Einar Magnús Albertsson

12. júlí 1923 – 9. mars 1998

100 ár  


Foreldrarnir:
Albert Einarsson og
Þórdís Magnúsdóttir

Börnin:
Lúðvík Júlíus – 13. júlí 1912 – 8. ágúst 1987
Ásgrímur – 9. ágúst 1914 – 22. október 1996
Sigríður Hjálmfríður – 18. júlí 1916 – 22. júlí 1993
Einar Magnús – 12. júlí 1923 – 9. mars 1998
Margrét – 18. ágúst 1929 – 24. febrúar 2014
Guðrún – 18. ágúst 1929 – 4. ágúst 2007


“Ég er fæddur 12, júlí 1923 á Búðarnesi í Súðavík. Foreldrar mínir voru Þórdís Magnúsdóttir, fædd 14. febrúar 1888, dáin 30. september 1950 og Albert Einarsson f. 29. september 1888, dáinn 8. ágúst 1979.

Bernskuminningar eru flestar tengdar lífinu þar heima. Fyrst sem ég man er tengt því að báðir afar mínir höfðu þá misst sjónina.Ég fékk fljótt það hlutverk að fylgja þeim um utandyra. Þeim var báðum mjög umhugað að geta gert eitthvað gagn, og var þá helst að reyna að sinna þeim skepnum, sem pabbi hafði á fóðrum. Það fólst aðallega í því að taka til í gjöfina, láta hey í meisa, og var þá auðveldara fyrir mömmu eða bræðurna að gefa á málann.”

Þetta er upphafið á því sem áttu að verða æviágrip, eða minnispunktar, sem pabbi byrjaði að skrifa í stílabók skömmu áður en hann lést. Það urðu því miður bara fáeinar síður.

Það sem fer hér á eftir eru líka punktar, ágrip úr lífi pabba og okkar sem tengjast honum á einn eða annan hátt. Ég valdi þann kost að segja meira frá lífi pabba eftir að hann kom til Siglufjarðar árið 1943.

Pabbi og mamma hittust fyrst sumarið 1945, en þau kynntust mörgum árum áður sem bréfavinir. Þau samskiptu byrjuðu um 1940, þá er pabbi sautján ára og mamma um tvítugt.

Mamma vann á Gildaskálanum á Siglufirði um sumarið 1945, en fór um haustið heim í Önundarfjörð og svo suður að vinna sem ráðskona í Garði. 

Tilhugalífið, þar sem annað er suður með sjó og hitt er norður á Siglufirði, fór fram í bréfum. Innihald bréfanna ber merki um tilfinningar og ástríður, og ekki bara hvort til annars, heldur til lífsins og lífsbaráttunnar og þess sem verða vildi þegar fram í sækir. Það er pabbi sem svífur um í baráttuhug og mamma sem er hin jarðbundna. 

Þegar ég ákvað að skrifa stuttlega um pabba á þessum tímamótum fór ég að grúska í kössum og möppum sem pabbi skildi eftir sig. Ég hafði áður farið í gegn um þetta og sá öll bréfin og allskonar pappíra, en gaf mér ekki tíma til að lesa og kynna mér innihaldið. Hugmyndin um stutt ágrip hlaut að víkja. 

Bréfin þeirra pabba og mömmu eru góð heimild. Og ég hef líka undir höndum fjölda bréfa frá foreldrum, systkinum og ýmsum vinum og félögum pabba og mömmu frá því um 1937 og næstu áratugina. Þessum bréfum er ekki gerð skil í þessari samantekt. Það verður að bíða seinni tíma. 

Þegar pabbi dó í mars 1998 skrifuðu félagar og vinir pabba minningargreinar. Hér eru tvær glefsur sem segja margt um manninn.

Kristján Guðmundsson – bróðir mömmu og einn fyrsti bréfavinur pabba: 

Sumarið 1944 sá ég Einar “bréfavin” minn í fyrsta sinn. Hann var þá fluttur til Siglufjarðar, og ég var á síldarbáti, sem landaði oftast á Siglufirði.En aftur til ársins 1940. Ég var að ljúka við að skrifa bréf til Einars, er Þórunn systir mín kom þar að, í þann mund og ég var að skrifa kveðjuorðin. Það var enn nokkur eyða á blaðinu og skrifaði Þórunn nokkrar línur neðanmáls.”Mjór er mikils vísir.” En þetta varð til þess að Einar og Þórunn fóru að skrifast á skömmu síðar.Sumarið 1945 vann Þórunn á Gildaskálanum á Siglufirði, og þá hófust kynni þeirra fyrir alvöru.

Benedikt Sigurðsson, kennari á Siglufirði og félagi pabba um árafjöld:

Einar Albertsson var greindur maður, ágætlega máli farinn og vel ritfær, og vann öll sín verk af undanbragðalausum heiðarleika. Hann átti talsvert safn góðra bóka, hafði mætur á tónlist og lék á hljóðfæri í lúðrasveit um árabil. Hann var félagslyndur, starfaði í mörgum félögum sem honum þóttu horfa til mannfélagsbóta, og gegndi mörgum trúnaðarstörfum, síðustu árin mun hann hafa verið ein helsta driffjöðrin í Félagi eldri borgara á Siglufirði.

Ég hef ekki unnið lengur eða nánar með neinum en Einari Albertssyni, og enginn hefur reynst mér betri samstarfsmaður, enda var maðurinn fágætlega réttsýnn, orðheldinn og fórnfús. Flestir hafa bresti, sem gerir samstarf við þá misjafnlega skemmtilegt. En ég fann aldrei neinn slíkan brest hjá Einari. Enda bar aldrei skugga á margra áratuga samstarf okkar, amk. ekki fyrir hans atgerðir.

Pabbi fæddist 12, júlí 1923 á Búðarnesi í Súðavík. Foreldrar hans voru Þórdís Magnúsdóttir, fædd 14. febrúar 1888, dáin 30. september 1950 og Albert Einarsson f. 29. september 1888, dáinn 8. ágúst 1979.

Þetta er ekki hefðbundin minningargrein. Pappi var langt frá því að vera hefðbundinn, það bara virtist svo. Ég spáði ekki svo mikið í það – hann var bara pabbi minn – en seinna sá ég hvað hann var í raun. Ég man auðvitað pabba mest sem fullorðinn mann. Þegar ég fór að lesa bréfin hans og greinar sem hann skrifaði bæði áður en hann kom til Siglufjarðar og eftir, varð ég minna mig á að þessi skrif eru eftir ungling og ungan mann rétt um tvítugt. Það var greinilegt að hann hafði áhuga og hugsaði margt. 

Pabbi elskaði bækur frá því hann var lítill strákur vestur í Súðavík. Hann sótti bækur í bókasafnið og það var ekki bara afþreying heldur þekking sem hann mat. Hann skildi snemma að menntun var mikilvæg og ekki aðeins til að koma sér áfram heldur kannski mest til að skilja samfélagið og veröldina. Menntavegurinn var víða torsóttur og oftar en ekki var stærsta hindrunin bágborinn efnahagur. 

Þau voru ekki rík, fjölskyldan í Súðavík. Pabbi segir svo frá að það var þröngt heima. Húsið var lítið og fólkið margt. Heima bjuggu líka báðir afarnir hans og höfðu báðir misst sjónina. Pabbi fékk það hlutverk að fylgja þeim utandyra og hjálpa þeim til verka, því báðum var mjög umhugað að geta gert eitthvað gagn, sinna þeim skepnum sem pabbi hans, afi minn Albert, hafði á fóðrum. Þeir sátu líka við og skáru tóbak fyrir verslun Jóns Jónssonar í Súðavík og fór pabbi svo með tóbakið til Jóns og tók í staðinn rjólabitana til næsta skurðar. 

Húsið stóð næstum niðri í fjöru og í verri veðrum sleiktu öldurnar stéttina fyrir framan húsið. 

Afi Albert var bóndi og sjómaður. Um skeið réri hann á báti með Ragnari Sigurðssyni. Tveir um borð á fiskeríi inn í Djúpi. Hver róður var stundum fleiri daga og stundum fraus allt, öll stög og rár og þá varð að berja og banka til að létta bátinn. Ég spurði afa eitt sinn hvernig þeir höfðu það um borð, hvort þeir hefðu getað eldað sér mat. Það var einhver smá kytra frammi í bátnum með kamínu sem hægt var að kynda í ef það var ekki mjög slæmt í sjóinn. Þar var hægt að hita upp kostinn. Hvað var í matinn spurði ég og fékk stutt og laggott – það var nú mest grautur. Og ef ekki var hægt að hita grautinn þá var bara að tálga hann frosinn upp í munninn. 

Ég segi þetta af því að þetta er það sem pabbi sá og vissi. Það var þröngt í búi.

