Amma mín er komin hátt á níræðis aldurinn og hefur alla tíð búið í sinni sveit og lagt sitt af mörkum á langri ævi. Hún amma mín hefur ekki verið allra, hefur sterkar skoðanir á mönnum og málefnum, ekki verið í miklu uppáhaldi hjá sveitungum sem hafa farið með málefni sveitarinnar.

Nú er hún á leið í Geymslufjörð þar sem hún mun dvelja þar til yfir líkur, og eins og segir; af jörðu ertu komin og að jörðu muntu aftur verða.

Hún amma mín reyndi mikið til að fá inni í Hlíðarskála, þar sem útvaldir fá að dvelja sín síðustu ár, en það er ekki fyrir sauðsvartan almúgann að fá samband við almættið.

Engin veit hver úthlutar, engin veit hver fær dvölina og vegna þessarar leyndar veit engin hver þar dvelur. Ekki einu sinni Jón stórbóndi veit hvert almættið er.

En hún amma mín vildi ekki yfirgefa sína sveit án þess að koma við hjá Jóni stórbónda, sem flestu ræður í þessari sveit, og eiga við hann orð. Jón stórbóndi býr, eins og höfðingjum sæmir, í stóru kassalaga bæ þar sem hann geymir sögubækur sinnar sveitar og digra sjóði sveitarinnar.

Þegar við ríðum í hlað stendur sjálfur stórbóndinn fyrir framan bæinn sinn, tillir sér á tær og lítur valdsmannslega út að venju. Amma mín heilsar honum með virktum, eins og hennar er siður að koma vel fram við smáa sem stóra.

Ævinlega blessuð Kristín mín segir stórbóndinn með silkimjúkri röddu. Á hvaða leið ert þú Kristín mín, ég er á leið í Geymslufjörð og langaði til að kasta kveðju á þig Jón minn.

Mikið er þú búin að setja fallegt ris á bæinn þinn Jón minn segir amma og lítur til himins og virðir fyrir sér herlegheitin. Já Kristín mín hún spúsa mín lærði hönnun í bréfaskóla í útlandinu og fékk þessa snjöllu hugmynd.

Mikið er nú fallegt að sjá jóla ljósin á gaflinum Jón minn þau lýsa upp sveitina og það vantar ekkert nema ásjónu þína á gaflinn líka Jón minn.

Jón stórbóndi stóð nú einungins á stóru tánum og teygði vel úr sér og dæsti yfir þessum orðum ömmu minnar.

Hvaða stórbýli er risið þarna í túnfætinum í suður Jón minn með þessum háu og fallegu turnum. Það er stórbóndi úr Keflavík sem byggir þetta Kristín mín og hún spúsa mín rissaði upp þetta stórbýli fyrir höfðingjann. Stórbóndinn ætlar að hjálpa okkur að mergsjúga ykkur smælingjana en það er nú ekki eins og okkur hafi nú ekki tekist það Kristín mín eins og sjá má á þér, ekkert nema skinn og bein.

Hvað varð um fallegu kindahúsin sem sveitungi okkar reisti þegar hann kom heim frá henni Ameríku Jón minn. Það var svo gaman að sjá lömbin og mömmulömburnar hoppa og skoppa í túnfætinum á sumrin.

Það var óþolandi átroðningur í túnfætinum af flækingum sem engin skilur Kristín mín og skítakamarinn illa lyktandi og gömlu hestakerrurnar niður nýddar, ekki sæmandi í mínum túnfæti Kristín mín.

Sjáðu hvað er fallegt í túninu núna staur fyrir hvern hest og svo verður horn fyrir ykkur smælingana í nýja stórbýlinu til að fá ykkur staup og svokallað Smælingjaráð fær þar aðstöðu.

En hvaða fallega bygging er þetta í suðri Jón minn segir amma og ber hönd upp að enni til að sjá betur fyrir sólinni sem skín skært á suður himni. Það er ekkert að sjá þarna Kristín mín þetta eru bara hyllingar í birtu sólar.

Hvað segir þú mér af börnum ykkar fimm Jón minn, sjö manna fjölskylda það er nú aldeilis ríkidæmi. Ég man þá tíð að börnin komu, þegar mikið lá við, og færðu okkur fiskroð og setja í staðin kross á snepil. En nú eru þau orðin stór og búsældarleg er það ekki Jón minn.

Jú jú Kristín mín þau eru það og eru nú í kaupavinnu á stórbýlinu hjá stórbónda úr Keflavík og ekki verra fyrir hann að hafa heimafólk sem þekkir sína sveit og hvar skal niður bera.

Að svo mæltu kvaddi amma mín Jón stórbónda með þeim orðum að hér áður fyrr var gaman að ríða um fallegu sveitina og horfa á sólina setjast en engin veit sína ævi Jón minn fyrr en ekki sést til sólar.

Ömmu strákur

Mynd/pixabay