Í þessum pistli er fjallað um afgreiðslur sveitarstjórnar frá fundi þann 19. febrúar, íbúalýðræði, ráðningamál o.fl.

Frá því sl. haust hafði legið fyrir ósk um viljayfirlýsingu um að lóð eða landsvæði við Hauganes yrði úthlutað til Laxóss ehf. Sveitarstjórn ákvað að hafna beiðninni í kjölfar ráðstefnu AFE um laxeldi í Eyjafirði en of mörgum spurningum er ennþá ósvarað í sambandi við kvíaeldi í firðinum. Næstu skref i þeim málum er að AFE ætlar að gera viðhorfskönnun til laxeldis meðal íbúa í Eyjafirði. Í framhaldi af niðurstöðum úr þeirri könnun þurfa sveitarstjórnir á svæðinu að efla frekar samræðuvettvang sinn um málefnið því þetta snertir allt Eyjafjarðarsvæðið.

Sveitarstjórn samþykkti málsstefnu Dalvíkurbyggðar. Í fyrstu grein kemur fram að leiðarljós stefnunnar sé að vandað, skýrt og auðskilið mál, hvort heldur ritað eða talað, skuli vera lykilatriði í allri þjónustu og stjórnsýslu Dalvíkurbyggðar. Þar sé íslenska í öndvegi og skuli hún vera til fyrirmyndar í samræmi við þingsályktun um íslenska málstefnu frá 2009 og lög um stöðu íslenskrar tungu.

Þá var einnig samþykkt jafnréttisáætlun Dalvíkurbyggðar en hún kemur í stað mannréttindastefnu sveitarfélagsins frá árinu 2016. Dalvíkurbyggð hefur jafnræði íbúa og mannréttindi að leiðarljósi í öllu starfi. Með því að vinna eftir samræmdri jafnréttisstefnu er lögð áhersla á heildstæða sýn í þágu íbúa þar sem margir tilheyra fleiri en einum þeirra hópa sem hún nær til. Jafnréttisáætlun Dalvíkurbyggðar er ætlað að taka til ólíkra hlutverka sveitarfélagsins, þ.e. í fyrsta lagi sem stjórnvalds, í öðru lagi sem atvinnurekanda og þriðja lagi sem veitanda þjónustu.

Byggðaráð Dalvíkurbyggðar samþykkti á fundi sínum dags. 25. janúar 2018 að setja á fót nýsköpunar-og þróunarsjóð. Markmiðið með stofnun sjóðsins er að stuðla að aukinni fjárfestingu, nýsköpun og þróun í atvinnulífinu í sveitarfélaginu með því að styðja við þá aðila sem hyggja á nýsköpun í atvinnulífinu í formi nýrrar vöru og/eða þjónustu. Sveitarstjórn hefur samþykkt reglur fyrir sjóðinn  en starfandi atvinnumála- og kynningarráð Dalvíkurbyggðar skipar stjórn sjóðsins á hverjum tíma.

Ný skipulagsskrá fyrir Dalbæ var samþykkt og einnig samþykkti sveitarstjórn endurskoðaðan samstarfssamning Dalvíkur-og Fjallabyggðar um rekstur Tónlistarskólans á Tröllaskaga. Þannig er fest í sessi farsælt samstarf sveitarfélaganna um rekstur TÁT.

Sveitarstjórn staðfesti ákvörðun menningarráðs um að Ungó verði auglýst til leigu á ársgrundvelli með þeim skilmálum að í samningi um útleigu sé Leikfélagi Dalvíkur tryggt húsnæðið vegna uppsetninga sýninga tvö tímabil að vetri.

Íbúalýðræði

Umhverfisráð er að vinna að deiliskipulagi fyrir Hauganes og verður kynningarfundur í Árskógi mánudagskvöldið 25. febrúar kl. 20. Þá verður íbúafundur um framtíðarhlutverk Gamla skóla fimmtudaginn 28. febrúar kl.17 í Dalvíkurskóla. Á undan verður opið hús í Gamla skóla þar sem áhugasamir geta skoðað húsnæðið og kynnt sér ástand þess.