Afi gerðist bóndi á Dvergasteini, eða Dvergasteinskoti, lítilli jörð innan við Súðavík í Álftafirði. Þegar við ferðuðumst vestur eftir að pabbi og mamma eignuðust bíl var Önundarfjörður áfangastaður, þar bjó fólkið hennar mömmu, en enginn var eftir á slóðum pabba í Álftafirði. Við gerðum okkur þó alltaf ferð inn í Álftafjörð, og stoppuðum líka eftir að vegurinn um Djúpið var opnaður. Pabbi vildi sýna okkur æskuslóðirnar og þá sagði hann sögur af því þegar hann gekk frá Dvergasteini inn í Súðavík til að fara í skólann og á bókasafnið. Þetta var lengri spölur en börn nútímans þurfa að ganga í skólann. Pabbi sagðist hafa notað tímann til að hugsa um það sem hann hafði lesið og það sem hafði verið fjallað um í skólanum. 

Samkomuhúsið í Súðavík, sem einnig hýsti skólann og bókasafnið.

Æskuárin í Álftafirði voru á margan hátt einstakur skóli þar sem pabbi lærði að vinna og um leið að sýna samstöðu og umhyggju. Þau voru mörg í heimili og húsakynni ekki sem best, sérstaklega fyrir afana sem voru búnir að missa sjónina og þurftu mikla aðstoð, því þeir voru eins og hin áfjáðir í að gera gagn og vinna fyrir sér. Þórdís amma var aldrei heilsuhraust, og átti í langvarandi baráttu við berkla. Systkinin urðu að taka tillit til þessa og hjálpast að.

Þegar pabbi var 11 ára ákvað afi að taka á leigu jörðina Dvergasteinskot innar í firðinum og flytja þangað. Þetta var nú ekki stór jörð, og bar fáeinar skepnur. Afi þurfti því að halda afram sjóróðrum. Pabbi tók þátt í bústörfunum eins og kostur var, en hann átti nú lengri leið gangandi í skólann. Eftir að skólaskyldu lauk kom að því að pabbi fengi sér vinnu. Hann sagði mér seinn meir að sig hafi alltaf langað til handa áfram í skóla og menntast. En það var ekki hægt, engin efni til þess. Ásgrímur bróðir pabba, sem var níu árum eldri hafði farið tvo vetur til náms á héraðsskólanum að Núpi í Dýrafirði og síðan kennt einn vetur við barnaskólann í Súðavík. Lúðvík elsti bróðirinn flutti suður á Hellissand og þegar pabbi var sextán ára hafði Lúðvík samband og kvaðst geta komið honum að sem lærling hjá Guðlaugi skósmíðameistara á Hellissandi. Í fyrsta skipti á ævinni hélt pabbi af stað að heiman og byrjaði í námi í skósmíðum 1 . október 1939. 

Í vottorði frá Sýslumanni Mýra- og Borgarfjarðarsýslu segir: “… votta ég hér með að hinn 13/9 1943 tókuð þér próf í skósmíðaiðn, hér í Borgarnesi. Prófanefnd skipuðu Gísli Magnússon, Sigurbjörn Þórarinsson og Stefán Ólafsson. Einkunnir yðar voru: Verklegt 10, munnlegt 8. Aðaleinkunn 9. Nám höfðuð þér stundað hjá Guðlaugi Sigurðssyni, skósmið á Hellissandi”. Þetta vottast svo á skrautlegu skírteini um Sveinspróf, sem auk prófnefndar ber stimpil Iðnskólans á Siglufirði. Pabbi þurfti að taka bóklega hluta iðnnámsins við iðnskóla og fór þess vegna til Siglufjarðar. Þar ætlaði hann að dvelja í eina þrjá mánuði til að ljúka iðnnáminu, sem hann gerði og bætti við lífinu öllu. Þar eignaðist Siglufjörður góðan son, sem aldrei brást. 

27. apríl 1945 lauk pabbi síðan burtfararprófi frá Iðnskólanum og tók svo meistarapróf í skósmíðum. Einkunnir hans úr Iðnskólanum voru þessar: 
Í fríhendisteikningu 9.8, í iðnteiknun 9.8, í íslenzku 9.4, í reikningi 5.8, í efnisfræði 5.8, í eðlis og efnafræði 8.8, í bókfærslu 9.7, í dönsku 7.5 og í ástundun fékk hann 9.2. Aðaleinkunn 8.60 sem var I einkunn.
Þetta vottar svo Guðbrandur Magnússon, forstöðumaður skólans. Með þessu lauk hann sveinsprófi.

Meistaraverkefnið var að smíða karlmannsskó. Skó þessa átti pabbi svo alla ævi og notaði lengi vel sem spariskó. En þegar þeir fóru að slitna tók pabbi skóna til varðveislu og fylgdu þeir svo margvíslegum áhöldum og vélum sem gjöf til Síldarminjasafnsins, enda var þáttur skósmíða allverulegur á síldarárunum. 

Þegar pabbi kom til Siglufjarðar bjó Ásgrímur þar og hafði búið um nokkur ár. Hann flutti til Siglufjarðar til að stunda nám við iðnskólann og iðnnám í gullsmíði.

Pabbi var því heppinn að eiga fjölskyldu að á Siglufirði. 

Sumarið 1945 vann pabbi almenna verkamannavinnu enda nóg að gera, mikil síld og verið að byggja gríðarlegar síldarverksmiðjur. Fólk hvaðanæva að kom til Siglufjarðar. Íbúafjöldinn óx og nálgaðist óðum 3000 manns. Það var hörgull á húsnæði og fólk bjó alls staðar yfir sumartímann. Það var þetta sumar að þau hittust mamma og pabbi. En þau þekktust samt nokkuð vel. Þannig er mál með vexti að Kristján bróðir mömmu var virkur í starfi ungmennafélaganna og átti í bréfaskiptum við pennavin sinn Einar, sem honum leist vel á. Kristján sá svo um að mamma og pabbi fóru að skrifast á. Mamma var ein þeirra sem komu norður á Siglufjörð í síld og vinnu. Mamma hafði gengið á húsmæðraskólann á Laugalandi í Eyjafirði og var ekki viss um hvað gera skyldi um vorið, hvaða vinnu væri að fá. Þær skólasystur sögðu að nóga vinnu væri að fá á Siglufirði, bara að drífa sig og það gerði mamma. Þetta var alltaf viðkvæðið hjá mömmu – bara að drífa sig! Vinnu fékk hún á Gildaskálanum og svo leið ekki á löngu að hún hitt Einar pennavininn. Þau tengjast böndum þetta sumar, en mamma fór um haustið til vinnu í Garði á Suðurnesjum. 

Ég hef undir höndum bréfin sem þeim fór á milli seinni part ársins 1945 og vorið 1946. 

Pabbi skrifar eitt sinn að hann ætli að panta símtal við mömmu. En þegar hann kemur á símstöðina hefur ekki tekist að ná í mömmu. Það var ekki bara að taka upp tólið og hringja. Pabbi pantaði símtal og svo varð símstöðin í Garði að boða mömmu á tilteknum tíma á stöðina. Ekki náðist í mömmu og þess vegna þurfti að setja upp nýtt símtal síðar. Pabbi lýsir því hvernig honum líður. Að feimnin taki allan tímann, viðtalsbilið, að hann nái ekki að segja það sem hann ætlar að segja. Taugastrekktur mætir hann svo og mamma er á hinum enda línunnar og þau tala saman í þessi viðtalsbil sem pöntuð voru. Seinna skrifar pabbi að það sé miklu betra að skrifa hugsanir sínar en að reyna að segja þær í stuttu máli í síma. Fyrir þær kynslóðir sem ekki þekkja annað en venjulega síma og tölvusamskipti er þessi lýsing einstök. Fyrst þurfti að panta símtal á ákveðnum tíma. Þá þurftu bæði pabbi og mamma að vera mætt á símstöðina og svo er línan Einar og Dúdda opnuð, og það aðeins í nokkrar mínútur, annars kostar það of mikið. Þau tvö, í tilhugalífinu, en þó ekki enn kærustupar, kannski svona saman, eða? 

Í einu bréfanna skrifar pabbi um stúlku sem sé góður vinur og þau skemmti sér vel saman, en ekkert meir. Hann er einlægur og dregur ekkert undan. Hann lýsir því að þegar hann ber þær tvær saman sé ekki nokkur vafi hver sé hans útvalda. Það er ekki eins og þetta hafi gerst í gær með alla möguleika á að skiptast á orðum. Flest bréfa pabba eru skrifuð á mörgum dögum og hver hluti dagsettur. Pabbi skrifar á kvöldin, eftir vinnu og oft eftir að hafa verið á löngum fundum fram á kvöld. Hann skrifar að klukkan sé nú orðin hálf eitt og að hann þurfi að fara að sofa, en heldur samt áfram. Bréfin eru löng og segja skemmtilega sögu um lífið á Siglufirði haustið 1945 og vorið 1946. 

