Það kom fram í fundargerð bæjarráðs Fjallabyggðar frá 20. febrúar að lagt var fram afrit af bréfi Björgunarsveitarinnar Tinds, dags. 15.02.2019 til Jóns Helga Björnssonar forstjóra Heilbrigðisstofnunar Norðurlands (HSN) vegna vettvangsliðateymis í Ólafsfirði.

Í bréfinu kemur fram að björgunarsveitinni hafi ekki reynst mögulegt að manna í sjálfboðavinnu vettvangsliðateymi í Ólafsfirði sem sinna átti fyrsta viðbragði/hjálp við útkall sjúkrabifreiðar í Ólafsfjörð frá Siglufirði samkvæmt samningi við HSN. Í bréfinu kemur fram að aðilum hafi í upphafi verið kunnugt um að erfiðlega gæti reynst að manna teymið og að Björgunarsveitin Tindur segi sig frá verkefninu.

Bæjarráð lýsir áhyggjum sínum af stöðu sjúkraflutninga í Ólafsfirði og samþykkir að boða Jón Helga Björnsson forstjóra HSN á fund til þess að fara yfir málefni sjúkraflutninga og upplýsa ráðið um næstu skref.

Jón Helgi hafi verið boðaður á fund ráðsins á þriðjudaginn næsta til að ræða framtíð sjúkraflutninga á svæðinu.

Rekstur sjúkraflutninga var lagður af á svæðinu árið 2017 og sóttist björgunarfélagið Tindur eftir verkefninu á sínum tíma.