Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Jón Gíslason, forstjóri Matvælastofnunar (MAST), undirrituðu í gær samkomulag um átaksverkefni um aukið eftirlit í kjölfar afnáms leyfisveitingakerfis þann 1. janúar nk. vegna innflutnings á tilteknum landbúnaðarafurðum innan EES.
Með samningnum er Matvælastofnun falið að samræma eftirlit og undirbúa leiðbeiningar um framkvæmdina, sem nýtist bæði fyrirtækjum og eftirlitsaðilum. Þá fær MAST einnig það hlutverk að sinna þjálfun eftirlitsaðila hjá MAST og heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga í vottorðaskoðun og í sýnatökum, til að sannreyna þau vottorð sem dreifingaraðilum ber að skila og byggja á salmonellu og kampýlóbakter rannsóknum.
Matvælastofnun mun skila atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu samantekt um framvindu verkefnisins fyrir miðjan febrúar 2020, 1. apríl 2020 og fyrir lok maí 2020.
Átaksverkefnið er liður í aðgerðaáætlun í 17 liðum um að efla matvælaöryggi, tryggja vernd búfjárstofna og bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu. Áætlunin var lögð fram af Kristjáni Þór Júlíussyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og var hún samþykkt sem þingsályktun hinn 19. júní sl. Unnið hefur verið að mótun og framgangi þeirra aðgerða í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu frá því í desember 2017 og er sú vinna í forgangi í ráðuneytinu.