Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið staðfesti nýlega ákvörðun Matvælastofnunar að synja um innflutning á notaðri dráttarvél frá Danmörku.

Innflytjandinn hélt því fram að dráttarvélin hefði aldrei verið notuð í landbúnaði heldur einungis við slátt á fótboltavelli erlendis.  Matvælastofnun taldi það ekki sannað auk þess sem vélin væri það ryðguð og illa farin að sótthreinsun væri óframkvæmanleg.

Matvælastofnun getur heimilað innflutning ef sannað þykir að ekki berist smitefni með þeim er valda dýrasjúkdómum.

Innflytjandi kærði ákvörðun Matvælastofnunar og segir að svo virðist sem Matvælastofnun byggi niðurstöðu sína á því að þar sem um dráttarvél sé að ræða hljóti svo að vera að hún hafi verið notuð í landbúnaði. Því sé ekki þannig farið og hafi Matvælastofnun því ekki lögsögu í málinu, ekki frekar en þegar flutt séu inn ökutæki til landsins, sem ekki hafið verið notuð í landbúnaði. Í því felist skýring þess að ekki hafi verið fylgt ákvörðun  reglugerðar um sótthreinsun dráttarvélarinnar og tilkynningu til Matvælastofnunar áður en hún hafi verið flutt til landsins.

Þannig hafi engin rök staðið til þess að meðhöndla innflutning á dráttarvélinni með öðrum hætti, en þegar notaðir bílar séu fluttir til landsins. Matvælastofnun verði að skilja að þó að um dráttarvél sé að ræða, sem hægt sé að nota í landbúnaði, þá eigi það ekki við í þessu tilviki og hún hafi aldrei verið nýtt í þess háttar verkefni og því nái valdsvið Matvælastofnunar ekki til hennar.

Ráðuneytið féllst á rök Matvælastofnunar og staðfesti synjunina.

Úrskurður ráðuneytisins er hér

Mynd: mast.is