Eldur kviknaði í húsnæði fyrirtækisins Primex á Siglufirði um klukkan átta í kvöld og stendur slökkvistarf enn yfir.
Slökkvilið Fjallabyggðar nýtur aðstoðar frá slökkviliðinu á Dalvík, auk þess sem liðsauki er á leið á vettvang frá Akureyri. Eldurinn kviknaði í þaki hússins við Óskarsgötu 7, sem stendur við höfnina á Siglufirði.
Í samtali við Vísi.is staðfesti Jóhann K. Jóhannsson, slökkviliðsstjóri í Fjallabyggð, að um væri að ræða umfangsmikið verkefni. Hann sagði að fljótlega hefði verið kallað eftir aðstoð frá Dalvík og Akureyri, sem sendu bæði dælubíl og körfubíl til að aðstoða við aðgerðir.
„Þetta er stórt iðnaðarhúsnæði og það er eldur í þakinu, og þar af leiðandi erum við að vinna slökkviliðsstarf ofan frá,“ sagði Jóhann. Að hans sögn er nokkur vindur á svæðinu sem gerir slökkvistarfið erfiðara, en aðgerðir standa enn yfir.





Myndir/Hilmar Sigurðsson