Eyrarrósin, viðurkenning fyrir framúrskarandi menningarverkefni utan höfuðborgarsvæðisins, var afhent í sautjánda sinn sunnudaginn 16. maí, við hátíðlega athöfn á Patreksfirði. Frú Eliza Reid forsetafrú og verndari Eyrarrósarinnar veitti verðlaunin.
Handbendi brúðuleikhús á Hvammstanga hlýtur viðurkenninguna að þessu sinni og er það í fyrsta sinn sem Eyrarrósin fellur í skaut verkefnis á Norðurlandi vestra. Greta Clough, stofnandi og listrænn stjórnandi Handbendis tók á móti viðurkenningunni og verðlaunafé að upphæð kr. 2.500.000. Viðurkenningunni fylgir að auki boð um að standa á viðburði á Listahátíð 2022 og framleitt verður vandað heimildamyndband um verkefnið.
Alls bárust 36 umsóknir um Eyrarrósina og hvatningarverðlaun Eyrarrósarinnar 2021 hvaðanæva af landinu.
Hvatningarverðlaun Eyrarrósarinnar eru ný af nálinni og eru veitt þremur verkefnum sem hafa verið starfrækt í þrjú ár eða skemur. Verðlaunin eru veitt metnaðarfullum verkefnum sem þykja hafa listrænan slagkraft, jákvæð áhrif á nærsamfélagið og hafa alla burði til að festa sig í sessi.
Hvatningarverðlaun Eyrarrósarinnar 2021 hlutu Boreal Screendance Festival, Akureyri, IceDocs – Iceland Documentary Film Festival, Akranesi og Röstin gestavinnustofa, Þórshöfn. Hljóta þau hvert um sig verðlaunafé að upphæð kr. 750.000 auk gjafakorts frá Icelandair að upphæð kr. 100.000.
Eyrarrósin er samstarfsverkefni Listahátíðar, Byggðastofnunar og Icelandair sem undirrituðu við sama tækifæri endurnýjaðan samstarfssamning út árið 2024.
Handbendi brúðuleikhús, Hvammstanga
Handbendi var stofnað árið 2016 af leikstjóranum og brúðuleikaranum Gretu Clough og er hún jafnframt listrænn stjórnandi leikhússins. Handbendi er eina starfandi atvinnuleikhúsið á Norðurlandi vestra og eitt af sárafáum slíkum utan höfuðborgarsvæðisins.
Fjölbreytt starfsemi Handbendis byggir á bjargfastri trú á gildi listanna fyrir dreifðari byggðir en ekki síður á gildi þess sem dreifbýlið hefur uppá að bjóða fyrir listirnar.
Auk þess að framleiða brúðuleiksýningar í háum gæðaflokki, ferðast með þær um landið og á erlendar hátíðir, rekur Handbendi stúdíó þar sem áhersla er lögð á upptökur og framleiðslu á stafrænu efni af ýmsum toga.. Þá leggur leikhúsið sérstaka áherslu á að hafa frumkvæði að og leiða samfélagstengd verkefni af ýmsum toga, þar á meðal með börnum og ungu fólki.
Nýjasta skrautfjöðrin í hatt Handbendis er alþjóðleg brúðuleikhúshátíð – Hvammstangi International Puppet Festival – eða HIP Fest – sem fram fór í fyrsta sinn á síðasta ári og verður hér eftir árlegur viðburður í október.