Veðrið hefur verið með versta móti það sem af er vetri í Skagafirði segir á vefsíðu Skagafjarðar. Hefur veðrið og tilheyrandi ófærð haft mikil áhrif á daglega starfsemi í héraðinu. Einkum hefur tíðin verið rysjótt frá norðanóveðrinu sem gekk yfir landið 10.-11. desember sl.
Má þannig nefna að þjóðvegur 1 um Vatnsskarð hefur verið lokaður í 16 skipti síðan 10. desember sl., þjóðvegur 1 um Öxnadalsheiði í 19 skipti frá sama tíma, Þverárfjall um 26 skipti og Siglufjarðarvegur um 24 skipti. Þess má geta að þjóðvegur 1 um Vatnsskarð og Öxnadalsheiði er í þjónustuflokki 2 hjá Vegagerðinni á meðan Þverárfjallsvegur og Siglufjarðarvegur eru í þjónustuflokki 3, sem skýrir þennan mun á fjölda lokunardaga.
Einnig hefur verið mikil ófærð á vegum innan héraðs og í þrígang hefur sjór flætt yfir hafnarsvæðið og Strandveg á Sauðárkróki.
Þá hefur skólahald oft fallið niður í grunnskólum héraðsins. Sem dæmi um það hafa 4 heilir kennsludagar fallið niður í Árskóla á Sauðárkróki vegna ófærðar eða rafmagnsleysis, í Varmahlíðarskóla hafa 7 dagar fallið niður og í Grunnskólanum austan Vatna hafa 8 dagar fallið niður. Þessu til viðbótar hafa nokkur tilfelli verið þar sem hluti kennsludaga hefur fallið niður.
Þá hafa verið tíðar lokanir í leikskólum, tónlistarskóla og íþróttamannvirkjum af sömu völdum.
Mynd: Skagafjörður.is