Það voru bæjarstjórnarkosningar í Siglufirði 27. janúar 1946 og pabbi virkur þátttakandi og í tíunda sæti á lista Sósíalistaflokksins. Hann var óhræddur við að taka þátt og hafa skoðanir á málum. Í desember 1945 var haldinn borgarafundur um áfengismál þar sem pabbi var einn ræðumanna, 22 ára gamall. Hann var alla tíð bindindismaður og taldi áfengisneyslu vera félagslegt böl. Þetta kemur líka fram í bréfaskriftum hans til mömmu.: 

“Ég frétti í dag að það hefði orðið heldur bíó á skálanum í gærkvöldi. Halli í Kjötb. var þar blindfullur og gekk að hverju borði og röflaði við gestina, svo settist hann út á mitt gólf (ekki mitt gólf) og gerði þar ýmsar kúnstir. Svo kom lögreglan og ætlaði að taka hann en hann bað þá sleppa sér, sagðist ætla að fara sjálfur. Þeir slepptu honum þá en hann settist þá bara aftur og sat fast. Þá tóku þeir hann með valdi, en hann ákallaði drottinn sér til hjálpar. En hann var þá ekki viðlátinn á Skálanum, a.m.k. kom hann ekki Halla til hjálpar svo lögreglan fór með hann. Alfreð félagi Óskars (þessi með stúdentshúfuna) sagði mér þetta, þeir voru þar allir þrír.” 

En það var þetta með stúlkuna, vinkonu pabba. Pabbi virðist hafa verið hræddur um að mamma héldi að hún væri bara ein af fleirum. Pabbi skrifaði stúlkunni bréf sem hún svaraði ekki strax, en svo kom bréf og í því jólakort frá henni. Þar segist hún skammast sín fyrir að hafa ekki svarað bréfi hans, en að hún hafi unnið svo mikið og átt erfiða tíma. Til að friða mömmu skrifar pabbi upp það sem stúlkan skrifar á kortið og spyr svo mömmu “hvort þessi stúlka hefði ekki orðað öðruvísi áritun á kort til manns, sem hún teldi vera ástvin sinn, sem hún hefði ekki haft samband við í nærri átta mánuði? Getur þú fundið slíkt út úr orðum hennar?” Mamma var þá í vinnu fyrir sunnan og bréfaskipti tóku marga daga, stundum vikur, og pabbi beið eftir svari. 

Þegar svarið kom varð pabbi fyrir vonbrigðum – mamma skrifaði stutt bréf og ekkert um stúlkuna. Kannski var þetta ekki eins mikið mál fyrir mömmu og fyrir pabba. Kannski var það frekar þetta sem hindraði mömmu í að skrifa. Í svari frá pabba segir hann: “Aumingja þú hvað þú hefur átt erfitt með að skrifa bréfið, hvergi haft frið. Munur eða ég, sem get verið einn hvenær sem ég vil og skrifað þér í friði og ró.” Mamma vann mikið og í stofunni hjá konu tengdri fjölskyldunni og þar var ekki friður og ró. Hún lýsir því að hún sitji með blokkina á hnjánum því stofuborðið sé dekkað, að von sé á mörgum gestum í kaffisamsæti. 

Síðar, þegar fer að nálgast vor, fær pabbi bréf þar sem mamma segist munu koma til Siglufjarðar fljótlega. Um áramótin hafi pabbi ýjað að því að ef hún ekki komi norður um vorið væri hann tilbúinn til að fara suður, en þó ekki nema að hann fengi trygga og góða vinnu. Helst vildi hann að mamma kæmi norður. En það var samt bara um stuttan tíma því mamma ætlaði að vera heima um sumarið, í Hjarðardal í Önundarfirði. Pabbi skrifar að þá hætti bréfasendingarnar til suðurnesja en að hann þurfi að bíða eftir bréfum að vestan.

Það er ekkert opinbert um þeirra hagi. Strákarnir í vinnunni þykjast vita að Einar sé að festast í hnappheldunni. Og í bréfum leggja þau á ráðin. Eiga þau að opinbera strax þegar mamma kemur norður? Mamma vill að þau bíði ekki lengur en til haustsins með að gifta sig. Pabbi dregur úr og segist telja að þau ættu að bíða með giftingu þangað til þau sæju fram á að þau færu að búa saman, það sé bara svo mikill hörgull á íbúðum. 

Pabbi er ungur maður. Það vefst stundum fyrir mér þegar ég les bréfin hans. Stíllinn er á margan hátt fullorðinslegur en innihaldið á tíðum hins unga manns. 

Það er augljóst að hann var vel kunnugur í bókmenntum og hafði lesið mikið. Hann las líka ljóð helstu skálda Íslands og kunni ljóðin og gat vitnað til þeirra. Á mörgum stöðum bregður fyrir ljóðrænum stíl, eins og þegar hann lýsir skíðaferð inn í Hólsdal:

“Í fyrrakvöld fór ég á skíði og gekk hér fram í Hólsdal, nokkuð langt. Við vorum tveir og fórum eftir kvöldmat. Ég vann þá til 7 og fór á skíðin rúmlega 8. Kl. var hálf ellefu þegar við komum aftur. Það var dásamlega fallegt þar fram frá, allt þakið snæ og tunglið skein á heiðum himni og varpaði sinni bláleitu og fölu birtu yfir allt.” 

Í bréfinu heldur hann áfram og óskar þess að mamma hefði verið með og upplifað þessa fegurð.

Haustið 1945 er mamma í vinnu sem ráðskona í Garði suður með sjó. Það koma margir við þar sem hún vinnur og eitt sinn kemur þar maður sem segist vera skósmiður úr Keflavík en væri eiginlega hættur af því skóviðgerðir væru ekki ábatasamar og að hann næði ekki einu sinni verkamannakaupi. Áhugi mömmu vaknaði og hún fór að spyrja manninn í þaula. Þá sagði maðurinn að hann væri reyndar að byggja nýtt verkstæði og ætti von á að fá nýjar og fullkomnar vélar, sem ameríkumenn hefðu komið með og notað skammt frá Keflavík. Með slíkum vélun tæki bara nokkrar mínútur að sóla skó. Og með slíkum búnaði væri hann viss um að skósmiðir gætu haft góðar tekjur. 

Þessu miðlar mamma til pabba, sem þá var orðinn skósmíðameistari, en vann ekki ennþá við skósmíðar. Það er eins og skósmíðar hafi ekki verið hátt metnar, því pabbi spyr mömmu í einu bréfi hvort hún myndi geta sætt sig við að verða skósmiðsfrú. Þessu svaraði svo mamma að hún vilji standa við hlið hans í hvaða stafi sem er, það sé hann og ekki vinnan sem hún hafi valið. 

Siglufjörður er um þessar mundir að vaxa verulega og íbúafjöldinn að nálgast þrjú þúsund. Raunar var fjöldinn á sumrin margfaldur íbúafjöldi, sumir töldu tíu þúsund eða meira. Það var mikil húsnæðisekla og mikið spáð í íbúðarbyggingar. Pabbi og mamma voru líka að spá. Enda þótt þau væru ekki farin að búa saman og höfðu heldur ekki opinberað sambandið var húsnæði eitt af því sem þau skrifuðu um. Sjálfsagt eins og með flesta var draumaíbúðin bara draumur. Pabbi hafði séð sér út lítið hús út í Hvanneyrarhlíð, það hafði verið notað sem grísahús og stóð nú tómt. Pabbi segir mömmu frá þessu húsi og lýsir staðsetningunni þarna langt uppi í hlíðinni með útsýni yfir fjörðinn og svo sé þetta hús líka fjarri skarkala bæjarins. Seinna skrifar svo pabbi að við skoðun sé þetta hús ekki íbúðarhæft, það þurfi mikið að gera ef svo yrði. Þar með dó sá draumur um lítið hús fjarri skarkala bæjarins. 

Árið 1935 var hafist handa við byggingu  fyrstu verkamannabústaðanna á Siglufirði, við Norðurgötu. Í frétt í Alþýðublaðinu segir að það séu um 30 hús í smíðum á Siglufirði, mörg stór og vönduð. Í annarri frétt í Alþýðublaðinu 8. september 1935 er sagt frá að verkamannabústaðirnir séu nú fullreistir og reisugjöld höfð það kvöld með um 70 manns. Eitt mesta og glæsilegasta stórhýsi á Siglufirði. 

Síðan liðu tíu ár og Byggingarfélag verkamanna , sem stóð að byggingu bústaðanna 1935, fór af stað á ný með áform um nýja verkamannabústaði. 

Frá þessu er sagt í Mjölni 1. febrúar 1945, að hafnar séu athuganir á að byggingu nýrra bústaða. 

Í Mjölni 27. mars 1946 er svo sagt frá að Byggingarfélag verkamanna ætli hið bráðasta að hefjast handa um byggingu 32 íbúða. Þessum bústöðum var síðan valinn staður út í Bakka. 

Fyrir okkur sem áttum þess kost að eiga heima í bústöðunum og alast upp út í Bakka var staðsetningin frábær. 

Haustið 1945, pabbi er þá 22 ára og komin af lífi og sál í allskonar félagsstarf á Siglufirði. Hann var virkur í starfi Verkamannafélagsins Þróttar og sat m.a. í 1. maí nefnd verkalýðsfélaganna 1945.

