Markviss einföldun regluverks – betri eftirlitsreglur

Einföldun afgreiðsluferla vegna leyfisveitinga og bætt þjónusta við leyfisumsækjendur verður sett í forgang við heildarendurskoðun á opinberum eftirlitsreglum sem heyra undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Heildarendurskoðunin er í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar en í honum er lögð áhersla á að stjórnsýslan sé bæði skilvirk og réttlát og jafnframt mælt fyrir um að átak verði gert í einföldun regluverks í þágu atvinnulífs og almennings.Hinn 18. mars fyrir 20 árum tóku gildi sérstök lög um opinberar eftirlitsreglur. Þau ná til eftirlits hins opinbera með starfsemi einstaklinga og fyrirtækja og þar með allra reglna sem ætlað er að stuðla að öryggi og heilbrigði almennings, öryggi eigna, umhverfisvernd, neytendavernd, samkeppni, eðlilegum viðskiptaháttum og getu fyrirtækja og fjármálastofnana til að standa við skuldbindingar sín­ar. Lögin heyra undir for­sætisráð­herra, en stór hluti eftirlitsins sem þau taka til er á verksviði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, þ.e. ráðherra ferða­mála, iðnaðar og nýsköpunar og ráðherra sjávar­útvegs og landbúnaðar. Átak ráðherranna til að tryggja einfaldari og betri eftirlitsreglur byggir á þessum lagagrunni, svo og þeirri reynslu og þekkingu sem ráðgjafarnefnd forsætisráðherra um opinberar eftirlitsreglur hefur aflað á gildistíma laganna.Á vegum ráðherranna hefur verið tekin saman skrá yfir eftirlitsreglur ráðuneytisins, en hún er ákveð­in forsenda markvissrar endurskoðunar á gildandi regluverki. Afmörkun og skilgreining reglnanna er þó ekki meitluð í stein og mun skráin taka breytingum og verða uppfærð reglulega eftir því sem verk­efninu vindur fram. Reglurnar í skránni hafa beina skírskotun til laga og lúta að leyfisveitingum, mót­töku til­­kynn­inga í stað leyfisumsókna og reglubundnu eftirliti með rekstri og/eða starf­semi sem heyrir undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Hér að neðan er yfirlit yfir reglurnar í skránni og skiptingu þeirra milli eftirlitsstofnana ráðuneytisins.

Framkvæmdamarkmið endurskoðunarinnar eru eftirfar­andi, en í upphafi verður þó lögð megin­áhersla á einföldun afgreiðsluferla vegna leyfisveitinga og bætta þjónustu við leyfisumsækjendur:

  • að einfalda og takmarka nauðsynlega reglubyrði með því að endurskoða sjálfar eftir­lits­regl­urnar,
  • að tryggja skýran greinarmun á stjórnsýslulegu og tæknilegu eftirliti, þ.e. eftirliti sem óhjá­kvæmilegt er að stjórnvöld sinni og eftirliti sem mögulegt og eftirsóknarvert er að sé á veg­um aðila utan stjórnkerfisins,
  • að hagnýta upplýsingatæknina til að einfalda nauðsynleg upplýsingaskil frá þeim sem sæta opinberu eftirliti, s.s. með því að opinberir eftirlitsaðilar taki að sér og ábyrgist öflun tiltækra gagna frá öðrum stjórnvöldum vegna eftirlitsins.

Stýrihópur sem í eiga sæti fulltrúar ráðuneytisins, Matvælastofnunar, Fiskistofu, Ferðamálstofu, Neytendastofu, Orkustofnunar og Sam­keppn­is­eftirlitsins mun fylgja verkefninu eftir. Með hliðsjón af framansögðu og áherslunni á endurskoðun reglna um leyfisveitingar er honum í upphafi ætlað að útfæra verk- og tímaáætlun til ársloka 2020 sem tryggi að allar eftirlitsreglur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins komi kerfis­bundið til endurmats á a.m.k. fimm ára fresti. Endurmatið fari fram á ábyrgð hlut­aðeig­andi eftirlits­stofnunar, sem síðan skili því til stýri­hópsins í samræmi við fyrirliggj­andi áætlun. Eftir yfirferð og að höfðu sam­ráði við hagsmunaaðila leggi stýrihópurinn mats­gerð­ina fyrir ráðherra. Í henni verði gerð grein fyrir framkvæmd reglnanna, markmiðum og árangri hvað varðar einföldun og bætt afgreiðsluferli, svo og áformum, tillögum eða hug­myndum um frekari umbætur.

 

Af: stjornarradid.is