Dagana 22.–28. september dvaldi hópur 15 nemenda frá Svíþjóð og Finnlandi ásamt sex kennurum í Fjallabyggð. Heimsóknin var hluti af Nordplus-verkefni sem grunnskólinn í Fjallabyggð tekur þátt í. Umsjónarmenn verkefnisins hér á landi eru Guðrún Unnsteinsdóttir og Kristín Brynhildur Davíðsdóttir.

Nemendurnir dvöldu á heimilum jafnaldra sinna í Fjallabyggð og fengu þannig innsýn í íslenskt fjölskyldulíf ásamt því að taka þátt í skólastarfinu. Megináhersla verkefnisins var á lestur og norrænar bókmenntir, en allir nemendur lásu bókina Benjamín dúfa eftir Friðrik Erlingsson á sínu tungumáli og unnu síðan fjölbreytt verkefni upp úr henni.

Á meðan dvölinni stóð fór hópurinn meðal annars í ferð til Hríseyjar þar sem skólinn á staðnum var heimsóttur. Þá kynntu nemendurnir sér menningu og atvinnulíf í Fjallabyggð, meðal annars með heimsóknum á Síldarminjasafnið, Pálshús, Smíðakompunna og fleiri staði.

Skólinn í Fjallabyggð þakkar sérstaklega samstarfsaðilum, starfsfólki og fjölskyldum sem tóku á móti erlendu nemendunum. Slíkt samstarf er að sögn skólans bæði fróðlegt og þroskandi fyrir nemendur og dýrmætt tækifæri til að efla norræna samvinnu og skilning milli þjóða.

Myndir/Fjallabyggð