Í 1. maí blaði verkalýðsfélaganna í Siglufirði það árið skrifaði hann grein um 1. maí. Greinin hefst svona:
“Fyrsti maí er dagur hins vinnandi fólks. Þennan dag leggur vinnandi lýður niður áhöld sín og verkfæri, og gengur til baráttu fyrir auknum rétti og kjörum.” Og síðar í greininni: “Þennan 1. maí hins íslenzka lýðveldis ber, alþýða landsins eftir rösklega sjö alda erlenda áþján og íhlutun, fram kröfur sínar sem hluti af frjálsri og fullvalda þjóð. Hún ber fram kröfur um aukin réttindi, meira öryggi og raunverulegt frelsi. Hún álítur að frjálst ríki, frjáls þjóð geti ekki verið raunverulega frjáls á meðan innan hennar finnast ófrjálsir einstaklingar, menn og konur, sem hafa ekki frelsi til gæða lífsins á borð við aðra. Alþýðan fordæmir það frelsi sem markað er af auðæfum eða valdi, og krefst frelsis jafnt fyrir öreiga sem efnaða.”  

Í bréfum sínum skrifar hann til mömmu um allar skemmtanir og fundi sem hann fer á. Það eru árshátíðir og skemmtifundir. Hann mætir á fundi í Kaupfélaginu, sem á þessum árum eru hvassir og hörð barátta um völdin í félaginu. 

Pabbi segir svo frá í bréfi dagsettu þriðjudag 19. mars:

“… hér eru alltaf eilífar skemmtanir, sem maður kemst ekki yfir. Ég sagði þér frá því seinast að búið væri að bjóða mér á Þingeyingamótið og árshátíð Brynju. Árshátíð Brynju var haldin laugardaginn 9. mars. Var þar margt til skemmtunar. Hófst með kaffisamdrykkju og voru heimabakaðar kökur á borðum og rjómapönnukökur. Áður en risið var frá borðum var borin fram ís og gæddu flestir sér vel á honum. Það var Dóra Eiríks, sem bauð mér á þessa skemmtun. Þóroddur var í Reykjavík svo hún var herralaus og fékk mig í staðinn. Hún bað mig svo að skjótast heim með ís og pönnukökur til krakkanna og Ásgerðar. Ásgerður meiddi sig í fæti um daginn. Hún var á skíðum og snerist um ökklann og þess vegna lá hún rúmföst um þetta leyti. Ég fór heim með þetta fyrir Dóru. Krakkarnir voru komnir í bælið og Ásgerður ætlaði að fara að sofa. Við slógum svo upp veizlu þarna og átum í sameiningu ísinn og pönnukökurnar. Svo fóru krakkarnir að sofa en ég sat hjá Ásgerði og spjallaði við hana. Hún er svo fróð og hefur gaman að kvæðum, við vorum að lesa ljóð Guðm. Böðvarssonar. Ég undi mér ágætlega, mig langaði ekkert til að dansa, ég var búinn að vera í steypuvinnu allan langan daginn til kl. 6 og var því orðinn dauðþreyttur og syfjaður. Kl. var svo orðin tvö þegar ég loksins fór á ballið. Mér var heldur en ekki strítt þegar ég kom úteftir. Dóra sagðist ekki hafa farið að senda mig ef hún hefði haldið að ég gerði þennan skolla. Ég sagði henni að hún hefði nú alltaf mátt búast við því. Ég dansaði svo skyldudansana við nokkrar frúr og Siggu systur og fór svo heim.”

Og:

“Á sunnudagskvöldið fór ég svo á Þingeyingamótið. Var það hin bezta skemmtun og var dansað til kl. 3½. Ég fór svo snemma í vinnuna, kl. 7, daginn eftir og vann til kl. 6 e.h. Svo á þriðjudagskvöldið var skemmtifundurinn í Vestfirðingafélaginu.”

Þessu til viðbótar var hann í nefndum og ráðum m.a. í Sósíalistafélaginu og vermdi 10. sæti listans í bæjarstjórnarkosningunum 27. janúar, eins og áður sagði.  

Á listanum er pabbi skráður til heimilis að Hlíðarvegi 44. Mér skilst að þetta hús hafi Ásgrímur, bróðir pabba, staðið fyrir að byggja og þar bjó fjölskyldan í nokkur ár, Albert afi og Þórdís amma, Sigga, tvíburarnir Rúna og Gréta og pabbi, auk Ásgríms og Önnu. 

Pabbi og mamma bjuggu þar líka um tíma, en þau fluttu svo inn í nýja íbúð, kjallaraíbúð, í verkamannabústað við Hvanneyrarbraut 62 þann 1. júní 1948. Nokkrum dögum síðar, eða þann 26. júní giftu þau sig, enda þá von á fjölgun í fjölskyldunni um miðjan janúar 1949. 

Pabbi var ákveðinn í að þau mamma giftu sig ekki fyrr en þau hefðu íbúð til yfirráða. Þau voru búin að leita og bíða, en þegar Byggingarfélag verkamanna ákvað að byggja verkamannabústaðina þá tók pabbi að sjálfsögðu virkan þátt í félaginu og svo löngum í rekstri bústaðanna eftir að þeir voru byggðir. 

Það gekk ekki átakalaust að afla fjár til byggingar verkamannabústaða. Byggingarsjóð verkamanna þraut fé og gat ekki lánað meira og byggingaraðilar voru að komast í þrot. Þingmaður Siglfirðinga Áki Jakobsson úr Sósíalistaflokknum spurði forsætisráðherra og félagsmálaráðherra um úrlausnir. Hér eru glefsur úr fyrirspurn Áka og má sjá að staðan er ekki bara erfið heldur mjög alvarleg:

Frá Alþingi

10.04.1947
Neðri deild: 109. fundur, 66. löggjafarþing. 
Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Áki Jakobsson:
Þannig er ástatt á Siglufirði, að það er verið að byggja 30 íbúðir af Byggingarfélagi verkamanna þar, sem munu kosta um tvær millj. kr. allar saman upp komnar. Það mun vera á aðra millj. kr., sem Byggingarsjóður verkamanna á að lána til bygginga verkamanna þarna á staðnum, þegar þær eru komnar upp. Nú eru þessar byggingar mjög langt á veg komnar, og er búizt við, að þær verði í maí n.k. tilbúnar til íbúðar. … 

En ekki hefur fengizt lánað nema rösk ein millj. kr. til þessara bygginga hjá Byggingarsjóði verkamanna, og þeir, sem tekið hafa að sér stjórn bygginganna, standa með stórar kröfur gagnvart byggingarfélaginu, og þeir eru komnir í þrot og hafa tilkynnt félaginu, að þeir verði þess vegna að gera einhverjar ráðstafanir. … 

Vandræði eru mikil á Siglufirði nú, m. a. vegna þess að Síldarverksmiðjur ríkisins hafa keypt upp undir 20 íbúðir og í þessar íbúðir hefur flutt aðkomufólk, sem eru ýmsir fagmenn, sem vinna fyrir síldarverksmiðjurnar, og fólk þeirra. Þetta hefur að þessu leyti tekizt af þeim íbúðum, sem fast búsett fólk á Siglufirði annars hefði notað. Og þó að Síldarverksmiðjur ríkisins hefðu að vísu átt sjálfar að byggja yfir þetta fólk sitt, þá er ekkert við því að segja, þótt þær gerðu það ekki, ef aðrir hefðu í stað þess getað byggt á Siglufirði. En þessi íbúðarkaup síldarverksmiðjanna gera byggingar verkamannabústaðanna miklu meira aðkallandi en annars hefði verið. 

Í svari ráðherra kom fram að það væri ekkert hægt að gera. Það er ekkert fé til þessa málaflokks. 

Mjölnir segir frá því 9. júní að flutt sé í verkamannabústaðina alla, í syðsta húsið um mánaðarmótin september – október s.l., í miðhúsið í desember og í nyrsta húsið í byrjun júní. Öll húsin eru eins, í hverjum enda eru fjórar þriggja herbergja íbúðir og ein tveggja herbergja í kjallara. 

…………

Það var í kjallaraíbúð í syðri endanum á nyrsta bústaðnum, Hvanneyrarbraut 62, að pabbi og mamma fluttu inn þann 1. júní 1948. Það er næsta víst að þau áttu ekki mikið innbú, en einhverjar mublur hafa þau samt eignast. 

Af bréfum að dæma bjó pabbi á fleiri stöðum áður en hann flutti, ásamt fleirum úr fjölskyldunni, að Hlíðarvegi 44. Það koma bréf til pabba fra 1943 á Suðurgötu 8 og frá 1944 líka á Norðurgötu 5. Í Suðurgötu 8 bjó Guðlaugur Sigurðsson skósmiður uppi og hafði skósmíðaverkstæði niðri, og þar var líka rekin veitingasala. 

