Í frétt frá félagsmálaráðaneytinu segir að nú um áramótin hafi Ásmundur Einar Daðason tekið við titlinum félags- og barnamálaráðherra, en sá titill er m.a. til marks um áherslur ráðherrans og ríkisstjórnarinnar á málefni barna og ungs fólks. Því var ánægjulegt að fyrsti fundur ráðherra á nýju ári hafi verið með fulltrúum barna og ungmenna, Ingu Huld Ármann og Auði Bjarnadóttur sem eru meðlimir ráðgjafarhóps umboðsmanns barna, og Salvöru Nordal, umboðsmanni barna á Íslandi. Á fundinum voru ræddar helstu áskoranir sem fyrir nýju ráðuneyti liggja, 30 ára afmæli barnasáttmálans á þessu ári sem og hvernig best væri að fá fram tillögur og framlag barna og ungs fólks í þeirri vinnu sem framundan er.

Ásmundur Einar Daðason segir að nauðsynlegt sé að eiga víðtækt samráð þegar hugað er að málefnum barna og þá sérstaklega við börn, sem séu okkar mikilvægustu ráðgjafar.

„Þrátt fyrir að flestir telji að börn og ungmenni eigi að fá tækifæri til að tjá sig og taka þátt í mótun samfélagsins þá virðist sem ekki sé endilega tekið tillit til skoðana þeirra og að möguleikar barna á slíkri þátttöku séu mismunandi, t.d. eftir búsetu. Það er því viðeigandi að með nýju ráðuneyti, og á afmælisári barnasáttmálans sem einmitt leggur áherslu á að börn fái að koma fram sínum skoðunum, að við hefjum árið með röddum barna og vinnum í framhaldinu markvisst að því að koma á viðeigandi leiðum fyrir börn og ungmenni til að koma skoðunum sínum á framfæri við ráðherra barnamála“. Sagði Ásmundur Einar að loknum fundinum í dag.