Fjárhagsáætlun Fjallabyggðar árið 2024
Fyrri umræða – Bókun bæjarstjóra

Sigríður Ingvarsdóttir bæjarstjóri. Mynd/Fjallabyggð

Fyrri umræða um fjárhagsáætlun Fjallabyggðar fór fram á fundi bæjarstjórnar þann 27. nóvember.

Sigríður Ingvarsdóttir bæjarstjóri tók til máls og kynnti fjárhagsáætlun Fjallabyggðar fyrir árið 2024.

Fjárhagsáætlun Fjallabyggðar fyrir árið 2024 og þriggja ára áætlunar fyrir árin 2025 til 2027 er hér með lögð fram. Hún er unnin samkvæmt fyrirmælum sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.
Fjárhagsáætlunin er sett fram í samræmi við 62. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, fyrir A-hluta og samantekinn reikning fyrir A- og B-hluta. Í A-hluta er Aðalsjóður auk Þjónustumiðstöðvar og Eignasjóðs. Í B-hluta eru Veitustofnun, Hafnarsjóður, Íbúðasjóður og Hornbrekka, auk hlutdeildarfélaga sem koma inn í reikningsskil sveitarfélagsins eftir hlutfallslegri ábyrgð bæjarfélagsins. Áætlunin sýnir rekstraráætlun, áætlaðan efnahagsreikning og sjóðsstreymi fyrir sveitarfélagið og stofnanir þess.

Framlögð áætlun byggir á eftirfarandi meginforsendum:

  1. Útsvarsprósenta er óbreytt milli ára þ.e. 14,70%.
  2. Hækkun útsvarstekna er áætluð 7%.
  3. Álagningarhlutföll fasteignaskatta, lóðarleigu, vatns- og fráveitugjalda eru óbreytt milli ára.
  4. Sorphirðugjöld hækka í kr. 73.700 úr kr. 51.600 kr. í kjölfar nýrra laga um úrgangsmál sem tóku gildi á árinu, með breytingum á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, meðhöndlun úrgangs og úrvinnslugjalds.
  5. Þjónustugjöld hækka um áætlaða verðlagsþróun þ.e. 6%.
  6. Varðandi launakostnað er talsverð óvissa þar sem flestir kjarasamningar eru lausir í lok mars. En í áætluninni er tekið mið af gildandi kjarasamningum auk þess sem gert er ráð fyrir 6% hækkun á launum að jafnaði.
  7. Afsláttur af fasteignaskatti hjá tekjulágum elli- og örorkulífeyrisþegum hækkar, og verður að hámarki kr. 90.000.
  8. Tekjumörk fyrir afslætti hækka í samræmi við launavísitölu.
  9. Frístundastyrkur fyrir börn á aldrinum 4 ára til 18 ára hækkar í kr. 47.500 úr kr. 45.000.


Helstu niðurstöður fjárhagsáætlunar fyrir árið 2024 gera ráð fyrir að rekstrartekjur Fjallabyggðar nemi 4.338 m.kr. hjá samstæðunni í heild, A- og B-hluta, þar af eru rekstrartekjur A hluta áætlaðar 3.560 m.kr. Rekstrargjöld án fjármagnsliða og afskrifta eru áætluð 4.059 m.kr., þar af A-hluti 3.424 m.kr.

Rekstrarhagnaður A- og B-hluta fyrir afskriftir og fjármagnsliði er áætlaður 279 m.kr. Afskriftir nema 213 m.kr. og fjármagnsgjöld umfram fjármagnstekjur 10 m.kr. Rekstrarafgangur samstæðunnar í heild A- og B-hluta er áætlaður samtals 56 m.kr. Rekstrarhagnaður A-hluta fyrir afskriftir og fjármagnsliði er áætlaður 136 m.kr. Afskriftir nema 155 m.kr. Fjármagnstekjur umfram fjármagnsgjöld nema 18,7 m.kr. Rekstrarniðurstaða A-hluta sveitarsjóðs er því áætluð neikvæð um 550 þúsund kr.

Eignir Fjallabyggðar eru áætlaðar í árslok 2024, 6.982 m.kr., þar af eru eignir A-hluta 6.224 m.kr. Skuldir og skuldbindingar eru áætlaðar í árslok 2.556 m.kr. Þar af hjá A-hluta 2.662 m.kr. Eigið fé er áætlað 4.415 m.kr hjá samstæðunni og eiginfjárhlutfall 63,2%. Eigið fé A-hluta er áætlað 3.581 m.kr. og eiginfjárhlutfall 57,4%.
Áætlunin gerir ráð fyrir að veltufé frá rekstri A-hluta verði 297 m.kr. Veltufé frá rekstri samstæðunnar A- og B-hluta verði samtals 429 m.kr.

Skuldaviðmið Fjallabyggðar samkvæmt reglugerð 502/2012 verður samkvæmt áætlun 24,7%.
Framkvæmdaáætlun gerir ráð fyrir 329 m.kr. fjárfestingum.

Helstu niðurstöður áætlunar fyrir árin 2025-2027 hvað samstæðuna varðar eru að áætlaðar tekjur 2025 eru 4.550 m.kr., fyrir árið 2026 4.743 m.kr. og fyrir árið 2027 4.930 m.kr. Rekstrarniðurstaða samstæðunnar er áætluð jákvæð fyrir árið 2025 um 80 m.kr., fyrir árið 2026 um 110 m.kr. og fyrir árið 2027 um 145 m.kr. Gert er ráð fyrir að veltufé frá rekstri fyrir árið 2025 verði 457 m.kr., fyrir árið 2026 verði það 481 m.kr. og fyrir árið 2027 verði það 500 m.kr.

Sveitarfélagið stendur vel fjárhagslega, skuldaviðmið er lágt og langt undir opinberum viðmiðunarmörkum.

Samráðshópur um stefnumótun og framtíðarsýn íþróttamála í Fjallabyggð hefur nýlokið störfum og lagt fram metnaðarfullt stefnuskjal, þar sem markmið til næstu ára eru sett fram ásamt forgangsröðun í uppbyggingu íþróttamannvirkja.

Fólksfjölgun hefur átt sér stað í Fjallabyggð, frá sama tíma og á síðasta ári hefur bæjarbúum fjölgað um 46 einstaklinga og fjölgun nemenda hefur átt sér stað bæði í leik- og grunnskóla. Atvinnustig er gott og það er einstaklega ánægjulegt að sjá nýbyggingar rísa í sveitarfélaginu.

Í heild eru spennandi uppbyggingartímar hér í Fjallabyggð og framtíðin er björt.
Ég hlakka til að takast á við þau ótal mörgu verkefni sem framundan eru hjá sveitarfélaginu í góðri samvinnu við kjörna fulltrúa, starfsfólk sveitarfélagsins og íbúa.