Samsetning á hópi ferðamanna er önnur, og ferðamenn hegða sér öðruvísi en áður var. “Það eru rökrétt viðbrögð við breyttu verðlagi hér á landi í þeirra eigin gjaldmiðli” segir Sigurður Líndal, formaður Ferðamálafélags Vestur-Húnavatnssýslu í viðtali á N4.

Sigurður segir að ferðaþjónustu-fyrirtækin í Húnaþingi vestra vinni vel saman í öllum aðal atriðum, og þau hafi jafnvel meira samstarf en tíðkast víða annarsstaðar á landsbyggðinni.

Í Húnaþingi vestra reka menn eigin ferðaskrifstofu og setja veitingar, gistingu og afþreyingu sem er í boði á svæðinu undir einn hatt og vinna mjög mikið og náið með ferðaþjónustu aðilum á svæðinu. “Við setjum þetta saman og seljum til almennra kaupenda gegnum vefsíðuna okkar, sealtravel.is”. Þau fara einnig mikið á atburði og ráðsefnur til að hitta ferða-heildsala – sem koma með ferðamenn hingað til lands – og selja þar þjónustu sína.

Sigurður segir mikilvægt að byggja upp ferðaþjónustu yfir vetratímann. “Við eigum ekkert að vera feimin við veturinn, eigum ekkert að vera að draga úr því að það sé vetur” segir Sigurður. Veturinn er dimmur og kaldur, hér er snjór og oft vont veður. “Ef við reynum að markaðssetja gott veður hérna á veturna, og ekkert mál að kíkja hingað, þá er enginn að fara að trúa því að á Norður Íslandi sé rosalega gott veður á veturna. Við eigum að selja ævintýri, upplifun og norðurljós”.

 

 

Frétt: Gunnar Smári Helgason – unnin úr viðtali við Sigurð á N4
Myndband: N4

Mynd: Kristín Sigurjósdóttir