Pabbi kom til Siglufjarðar til þess að ljúka bóklega hluta iðnnáms, en verklega hlutanum hafði hann lokið á Hellissandi á Snæfellsnesi hjá öðrum Guðlaugi Sigurðssyni skósmiði þar. Pabbi lauk svo meistaranámi í skósmíðum hjá Guðlaugi og hefur þess vegna verið nemi hjá honum um tíma. Ekki veit ég hve lengi pabbi bjó í Norðurgötu 5, í húsi sem ekki lengur er til. E.t.v. þangað til hann flutti inn í herbergi á Hlíðarvegi 44. 

Nákvæmlega hvenær pabbi kom til Siglufjarðar er mér ekki kunnugt um. Líklega í september 1943, eftir að hafa lokið sveinsprófi í skósmíði á Hellissandi.  

Þegar pabbi og mamma fluttu inn í eigin íbúð í verkamannabústaðnum rættist draumur þeirra. Pabbi var mjög fylgjandi félagslegum úrlausnum á húsnæðisvanda. Bygging verkamannabústaða var baráttumál sósíalista og það var líka þess vegna mikill áfangi fyrir þau að eignast framtíðar húsnæði. Og, eins og pabbi hafði skrifað í bréfi til mömmu, þá gátu þau loks gift sig og farið að búa. 

Ég fæddist í svefnherberginu heima rúmlega hálfu ári eftir að við fluttum inn. Ég segi við af því að ég var þá komin örlítið áleiðis. 

Mig langar til að lýsa íbúðinni í verkamannabústaðnum eins og ég man eftir henni. Mublurnar voru af ýmsu tagi. Stofan var eiginlega alltaf lokuð og læst, hún átti að vera spari. Mömmu var mikið í mun að það væri hægt að taka á móti fólki og bjóða til stofu þar sem allt væri í röð og reglu. Ekki að það væri ekki regla á hlutum annars staðar í íbúðinni, en þar var allt til hversdagslegra nota. Og svo þegar ég fór að láta til mín taka voru kollarnir úr eldhúsinu orðnir að kappakstursbílum í ganginum, sem í minningunni er óralangur.  

Það þurfti ekki mikið til að stofan væri full af mublum. Það voru tveir gluggar á stofunni, annar upp undir lofti og sneri upp að götunni og hinn var í eðlilegri hæð og sneri að miðbústaðnum. Meðfram eina heila veggnum í stofunni var dívan. Ég man alltaf að mér þótti hann óþægilegur að sitja á og enn verri að liggja á, hann var svo harður og áklæðið gróft. Yfir dívaninum var hilla með útskorinni skreytingu. Upp á hillunni voru ýmsir skrautmunir og styttur. Ég man að þar voru hausarnir á Lenín og Stalín. Undir glugganum upp að götunni var bókaskápur með glerhurðum sem var rennt til hliðar. Fínn skápur. Undir stóra glugganum var lítið borð, kringlótt, og á því skrautmunir. Eftir ein jólin var þar komin jólagjöfin okkar systkinanna til mömmu. Við höfðum fengið hjálp góðrar konu, vinkonu pabba og mömmu, til að kaupa jólagjöf. Konan valdi sígarettuhaldara, þ.e. silfurlitaðan bakka með silfurlituðu statífi með gleri í, sem passaði til að stinga sígarettum í, einum pakka eða svo. Þannig gátu gestir fengið sér sígarettu þegar þeim var boðið til stofu. Ekki reyktu pabbi og mamma og það var alls ekki gestkvæmt í stofuna, fólk sat yfirleitt í eldhúsinu, enda þannig fólk, alþýðufólk. Það var því oft uppþornað tóbak sem boðið var upp á, og fyrir mömmu og pabba var tóbak bara tóbak, þurrt  sem vott. Það er líka stutt saga af þessu sígarettuáhaldi. Okkur Siggu Dísu þótti sígarettuhaldarinn heldur lítill sem jólagjöf. Við vorum á þeim aldrinum að því stærri sem jólapakkinn var þeim mun glaðari væru þau sem fengu. Við fengum konuna til að hjálpa okkur við að pakka sígarettuáhaldinu í stóran pappakassa og fylla hann svo með samankuðluðum pappír og hálmi. Utan um þetta var svo jólapappír og merkimiði – Til mömmu frá Abba og Siggu Dísu. Ég fer ekkert út í það að lýsa viðbrögðum mömmu. En ég held að hún hafi hugsað konunni þegjandi þökk fyrir aðstoðina. . 

Við hliðina á litla kringlótta borðinu var stóllinn, hægindastóllinn góði. Þetta var tiltölulega stór stóll með löngu seti og háu baki og með örmum sem sveigðust frá framfótum og festust í bakið. Stóllinn var gamall þegar hann kom til okkar, en eins og margt gamalt var hann góður. Hann fylgdi okkur svo upp á Hólaveginn og lét svo undan fyrir nýtískulegum hægindastólum. 

Við endann á ganginum voru dyr út, tvöfaldar dyr, ein innri og önnur ytri. Þær voru eiginlega alltaf lokaðar. Ég veit ekki af hverju!

Gegnt stofunni var svefnherbergið. Þó svo að ég hafi fæðst þar þá man ég eiginlega ekkert eftir því. Herbergið var lítið og ekki mikið pláss fyrir annað en tvíbreitt rúmið og eina kommóðu. Ég svaf þar fyrstu árin og svo Sigga Dísa líka þegar hún kom, en fljótlega var plássið þrotið. 

Baðherbergið var mjótt, náði frá ganginum og inn að vegg. Innst var sturtan og þar uppi á vegg var lítill gluggi út að götu. Sturtan var eins breið og baðherbergið og var með tiltölulega háum steyptum kanti svo vatn færi ekki fram á gólfið. Þarna var svo klósett og vaskur og yfir vaski var spegill. Það voru líka hillur eða skápur til að geyma handklæði og þess háttar. Oft var sturtan upptekin af netahnýtingum sem mamma tók að sér fyrir Netastöðina. Eldhúsið var til vinstri þegar komið var úr forstofunni. Inn af eldhúsinu var búr. Þegar ekki var lengur við það unað að við bæði systkinin svæfum inni hjá pabba og mömmu tók pabbi niður hillurnar í búrinu og sett inn kojur. En það var hængur á, kojurnar voru breiðari en veggbúturinn við dyrnar og stóðu því talsvert út í dyraopið. Þarna fengum við okkar eigið “herbergi” og pabbi og mamma fengu sitt eigið herbergi á ný. 

En þessi litla íbúð rúmaði fleira. Pabbi var alltaf að skrifa og sat við oft langt fram á nótt. Á milli gangsins inni og dyranna út í kjallaraganginn var forstofa með fatahengi. Pabbi innréttaði fatahengið sem skrifstofu. Hann þiljaði fatahengið af og setti rennihurð. Í endanum á “skrifstofunni” kom hann fyrir borðplötu og þar yfir hillu fyrir skrifstofuáhöld og möppur. Skrifstofustóllinn var einfaldur eldhúskollur sem hann skaut inn fyrir rennihurðina og bakkaði svo sjálfur inn og settist á stólinn og færði sig síðan að skrifborðinu. Þar stóð ritvélin, svört og gljáandi. Þegar pabbi skrifaði á ritvélina heyrðust smellirnir þegar leturarmarnir lömdu pappírinn. Pabbi kunni að skrifa á ritvél með öllum fingrum og gat því horft á handritið og skrifað. Yfirleitt skrifaði hann uppkast eða vel yfirlesið handrit áður en hann vélritaði. 

Á veggnum innan við forstofuna, við hliðina á eldhúsdyrunum, var síminn. Pabbi var farinn að vinna hjá Pósti og síma og fékk þess vegna síma langt á undan öðrum í verkamannabústöðunum. Þetta var kannski ekki almenningssími, en oft vorum við krakkarnir sendir til að sækja fólk í símann og fólk kom líka til að fá að hringja. Mamma sagði við okkur að við ættum ekki að hlusta, það væri kurteisi. Stundum komumst við ekki hjá því að heyra eitthvað því ekki töluðu allir á lágum nótum og það kom fyrir að það var hrópað, eins og enginn væri síminn, og skellt á. Smám saman varð þetta vani og við létum okkur ekki bregða. 

Við kjallaraganginn, þar sem gengið var inn í íbúðina, voru margar dyr. Undir tröppunum voru dyrnar inn í okkar geymslu, sem var lítil og lágt undir loft og ekkert innst. Dyrnar til vinstri frá okkur voru að kyndiklefanum. Þar var stór olíukynntur ketill fyrir allar íbúðirnar í okkar enda. Á móti voru geymsludyr með glugga út að sjó og lengst voru þrjár dyr að geymslum. Þetta voru talsvert stórar geymslur fyrir hæðirnar uppi. Svo var gengið inn í snyrtiherbergið, sem kallað var, sem var sameiginlegt herbergi með dyrum út á hlaðið. Í snyrtiherberginu var vaskur og niðurfall. Þarna geymdu margir bæði sleða og hjól og sitthvað fleira. Ég notaði snyrtið til að fara út ef leiðin lá niður á bakkana, en upp tröppurnar og út um aðalinnganginn ef leiðin lá upp á götu eða yfir götuna til Fúsa vinar míns. 

