Unglist kynnir með stolti hina árlegu hátíð Eld í Húnaþingi sem nú er haldin í 16. sinn 25. – 29. júlí næstkomandi. Dagskráin er sneisafull af fjölskylduatburðum,tónlist, sviðslistum, fyrirlestrum, íþróttaviðburðum og leikjum sem allir geta tekið þátt í.
Meðal þess helsta sem er í boði í ár eru: Moses Hightower, Paparnir, Ásgeir Trausti, Ylja, og hinir margverðlaunuðu búksláttarmenn Body Rythym Factory ásamt leikverkinu Tatterdamalion – báðir þessir erlendu atburðir eru fjölskylduvænir.
Hinn árvissi atburður þar sem heimamenn koma fram, Mello Musika, er á sínum stað; sápurennibraut, brunaslöngufótbolti, og fjölskyldudagurinn eru líka í boði í ár. Sverrir Bergmann og Halldór Gunnar spila í Borgarvirki.
Greta Clough, listrænn stjórnandi hátíðarinnar, segir ‘Eldur er einstök hátíð sem fagnar og endurspeglar hvað það er sem skapar samfélag okkar hér í Húnaþingi vestra. Í ár bryddum við upp á nýjungum í dagskránni sem endurspegla sögu Eldsins á sama tíma og við horfum fram veginn og fögnum þeim tækifærum sem svæðið, hátíðin, og samfélagið okkar sem verður stöðugt fjölbreyttara hefur upp á að bjóða. Það er okkur mikil ánægja að kynna fyrir ykkur þessa fjölbreyttu dagskrá og vonum að allir finni eitthvað sem vekur áhuga þeirra, og jafnvel eitthvað nýtt að prófa.’
80% atburða á Eldi í Húnaþingi eru ókeypis fyrir gesti. Til að skrá sig á námskeið og sérstaka viðburði skal senda tölvupóst á eldur@eldurihun.is
Forsala á atburði sem selt er inn á er hafin og hægt er að kaupa miða á heimasíðu hátíðarinnar eldurihun.is með millifærslu eða netgreiðslu.
Frekari upplýsingar má finna á www.eldurihun.is .
Texti: aðsendur