðar!

Á þessari frábæru heimasíðu er að finna greinargóðar lýsingar á 24 ólíkum, bæði erfiðum og léttum gönguleiðum í Fjallabyggð. Persónulega mæli ég eindregið með því að styðjast við þessar leiðarlýsingar, sem gefa góða hugmynd um tímalengd, hæð yfir sjávarmáli o.fl. Dæmi:

Siglunes!

Vegalengd: 15-16 km  
Leið: Ráeyri – Staðarhóll – Kálfsdalur – Kálfsskarð – Nesdalur – Reyðará –  Siglunes
Mesta hæð: 450 m 
Göngutími 6 – 8 klst.

Gott er einnig að hafa myndir og fræðandi stuðning í göngunni frá örnefna síðunni Snókur.is.

Siglunes – Nesdalur – Kálfsdalur – Neðriskúta

2019, by Jón Hartmannsson.

Hér geta lesendur skoðað skemmtilegar myndir frá gönguhóp, sem fór með bát út á Siglunes, sem er minnst sagt fallegur og sögulegur staður og síðan gengur hópurinn til baka suður Nesdal og yfir Kálfskarð í maí 2019.

Höfundur samantektar og endurvinnsla á myndgæðum:
Jón Ólafur Björgvinsson .

Sjá meira söguefni eftir sama höfund hér:
https://trolli.is/author/nonni/

Forsíðu korta ljósmynd, er fengin að láni frá Wikipediagrein um Siglunes.

Aðrar ljósmyndir eru birtar með leyfi frá Steingrími Kristinssyni og örnefna heimasíðunni Snókur.is, vísað er í aðrar heimildir gegnum vefslóðir í greinartexta, eins og t.d. Kortasjá og heimasíðu Fjallabyggðar.