Snyrtið var oft vettvangur leikja og prakkaraskapar, en hér er ekki vettvangur til að segja þær sögur enda þótt pabbi hafi stundum þurft að skakka leikinn eða setja hömlur á ærsl og uppátæki. 

Það var alltaf tilhlökkun í lok nóvember eða byrjum desember að von var á pakkanum að vestan. Í mínum huga er pakkinn risastór pappakassi. Víst var kassinn stór en ég verð að viðurkenna að hann var það í samanburði við mig, mína stærð. Það voru sjálfsagt bréf og jólakort í pakkanum en það sem tók næstum allt plássið var harðfiskur, óbarinn. Ýsa og steinbítur, þ.e. rikklingur. Það jafnaðist ekkert á við harðfiskinn að vestan. Kassinn með harðfiski var síðan geymdur innst í kompunni undir stiganum og einn og einn fiskur tekinn og barinn á steðja sem pabbi hafði í geymslunni og síðan borðaður með hnoðmör. Það voru fleiri sem fengu harðfisk að vestan. Uppi bjuggu Addi og Heiða og krakkarnir. Heiða var frænka pabba úr Álftafirði en Addi var ættaður úr Hnífsdal, bróðir þeirra Bjarna og Jóns á Visnesi og Pálu Sig, konu Sigga í slippnum. Siggi, pabbi Adda, bjó um tíma hjá Adda og Heiðu. Ég hugsaði ekki út í það þá, en hvar svaf Siggi? Enda þótt íbúðin uppi væri stærri en okkar, þá voru bara tvö svefnherbergi og ein stofa og það voru fjórir krakkar. Mig minnir að þá þegar hafi geymslan niðri verið innréttuð sem svefnherbergi og að Siggi hafi búið þar?  En, hvað um það, þau fengu líka harðfisk að vestan og Siggi gamli sat við og barði fisk í snyrtinu. Ég man vel að hann setti fiskinn undir rennandi vatn úr krananum áður en hann barði fiskinn, líklega til þess að hann molnaði sem minnst. 

Pabbi vann mikið og oft langa daga. Það var ekki alltaf launavinna heldur allskonar störf í hinum ýmsu félögum á Siglufirði. Eins og þegar er komið fram var pabbi virkur þátttakandi í félagslífi á Siglufirði frá því hann kom í bæinn. Hann var virkur félagi í verkalýðshreyfingunni og í Sósíalistaflokknum. Hann var ötull í bindindismálum og lét sig málefni Kaupfélagsins skipta. Þetta varð hlutskipti pabba alla ævi, félagsmál og félagslegt og efnalegt réttlæti. 

Mamma vann líka mikið, eða eins og hægt var. Hún saltaði síld á sumrin og skúraði barnaskólann á verturna. Hún vann í þvottahúsi Sjúkrahúss Siglufjarðar. 

Þegar lítið var að gera tók mamma, eins og svo margar aðrar konur, verkefni heim. Hún reið net fyrir Netagerðina inni á baði. Þar urðu til mörg stykki sem síðar urðu að botntrollum fyrir togarana. Þetta var akkorð, hún fékk borgað fyrir hvert stykki, og mamma dró aldrei af sér og nýtti allar stundir til að hnýta. 

Fyrri hluti sjötta áratugarins var oft rýr. Lélegar síldveiðar settu strik í reikninginn hjá mörgum. Það var ekki bara að atvinnutekjur drógust saman heldur var samfélagið alls ekki undir það búið. Vöxtur Siglufjarðar var mikill og náði íbúafjöldinn hæst í rúmlega 3100. Svo dró úr síldveiðum og atvinnuleysi varð verulegt allt árið um kring. Pabbi fór ekki varhluta af þessu. Hann var farinn að vinna við iðn sína skósmíðar ásamt fleirum skósmiðum. En þegar síldveiðar drógust saman varð minna um verkefni á verkstæðinu. Um þetta leyti var hann líka starfsmaður á skrifstofu Sósíalistaflokksins, sem hafði haft vind í seglin á Siglufirði og gaf vikulega út málgagnið Mjölni. En það var með pólitíkina eins og síldina. Stundum var mokveiði og svo kom aflabresturinn og atvinnuleysið og pólitíkin fór ekki varhluta af því.
Ég var ekki hár í loftinu þegar ég var með pabba á skrifstofunni í Suðurgötu 10. Það var afrek að byggja húsið að Suðurgötu 10, sem síðar var af gárungunum kallað “kommahöllin”, á árunum eftir seinni heimsstyrjöldina. Ég man ekki að pabbi og félagar hans hafi kallað Suðurgötu 10 “kommahöllina”, heldur alltaf Suðurgötu 10. Ég held að pólitískir andstæðingar hafi haft meiri áhuga á að nota kommúnistaorðið yfir þá félaga, en þeir sjálfir. Þeir voru mest uppteknir af baráttumálum dagsins. Einn þessara gömlu félaga pabba sagði við mig eitt sinn; – ég held að ég hafi aldrei komist til að lesa kommúnistaávarpið, en mér skilst að það segi frá svona fólki eins og okkur og baráttu þess fyrir réttlæti. Pabbi las rit Marx og Engels og áleit sósíalisman vera fyrirkomulag sem tryggði jöfnuð og réttlæti. Hann skrifaði talsvert um sósíalíska baráttu í Mjölni og hann var alla tíð eindreginn hernaðarandstæðingur. Eins og hann skildi vel og dáði hetjulega baráttu Sovétríkjanna gegn nasismanum þá skildi hann ekki aðgerðir Sovét í Ungverjalandi 1956, og enn síður innrásina í Tékkóslóvakíu 1968. Þá brast endanlega traust pabba til Sovétríkjanna. 

Ég var kannski meira á hlaupum um skrifstofurnar í Suðurgötu 10, en að hlusta á rökræður félaganna á meðan þeir brutu um Mjölni og pökkuðu, eða að ég teiknaði á renninga sem ég fékk í ómældu magni á prentsmiðjunni. Mjölnir var prentaður í Prentsmiðju Siglufjarðar, u.þ.b. hundrað metrum sunnar við Suðurgötuna. Blaðið kom óbrotið og því þurfti mannskap í að brjóta, fyrst í tvennt og svo aftur í tvennt og en á ný í tvennt. Venjulega var Mjölnir fjórar síður, en stundum voru síðurnar átta, og þá þurfti að brjóta innsíður sérstaklega og stinga inn í útsíður og brjóta svo í tvennt og svo í tvennt. Ég man að pabbi var röskur í að brjóta og hafði eigið lag og að hann notaði brot úr breiðri reglustiku til að strjúka brotið. Þetta reglustikubrot notaði hann í mörg ár og geymdi vel, enda úrvals áhald. Mjölnir var seldur í lausasölu í bænum og það voru mest krakkar sem seldu blaðið. Það sama gilti um hin bæjarblöðin, Neista sem Alþýðuflokkurinn gaf út, Einherja sem Framsókn gaf út og Siglfirðing sem Sjálfstæðisflokkurinn gaf út, það voru krakkar sem seldu blöðin. 

Það var oft örtröð í Suðurgötu 10 þegar Mjölnir kom út, það var um að gera að verða fyrstur á þá staði þar sem margir unnu og flestir keyptu eintak. 

Í Suðurgötu 10 voru tvær skrifstofur, eða öllu heldur ein skrifstofa og eitt fundarherbergi og svo fundarsalur. Þar var líka lítið eldhús og undir eldhúsinu var kjallari eða kyndiklefi því hitað ver með olíu í þá daga. Aftast í salnum var klefi fyrir kvikmyndasýningarvél og í hinum endanum var sýningartjald, sem hægt var að rúlla upp þegar ekki var verið að nota það. 

Það var alltaf eitthvað að gerast í Suðurgötu 10 og pabbi vann þar frá því snemma á morgnana og þar til seint á kvöldin þegar fundum eða skemmtanahaldi lauk. Mamma spurði pabba oft hvort hann gæti ekki fengið einhverja aðra til að loka og ganga frá, en pabbi sagði það vera óþarfi, hann gæti séð um það. Mamma sagði mér seinna að hann hafi ekki viljað treysta öðrum fyrir þessu. Það er þessi endalausa samviska sem hann fékk í uppeldinu sem barn, sagði hún. 