Til upplýsinga

Í vikunni var birt á heimasíðu Dalvíkurbyggðar frétt um álagningu fasteignagjalda. Fasteignagjöld eru reiknuð út frá fasteignamatsverði húsnæðis sem hækkar á svæðinu eftir því sem eignir seljast dýrara verði. Á síðasta ári hækkaði söluverð húsnæðis umtalsvert í Dalvíkurbyggð og íbúðaeigendur finna fyrir því með hærri fasteignagjöldum. Nú gæti einhver hugsað sem svo að þá sé lag fyrir Dalvíkurbyggð að lækka álagningarprósentuna. En þannig háttar málum að sveitarfélög sem fullnýta ekki skattstofna sína fá skerðingar á framlag úr jöfnunarsjóði og það framlag skiptir sköpum fyrir rekstur Dalvíkurbyggðar. Þannig að sveitarstjórn er nokkuð á milli steins og sleggju hvað þetta varðar. Fjárhagsáætlun 2019 var skilað í járnum og núna starfa vinnuhópar kjörinna fulltrúa við að fínkemba alla málaflokka í leit að matarholum. Áætlað er að þeirri vinnu ljúki nú um mánaðarmótin og þá tekur byggðaráð við að fara yfir sparnaðartillögur vinnuhópanna.

Ráðningamál

Eins og oft áður þá hefur  verið nokkuð um nýráðningar í störf hjá sveitarfélaginu og eru störf í auglýsingaferli þegar þetta er ritað. Ráðningaferli í opinber störf er nokkuð staðlað. Fyrir liggur auglýsing með ákveðnum hæfniskröfum út frá starfslýsingu og eru umsóknir og umsækjendur metnir hvort og þá hvernig þeir uppfylla hæfniskröfur í viðkomandi starf. Stjórnandi sem auglýsir fer einn með ráðningavaldið og ber að velja þann hæfasta í stöðuna samkvæmt niðurstöðu úr mati.  Stjórnanda ber að gæta fyllsta hlutleysis og þarf að geta rökstutt hvers vegna einn er valinn umfram aðra umsækjendur. Stundum er leitað til ráðningaþjónustu til faglegrar aðstoðar í ráðningaferli.

Matið byggir á fyrirliggjandi gögnum sem óskað er eftir frá umsækjanda, s.s. umsókn, ferilskrá og jafnvel kynningarbréf.  Út frá því mati er ákvarðað hvaða umsækjendum er boðið að koma í ráðningarviðtal.   Niðurstaða úr viðtali bætist við matið.   Leitað er síðan umsagna frá tilgreindum umsagnaraðilum um þá umsækjendur sem boðaðir voru í viðtal og/eða koma einna helst til greina í starfið.  Umsagnir frá umsagnaraðilum bætast við matið og samanlagt verður til niðurstaða hver er metinn hæfasti umsækjandinn í starfið   Nánar er kveðið á um ráðningavald í samþykktum Dalvíkurbyggðar en þær er að finna á heimasíðu sveitarfélagsins. Þar kemur m.a. fram að sveitarstjóri hefur ekkert ráðningavald. Það er sveitarstjórn sem ræður sveitarstjóra og sviðsstjóra og veitir þeim lausn frá störfum.  Sviðsstjórar ráða síðan aðra stjórnendur að fengnum umsögnum frá viðkomandi fagráðum.  Sviðsstjórar og stjórnendur hafa ráðningarvald til að ráða  aðra starfsmenn eftir því sem við á.

Þá er það oft þannig að íbúar hafa álit á því hvern á að ráða og hver sé hæfastur, sitt sýnist hverjum. Það er alveg eðlilegt en það þarf að gæta að orðræðunni. Sveitarstjóri eða kjörnir fulltrúar meiga  aldrei hafa áhrif á ráðningar stjórnenda, það er andstætt siðareglum og stjórnsýslu sveitarfélagsins.

Nokkrar stofnanir sveitarfélagsins, t.d. Skrifstofur Dalvíkurbyggðar og söfn Dalvíkurbyggðar, hafa í ráðningaferli birt nöfn umsækjenda um stöður og síðan frétt um hver var ráðinn í starfið úr hópi umsækjanda Sveitarstjórn vill hvetja allar stofnanir og fyrirtæki sveitarfélagsins og sjálfseignarstofnanir  sem Dalvíkurbyggð er aðili að  til að gera slíkt hið sama. Slíkt er gott til upplýsinga, eykur gegnsæi og kemur oft í veg fyrir ósanngjarna umræðu.

Dalvík 23. febrúar 2019

Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri.