Enn og aftur hefur fráveitukerfi Fjallabyggðar ekki undan úrkomunni í norðan slagveðrinu sem hefur gengið yfir Norðurland í dag. Siglfirðingur.is segir að verst sé ástandið á mörkum Túngötu og Þormóðsgötu en einnig er það slæmt á mörkum Eyrarflatar og Langeyrarvegar.

Slökkvilið Fjallabyggðar er að störfum við dælingu og björgunarsveitarmenn á Siglufirði hafa verið kallaðir út.

Vatnsveðrið er að mestu gengið niður, Veðurstofa íslands segir að það dragi úr vindi og úrkomu í nótt. Norðaustan 8-13 um hádegi og hægari annað kvöld. Dálítil rigning á NA- og A-landi og stöku él þar um kvöldið, en bjart veður sunnan heiða. Hiti 1 til 10 stig á morgun, mildast syðst.

Siglfirðingur.is var fyrstur fréttamiðla til að fjalla um flóðin á Siglufirði.

Verst er ástandið á mörkum Túngötu og Þormóðsgötu

 

Mynd: Sigurður Ægisson