Þrátt fyrir að það væri alltaf eitthvað að gera á skrifstofunni þá voru stöðugt færri krónur sem út var að spila og pabbi fékk oft lítið eða ekkert greitt. Ég man ekki eftir að við fengjum lítið að borða, en ég man að þau töluðu um það og pabbi fór oft erindisleysu niður á Hafnarbryggju í von um einhverja vinnu. Einhverju sinni var ég á vappi niðri við Öldubrjót og sá að það var verið að skera hrefnu á bryggjunni. Það var blóð um allt og stór kjötstykki í kös og í annarri kös voru afskorningar. Einn þeirra sem var að skera spurði mig hvort ég vildi hrefnukjöt í matinn. Ég játti því og hann tekur upp stykki og segir mér að rétta út hendurnar. Hann leggur kjötstykkið í fangið og segir mér að hlaupa heim með þetta. Það var talsvert löng leið heim. Fyrst meðfram flóðvarnargarðinum og svo fram hjá Shell og neðan við sundlaugina og eftir túninu og inn í snyrtið og inn í eldhús þar sem mamma stóð og horfði á mig alblóðugan, en alsælan, með kjötið í fanginu. Við fengum steikt hrefnukjöt í kvöldmatinn og mamma setti fötin mín í suðupottinn og þvottavélina á háloftinu. Mér fannst ég hafa dregið björg í bú. 

Pabbi tók við rekstri Bílastöðvarinnar. Bílastöðin var við torgið, við endann á Gránugötunni. Þar voru stæði fyrir vörubílana og þar voru dælur fyrir bæði bensín og olíu. Bílastöðin var ekki stór um sig. Það var gengið inn á horninu sem sneri að Egilssíld og á móti dyrunum var afgreiðsluborðið og til hægri var gengið inn í biðsalinn eða herbergið þar sem bílstjórarnir biðu eftir túr. Inn af afgreiðslunni var skrifstofukompa stöðvarstjórans. Pabbi var, eins og komið hefur fram, bindindismaður og vildi ekkert af áfengi vita. Hvort sem það var einhver fótur fyrir því eða ekki þá gerðist það oft til að byrja með og síðan sjaldnar, að menn komu og spurðu um áfengi. Ég man bara að pabbi sagði frá þessu, en ekki hvernig þeir spurðu, hvaða orð þeir notuðu. En pabbi átti ekkert. Ég var orðinn níu ára þegar pabbi byrjaði á Bílastöðinni. Pabbi var alls ekki ánægður með hvað ég kom oft og settist inn hjá bílstjórunum. Stundum beið ég eftir að ákveðnir bílstjórar fengu túr og þá fékk ég að sitja í, sem var mikið gaman. Ég kunni vélarhljóðin í flestum bílunum og sérstaklega hjóðið í gírkössunum þegar bílarnir mjökuðu sér upp brattar brekkurnar á Skarðsveginum. Ég sat líka á bekknum í biðsalnum og hlustaði á rökræður bílstjóranna. Það var viðkvæmt verk að raða túrum á bílstjórana og auðvelt að finna að. Aðalreglan var að næsti á listanum fékk næsta túr, en stundum var beðið um bíl af stærri gerð og svo þegar sumir bílanna voru komnir með krana vandaðist málið. Það voru heldur ekki allir bílstjórarnir sem voru tilbúnir til að flytja tunnur austur á land. Þetta varð þess vegna nokkur umræða um í biðsalnum og sýndist sitt hverjum og pabbi fékk orð í eyra um að hygla sumum. Hann lét það ekki á sig fá en reyndi að gæta réttlætis og stundum fengu litlir bílar tiltölulega fleiri léttari túra en röðun sagði til um. Bensínafgreiðslan var opin á sama tíma og Bílastöðin, en eftirspurnin eftir bensíni var stundum eins mikil seint á kvöldin og um miðjan dag og stundum var bankað upp á heima að nóttu til og lá þá mikið á að fylla tank. Pabbi fékk orð í eyra hjá mömmu; – þú átt ekki að láta þetta eftir þeim, þeir geta bara beðið. En pabbi gat ekki annað en látið eftir og rétt hjálparhönd, það gat mikið legið við að komast alla leið. Þessi ár á Bílstöðinni voru ár langra vinnudaga. 

Við fluttum frá Hvanneyrarbraut 62 að Hólavegi 15 árið 1959. Það var alveg nýtt tvíbýlishús og við fluttum inn á neðri hæðina en húsbyggjandinn Sigurður Þorsteinsson og kona hans Hulda Njálsdóttir fluttu inn á efri hæðina. 

Húsið var byggt á aurskriðu sem féll á hænsnahús sem þar stóð og lagði það í rúst. Ekki mun hafa náðst að koma grunninum niður á fast og sáum við það strax og við fluttum inn að það voru sprungur í gólfum. Húsið hafði sigið, en Siggi sagðist viss um að það lagaðist og grunnurinn yrði fljótlega stöðugur. Ofan við húsið var bæjarlækurinn og hafði honum verið komið fyrir í ræsi sem lá niðurgrafið við hliðina á húsinu okkar. Yfir niðurfallinu, ofan við húsið, var rist til að hindra að krakkar og annað laust félli niður í rörið. Það kom fyrir í úrhellisrigningu að ræsið fylltist og það flæddi yfir lækjarbakkann og þá var sem stór á rynni norðan við húsið og gróf sig niður og skildi eftir djúpan skurð og talsverðan haug af mold og aur á götunni. 

Þegar við fluttum inn var íbúðin alls ekki tilbúin, eins og gerðist og gekk á þeim tíma. Við áttum eftir að gera ýmislegt. Í nokkrar vikur áður en við fluttum inn fórum við á hverjum degi til að rífa múrpússninguna. Pabbi kallaði það að rífa. Múrveggirnir voru talsvert hrufóttir og við skrúbbuðum þá með sléttum steinum. Steinarnir voru alls ekki léttir og það tók í hendur og handleggi að rífa, stundum klukkutímum saman. Áfram með puðið, sagði pabbi, við flytjum ekki inn fyrr en veggirnir eru málaðir, allavega eina umferð. 

Pabbi hafði sent nákvæmt mál á eldhúsinu til Kristjáns bróður mömmu í Kópavogi. Stjáni rak trésmíðaverkstæði og byggingafyrirtæki. Sömuleiðis hafði pabbi mælt svefnherbergið og litla herbergið, sem við kölluðum það, og sent til Stjána. Stjáni hafði tekið að sér að smíða eldhúsinnréttingu og svefnherbergisskápa. Það var svo annar Kristján, en Sigtryggsson og sonur hans Sigtryggur, sem fengu það verkefni að setja upp innréttinguna og skápana. Það var haft orð um að ekki hafi verið millimetrum of aukið né á vantað þegar eldhúsið var upp sett, og skáparnir. 

Íbúðin var rúmgóð með tveimur samliggjandi stofum, svefnherbergi og litlu herbergi, auk þess eldhús og bað. Á neðri hæðinni var líka þvottahús fyrir báðar hæðir og olíukynditæki. Inn af þvottahúsinu var geymsla fyrir okkar hæð. Húsið var að nokkru leyti niðurgrafið, það var til dæmis ekki nema tæpur hálfur meter upp í eldhúsgluggann, sem sneri upp að fjallinu og sama er að segja um borðstofugluggann sem sneri í suður. Pabbi hafði áhyggjur af þessu og fljótlega var ég virkjaður í að grafa meðfram húsinu. Þegar skurðurinn, u.þ.b. hálfur metri í breidd, og allavega einn meter djúpur var tilbúinn var hann fylltur með grjóti, eitthvað hafði komið upp úr skurðinum en annað tíndum við hér og hvar. Aðkomandi vatn átti nú greiða leið meðfram veggjum og niður á götu.

Það hafði verið gert ráð fyrir að annað okkar systkina fengi litla herbergið, en þegar við fluttum varð það úr að Albert afi flutti til okkar og í litla herbergið. Afi var þá enn við sæmilega heilsu og vann fullan vinnudag í SR frystihúsinu um vetur og í SR 46 á sumrin. Afi fæddist 1888 og var því orðinn sjötugur þegar hann flutti til okkar á Hólaveginn. Hann gekk til vinnu í mörg ár eftir það og ég man að hann vann úti á þrónum þegar ég vann inni á kvörnunum í SR 46. Þá hefur hann verið allavega 75 ára. Það var oft mitt verk að vekja afa þegar hann átti að mæta á vakt, eða það þurfti yfirleitt ekki, hann vaknaði sjálfur við eigin innbyggða klukku. En það var dálítið sérstakt að koma að rúminu hans og náttborði, því á náttborðinu voru tvö glös með vatni í og í öðru var eitt auga og í hinu voru tveir gómar. Þegar afi fór á stjá setti hann inn augað og tennurnar. Afi var á margan hátt sérstakur maður. Hann var strangheiðarlegur og stundum um of. Árum saman sá hann um umbúðir utan um frosinn fisk í íshúsinu. Hann tók til umbúðir og lagði á borðin í vinnslusalnum og var því mættur í vinnu á undan öllum öðrum. Konurnar skyldu ekki þurfa að bíða eftir umbúðum klukkan sjö þegar vinnan átti að hefjast. Afi stimplaði dagstimpla á kassa sem fóru inn í frystiklefa. Hann fékk nákvæmlega uppgefið hvað var mikið í frystunum og stimplaði fjölda kassa eftir því. Það fóru ekki margir kassar í súginn. Allt þetta vann hann að mestu einn og þegjandi. Hann sagði ekki mikið og sparaði orðin. 

