Kennarar í MTR hafa nú sent öllum nemendum sínum í öllum áföngum fyrstu athugasemdir annarinnar. Þetta er hluti af námsmatinu því á þriggja vikna fresti gefa kennarar öllum nemendum sínum í öllum námsgreinum skriflega endurgjöf.
Stundum er það einkunn sem sýnir hvar þau standa í viðkomandi áfanga en einnig hrós til þeirra sem standa sig vel, hvatningu til þeirra sem eru að slaka um of í náminu og þau sem einhverra hluta vegna eru að heltast úr lestinni fá aðstoð við að komast á réttan kjöl.
Í MTR er mikil áhersla lögð á að nemendur vinni jafnt og þétt alla önnina enda eru engin lokapróf í skólanum. Athugasemdirnar eru liður í því að nemendur viti hver staða þeirra í náminu er hverju sinni.
Athugasemdir er reyndar villandi heiti en ræðst af því að svo nefnist þessi möguleiki í Innu, upplýsingakerfi framhaldsskóla á Íslandi. Skólinn hvetur foreldra og forráðamenn til að fylgast með námi barna sinna og lesa athugasemdirnar í Innu.
Ljósmynd. SMH.