11. nóvember 1999 mældust 23,2°C á Dalatanga segir á vefsíðunni Blika.is.

Það er líka hæsti hiti nóvembermánaðar hérlendis. Þeir voru fleiri dagarnir þarna um svipað leyti þar sem hiti fór yfir 20 stig, en fram að því hafði það aldrei gerst í hitamælingum í nóvember.

Nú bregður svo við að hlýindunum sem spáð er seint á morgun og fram á þriðjudag eru harla óvenjuleg. Hitinn snemma á þriðjudag á alveg möguleika á að ná 20 stigum norðaustanlands.

Bakreikningur loftagnar sem spáð er yfir Vopnafirði kl. 6 á þriðjudagsmorgni sýnir okkur að í 500 m hæð er loftið komið undan ströndum Vestur-Sahara, talsvert suðvestan Kanaríeyja. Í 1500 m hæð á Vopnafirði reiknast uppruninn hins vegar yfir Alsír, þ.e. yfir Saharaeyðimörkinni.

Óvenjumikil hæð yfir og suðvestur af Bretlandseyjum beinir lofti lengst úr suðri og í áttina til okkar.

Það sem meira er að staðan nú er keimlík þeirri sem var upp þegar hitametið var sett á Dalatanga 1999. Vitanlega ekki alveg eins, en í báðum tilvikum sérlega mikil og ráðandi hæð á sömu slóðum.

Mjög stríður SV- vindstrengur verður samfara þessum hlýindum. Þurfa nokkrir hlutir að fara saman svo hlýjað loftið í fjallahæð beinist til sjávarmáls í svo ríkum mæli að einhvers staðar hitti á að hitinn fari markvert yfir 20 stigin. En efniviðurinn er sannarlega til staðar!

Skjaldþingsstaðir í Vopnafirði koma til greina, líka Bakkagerði og Borgarfirði eða Seyðisfjörður.

Viðbót: Trausti Jónsson er einnig með umfjöllun um þessi hitamál.

Sjá hér: https://trj.blog.is/blog/trj/entry/2307842/

Myndir/Blika.is