Farsældarteymi Húnaþings vestra hefur fundað reglulega frá stofnun þess á nýju ári. Það starfar samkvæmt lögum um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna.
Helstu verkefni farsældarteymis eru að fara yfir og greina þjónustuþætti er snerta öll börn í Húnaþingi vestra og gera tillögur að leiðum til að styðja þau í leik og starfi. Farsældarteymið vinnur nú að verklagi samþættingar vegna barna í móðurkviði til 18 ára aldurs. Einnig hefur farsældarteymi lagt fram tillögur að aukinni fagþjónustu samkvæmt greiningu á þjónustuþörf sem samþykkt var á 1167. fundi byggðarráðs.
Það verður einnig hlutverk farsældarteymis að kynna þjónustu og verklag fyrir íbúum sveitarfélagsins og það verður meðal annars gert á sérstöku svæði á heimasíðu Húnaþings vestra.
Í farsældarteymi Húnaþings vestra sitja Anton Scheel Birgisson, Eydís Bára Jóhannsdóttir, Guðný Kristín Guðnadóttir, Guðrún Ósk Steinbjörnsdóttir, Henrike Wappler, Kristinn Arnar Benjamínsson, Liljana Milenkoska og Sigurður Þór Ágústsson.