Ágætu íbúar Fjallabyggðar.
Í Fjallabyggð er gott að búa og vera eins og við öll vitum. Hér er gott mannlíf og fallegt umhverfi, svo mjög að leitun er að öðru sambærilegu.
Oft hefur verið talað um ójafnræði á milli höfuðborgarsvæðisins og dreifðari og fámennari byggða og stundum er litið á það sem helsta verkefni sveitarstjórnarmanna að brúa þetta bil.
Eitt af því sem stundum er rætt um í þessu sambandi er ólíkt fasteignaverð á milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar. Þar sem fasteignaverð er hærra má raunar einnig búast við hærri fasteignaskatti, en það er ekki alltaf svo.
Nú fer að líða að kosningum og loforð frambjóðanda streyma af fullum þunga til okkar bæjarbúa og kjósenda. Meðal annars hafa tvö af þeim þremur framboðum sem birt hafa stefnuskrá sína lofað lækkun á álögum á fasteignir.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur lofað 10% lækkun fasteignaskatts á komandi kjörtímabili og H listinn hefur lofað endurskoðun á álagningarprósentu fasteignagjalda, án þess að það hafi verið útfært frekar.
Að mínu mati er það að lækka álögur á íbúa sveitarfélagsins eitt mikilvægasta verkefnið sem liggur fyrir sveitarstjórn, því á síðustu árum hafa álögur á fasteignir hækkað mjög verulega hér í sveitarfélaginu og af samtölum við marga aðra íbúa má ráða að fæstir séu sáttir við þessa þróun, enda er hún kannski ekki alveg að öllu leyti skiljanleg.
Eftir að álagningarseðlar þessa árs lágu fyrir, heyrði maður bæjarbúa varla tala um annað en hversu óeðlilega gjöldin hækkuðu á milli ára, ekki síst í ljósi þess að ætla mætti að hækkun fasteignagjalda geti verið jákvæð merki um hækkandi fasteignaverð.
En þegar nánar er skoðað kemur í ljós við samanburð á tveimur eignum, annarsvegar í Kópavogi og hinsvegar á Siglufirði, að gjöldin sem húseigandi greiðir á báðum stöðum eru næsta svipuð. Þetta er nokkuð undarlegt í ljósi þess að fasteignamat eignanna sem bornar eru saman er annarsvegar tæplega 50 milljónir og hinsvegar rúmlega 14 milljónir. Eignirnar eru báðar svipaðar að flatarmáli.
Ég hef tekið saman þau gjöld sem mynda fasteignagjöld fyrir síðastliðin tíu ár og sett í línurit og þar sést hversu hratt gjöldin hafa hækkað og það eina sem hefur ekki hækkað bratti er einmitt fasteignamatið.
Hér að neðan má sjá hvernig gjaldaliðir fasteignagjalda skiptast en gjöldin af eignunum eru nánast þau sömu, en örlítið hærri í Fjallabyggð af eign sem er aðeins 30% af verði íbúðarinnar í Kópavogi, sé tekið mið af fasteignamati.
Ef gjaldskrá Fjallabyggðar væri tekin upp í Kópavogi yrðu fasteignagjöldin af íbúðinni þar kr. 731.610, sem sýnir hversu há gjöldin eru hlutfallslega hér í Fjallabyggð. Það er því miður búið að binda þannig um hnútana að hækkun á fasteignaverði í Fjallabyggð er ekki æskileg vegna þeirrar hækkunar á álögum sem hún myndi hafa í för með sér.
Að þessu tilefni sendi ég fyrirspurn til bæjarins þar sem ég óskaði svara við þeim álögum sem lagðar hefðu verið á bæjarbúa. Var óskað eftir upplýsingum um hvað lægi að baki gjöldum sem mynda 1. vatnsskatt, 2. lóðarleigu og 3. almennt hreinsigjald.
Svar barst frá bæjarstjóra og er það eftirfarandi orðrétt: „ 1. Vatnsgjald er lagt á samkvæmt gjaldskrá Vatnsveitu Fjallabyggðar sem er ákveðin af bæjarstjórn Fjallabyggðar og er birt á heimasíðu Fjallabyggðar, sjá 5. Gr. hennar.
En álagningarstofn gjaldsins er 0,35% af fasteignamati. 2. Lóðarleiga íbúðarhúsa er 1,9% skv. álagningarreglum fasteignagjalda sem er ákveðin af bæjarstjórn Fjallabyggðar og er einnig birt á heimasíðu Fjallabyggðar undir gjaldskrár og Fasteignagjöld. 3. Almennt hreinsigjald er ákvarðar í gjaldskrá fyrir sorphirðu Fjallabyggðar.
Í gjaldskrá sem er birt á heimasíðu Fjallabyggðar 1. gr. segir að bæjarstjórn Fjallabyggðar er heimilt að leggja á sorphirðugjald til að standa undir kostnaði bæjarins af sorphirðu og sorpeyðingu samkvæmt samþykkt nr. 84/2010 um meðhöndlun úrgangs í Fjallabyggð, en núverandi gjald stendur ekki undir þeim kostnaði. Samkvæmt 2. gr. sömu gjaldskrár segir að sorphirðugjald skuli vera lagt á allar íbúðir sem virtar eru fasteignamati.“
Á súluritinu hér að neðan koma fram þau gjöld í krónutölu sem lögð eru á fasteignirnar.
Það er því von okkar íbúa og fasteignaeigenda í Fjallabyggð að bæjarfulltrúar þeir sem kjörnir verða á næstunni beiti sér af alefli til að vinna gegn þessari þróun. Við fáum miklu minna fyrir fasteignir okkar en íbúar höfuðborgarsvæðisins, en berum samt sömu gjöld. Það hlýtur að vera hægt að reikna dæmið upp á nýtt og með hagsmuni íbúa Fjallabyggðar að leiðarljósi.
Greinarhöfundur: Hanna Björnsdóttir, skrifstofustjóri hjá RSK
Mynd fengin af: vef