Verðlaun í ljóðasamkeppni Haustglæða voru afhent í gær við hátíðlega athöfn í starfsstöð Grunnskóla Fjallabyggðar í Ólafsfirði. Ljóðahátíðin Haustglæður hefur verið haldin í Fjallabyggð í nítján ár og er sú langlífasta sinnar tegundar á landinu. Ljóðasetrið og Ungmennafélagið Glói standa að hátíðinni og hefur þátttaka barna og ungmenna frá upphafi verið eitt helsta einkenni hennar.
Fastur liður í dagskrá Haustglæða er ljóðasamkeppni nemenda í 8. til 10. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar. Undanfarin ár hafa nemendur heimsótt Menntaskólann á Tröllaskaga þar sem þeir fá innblástur að ljóðum sínum úr listaverkum sem sýnd eru í sal skólans. Að þessu sinni voru listaverkin eftir núverandi og fyrrverandi nemendur MTR auk þriggja verka eftir bæjarlistafólk í Fjallabyggð.
Í tilkynningu frá Ljóðasetri Íslands kemur fram að í ár urðu til um sjötíu ljóð og beið fimm manna dómnefnd það krefjandi verkefni að velja þau sem þóttu skara fram úr. Fjögur ljóð hlutu atkvæði þriggja eða fleiri nefndarmanna og höfundar þeirra voru verðlaunaðir við athöfnina í gær, þar sem nemendur bekkjanna og kennarar voru viðstaddir.
Verðlaunahafar komu úr öllum þremur árgöngunum og voru að þessu sinni allar stúlkur. Þær hlutu ljóðabækur frá Ljóðasetrinu og gjafabréf frá versluninni Siglósport. Gerði Þórarinn Hannesson, forstöðumaður Ljóðasetursins, grein fyrir úrslitunum, flutti verðlaunaljóðin og afhenti verðlaunin við góðar undirtektir viðstaddra.
Ljóðahátíðin Haustglæður er styrkt af Fjallabyggð og Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra. Skipuleggjendur færa dómnefndarfulltrúum, versluninni Siglósport, kennurum Grunnskóla Fjallabyggðar og Menntaskólanum á Tröllaskaga kærar þakkir fyrir gott samstarf og stuðning.
Verðlaunahafar í ár eru Ellen Daðey Hrólfsdóttir í 8. bekk, Heiðdís Erla Sigurðardóttir í 9. bekk og Hólmfríður Dögg Magnúsdóttir og Sóley Birna Arnarsdóttir í 10. bekk. Þeim eru sendar innilegar hamingjuóskir og öllum þátttakendum þökkuð góð þátttaka. Verðlaunaljóðin verða birt á næstu dögum á Facebook Ljóðaseturs Íslands.
Mynd: Facebook / Ljóðasetur Íslands