Ég ætlaði alltaf að spyrja afa um svo mikið sem mig langaði að vita um pabba og hans æsku í Súðavík og á Dvergasteini, en það var ekki auðvelt um svör. Eitt sinn hitti ég mann að nafni Ragnar. Sá sagðist þekkja afa, hann hafði keypt búið í Álftafirði af honum og þeir höfðu róið saman til fiskjar í mörg ár. Ragnar þessi var í úrtaki varðandi félagsfræðilega könnun sem ég vann að. Könnunin átti að taka um það bil klukkustund, en ég sat hjá Ragnari í nær átta tíma. Hann sagði mér af þeim tveimur á báti við veiðar í Ísafjarðardjúpi. Hann lýsti fyrir mér hvernig þeir þurftu að berja ís af stögum og liggja í vari. Stundum var hver róður fleiri sólarhringar, það var vetur og frost. En, við veiddum oft vel. 

Seinna, þegar ég spurði afa að þessu svaraði hann bara. Hittirðu Ragnar? Ég sagði sem var að ég og Ragnar hefðum átt gott og langt tal saman. Þá sagði afi að hann hefði ekki miklu við að bæta. Ég fékk afa ekki til að segja mér frá uppeldi pabba, aðeins að það hafi ekki alltaf verið auðvelt og stundum mjög þröngt. 

Pabbi sagði mér svo seinna undan og ofan af því þegar hann ólst upp í Búðarnesi í Súðavík og svo seinna á Dvergasteini. Ég held samt að pabbi hafi mest sagt mér af því skemmtilega og haldið hinu til hlés. Hann minnist þess með hlýju að hafa hlustað mikið á báða afana blindu, sem hann fylgdi til vinnu útivið. Pabbi sagði að það sem þeir sögðu hafi ýtt undir hann til að lesa góðar bækur. Þeir kunnu að segja frá. 

Albert afi bjó heima þangað til hann var orðinn nær níutíu ára og fór þá á sjúkrahúsið. Öll árin heima var afi mjög upptekinn af að borða hollan mat. Á hverjum morgni drakk hann súrmjólk sem hann sýrði í krukku með gerlum, mig minnir að hann hafi kallað þá kákasusgerla. Gerlarnir uxu og þurfti afi öðru hvoru að klípa af þeim. Hann setti gat á eggið og drakk innihaldið. Hafragrautur og slátur. Allt þetta vegna magans, sagði hann. Þegar hann um nírætt kom á sjúkrahúsið var niðurstaða lækna að það væri ekkert sérstakt að maganum eða öðru innaní honum. Það var bara skrokkurinn sem var að gefa sig eftir erfiðisvinnu áratuganna. Hann dó í ágúst 1979. 

Þegar pabbi hætti á Bílastöðinni árið 1961 fór hann að vinna á ný hjá Pósti og síma, en hann hafði unnið þar fáein ár laust eftir 1950. Að þessu sinni var þetta upphaf um þrjátíu ára starfs sem póstfulltrúi.

Pabbi var af einhverjum ástæðum mjög áhugasamur um bíla. Það leið því ekki á löngu að þau mamma festu kaup á bíl, en samt bíl eftir efnum. Árið 1962 keyptu þau nýjan Skoda Octavia, rauðan bíl, 42 hestöfl með gírskiptingu í stýri. Pabbi hafði þá þegar tekið bílpróf og mamma gerði það líka. En það fór nú samt svo að það var pabbi sem keyrði og mamma fékk litla sem enga æfingu og svo rann hennar ökuskírteini út í sandinn. Þær voru margar ferðirnar sem við fórum í Skódanum. Það er skiljanlegt að með aðeins 42 hesta vél voru margar brekkurnar á leið vestur á firði helst til erfiðar fyrir fullhlaðinn Skódann. Það kom fyrir að pabbi stóð á bremsunni og hélt við en við hin fórum út að ýta. En við komumst klakklaust allra okkar ferða þó svo að það tæki sinn tíma. Áhugi pabba var í raun ekki á bílum, heldur á umferð og samgöngum. Hann var meðlimur í Bindindisfélagi ökumanna og var virkur þátttakandi í því ferli þegar skipt var yfir í hægri umferð í maí 1968. Skódinn var góður en pabbi vildi gjarnan eignast þægilegri bíl. Bróðir mömmu átti Citroën CX bíl sem hann hrósaði mjög og fékk sannfært pabba um að það væri bíll fyrir hann. Svo pabbi skipti á Skóda yfir í Citroën. Pabba líkaði bíllinn en samt var hann ekki ánægður, það var svo margt sérstakt við þessa frönsku fínu bíla. Árið 1975 frétti pabbi að von væri á alveg nýrri tegund bíla, sem voru bæði jeppi og fólksbíll, frá Sovétríkjunum. Pabbi pantaði strax bíl hjá umboðinu, Bifreiðum og landbúnaðarvélum. Þetta var Lada Sport, eða Lada Niva, eins og bíllinn heitir í öðrum löndum. Það komu eitthvað um tuttugu bílar í fyrstu sendingu og ég fékk heiðurinn af að leysa út Löduna hjá umboðinu. Það var áskilið að koma aftur með bílinn til skoðunar og yfirferðar eftir tvo mánuði. Það vakti óskipta athygli þegar ég ók um götur í Reykjavík. Ósjaldan var ég stoppaður af forvitnum sem vildu skoða og spyrja. Eftir skoðun og eftirlit kom pabbi suður og sótti Löduna og skildi Citroën CX  bílinn eftir hjá mér. Pabba líkaði Ladan sérlega vel, Ladan komst leiðar sinnar með ágætum og var þægilegur ferðabíll. 

Pabbi hélt alltaf tryggð við pólitíkina, en í stað flokkspólitíkur fór meiri atorka og tími í allskonar félagsmálastarf, sem pabbi vann af sömu natni og með pólitíkina fyrrum. Pabbi var aldrei neinn íþróttagarpur, en stundaði þó ípróttir lengi á eldri dögum, sérstaklega badminton. Hann var valinn til forystu í Íþróttabandalagi Siglufjarðar, örugglega vegna reynslu sinnar af félagsmálum. Hann vann með Skógræktarfélaginu að uppgræðslu í Siglufirði og síðar meir var hann ötull talsmaður eldri borgara. 

Pabbi hafði ótrúlega gaman af ferðalögum erlendis og fóru þau mamma oft í sólarferðir til Júgóslavíu og til Ítalíu og síðar til Kanaríeyja. Pabba líkaði vel sól og hiti.

Þessu er nú að ljúka. Það er margt ósagt og mörgu ekki gerð skil hér núna. Má þar nefna ferðir pabba, fyrst til Búkarest í Rúmeníu sumarið 1953 og seinna til Bakú við Svartahaf 1967. Ferðinni til Búkarest gerði pabbi skil í ítarlegum greinum í Mjölni. 

Ég hef heldur ekki gert grein fyrir starfi pabba að skósmíðum. Hann vann aðeins stuttan tíma á verkstæði, fyrst hjá Guðlaugi Sigurðssyni, sem hafði verkstæði í Suðurgötu 8 og svo á verkstæðinu sem hann og mágur hans Jón áttu og ráku neðarlega við Aðalgötuna. Eftir að pabbi hætti launavinnu tók hann fram vélar og tól sem hann hafði varðveitt frá því þeir Jón ráku verkstæðið og setti upp verkstæði í rúmgóðum bílskúrnum á Hólaveginum. Hann keypti velar sem hann vantaði og efni til viðgerða. Það var alltaf talsverður hópur viðskiptavina, en verðlagning var í engu samræmi við vinnutíma og verð á efnum sem til þurfti. Pabbi hugsaði meira um pyngju margra efnaminni ellilífeyrisþega sem þurftu á betri skóm að halda en afkomu verkstæðisins. Sú saga bíður betri tíma. 

Pabbi átti viðmælendur og vini marga. Hann var vel metinn af flestum (ég man ekki eftir neinum sem ekki kunni að meta hans félagslegu viðleitni) en það kom svo berlega í ljós þegar pabbi opnaði skóvinnustofu í bílskúrnum á Hólaveginum. Skóviðgerðirnar voru ekki aðeins faglega unnar heldur að mikilli alúð. Ég man vel að ég undraðist það hvernig hann strauk finurgómunum um sauma og sóla, eins og til þess að smyrja viðgerðina með alúð. 

Pabbi kom til Siglufjarðar til að ljúka þriggja mánaða bóklegum greinum í iðnnámi við Iðnskóla Siglufjarðar. Hann fór aldrei þaðan aftur. Hann varð, eins og svo margir aðrir, Siglfirðingur í húð og hár, en ættir rakti hann vestur á firði. 

Pabbi fæddist í Álftafirði fyrir vestan 12. júlí 1923 og þann 12. júlí 2023 á hann 100 ára afmæli. Þess er vert að minnast. 

Þessi frásögn er gerð honum til heiðurs og megi svo lesendur njóta.

Albert Einarsson


Greinina í heild auk fleiri mynda má finna hér.