Á því umtalaða ári 2007 eyddi ég páskunum á Siglufirði  og á skírdag labbaði ég húfu- og vettlingalaus og á spariskónum upp í Skollaskál eins og fram kom í síðasta pistli, en verulega mikið vantaði upp á að líkamlega formið væri komið í þokkalegt horf eftir veturinn og allar inniseturnar sem fylgdu.

Það varð að sjálfsögðu til þess að daginn eftir eða á Föstudaginn langa vaknaði ég með heilmikla strengi um allan skrokkinn, og óhætt var að tala um heila strengjasveit frekar en nokkuð minna. Dagurinn sá var því mjög erfiður framan af, og það varð til þess að ég velti fyrir mér gömlu húsráði sem ég hafði heyrt af fyrir margt löngu, þ.e. að mögulegt væri að ganga strengina úr sér.

Dagurinn leið og varð mér ljósara að eitthvað þyrfti ég að gera í mínum málum, og ákvað að láta reyna á hvort eitthvert sannleikskorn væri í sögunni um “úrgöngu strengja.” Fylgdarhundurinn Aría var auðvitað aftur með í ferðinni og var alveg til í svolitla gönguferð með mér, en líklega hafa engir strengir verið að hrjá hana.

Ég hélt sem leið lá suður að neðri mörkum Stóra-Bola þar sem hann endar syðst á Suðurgötunni. Það var með talsverðum erfiðismunum að ég gekk upp sneiðinginn við rætur hans og sóttist ferðin seint að mér fannst, en ég hafði hugsað mér að rölta svolítinn spöl upp eftir garðinum, kannski taka nokkrar myndir af bænum aðeins ofan við efstu húsin og snúa síðan við.

Ég rölti hægt af stað upp slóðann sem liggur upp eftir garðinum, og eftir svolitla stund varð ég að setjast niður og hvíla mig svolítið. Ég smellti þá mynd af þessum hluta snjóflóðavarnargarðanna, því ég taldi þarna vera verðugt myndefni sökum stærðar sinnar og mikils jarðrasks sem þarna hafði átt sér stað.

Þar sem áður hafði mátt sjá aflíðandi gróna hlíðina, var komið lítið hæðardrag sem skyggði örlítið á bæinn þaðan sem ég sat. Eftir svolitla stund stóð ég upp og hélt áfram.

Ég skal fúslega viðurkenna að ég settist oft niður á leiðinni upp Stóra-Bola. En fyrir þá sem ekki vita þá er það nafnið á snjóflóðavarnargarðinum sem sést svo vel á myndinni hér að ofan, nefndur eftir samnefndum skíðastökkpalli sem var á svipuðum slóðum á árum áður. En auðvitað langaði mig til að komast aðeins ofar. Bara pínulítið ofar.

Stundum er haft á orði að menn láti draga sig á asnaeyrunum út í einhverja bölvaða vitleysuna, og líklega hefur sú orðmynd átt alveg fullkomlega við þennan dag. Og nóta bene, ég hafði greinilega ekkert lært frá því deginum áður því ég var aftur á spariskónum, húfu- og vettlingalaus.

Ég hélt áfram eins og í leiðslu og það kom upp í hugann að það voru liðin heil 40 ár síðan ég kom síðast upp í Fífladali sem eru í raun engir dalir, heldur aðeins svolítill slakki inn í fjallið fyrir ofan bæinn. Þessi “dæld” í fjallið er þó nægilega stór til þess að frá efri hluta bæjarins er sjáanleg svolítil brún, sem hefur fengið margan manninn til að trúa því að þarna væri eitthvert undirlendi en ekki bara aðeins minni halli eins og raunin er. En fyrir ofan og sunnan Fífladali má sjá tígullega kletta bera við himinn frá réttu sjónarhorni. Þegar ég var lítill strákur á brekkunni voru þeir oft kallaðir Tröllakirkja, hvort sem sú nafngift er einhvers staðar að finna yfir skráð örnefni. Og áfram var haldið.

Þarna uppi var miklu kaldara en niður í bæ. Allt var gaddfrosið og hvergi markaði í jarðveginn þar sem farið var um. Ég komst fljótlega að því að aðstæður þarna voru miklum mun erfiðari en í Skollaskálinni, enda var ég ásamt fylgdarhundinum Aríu kominn í all nokkuð meiri hæð en þar.

Sums staðar þurfti að vera nánast á fjórum fótum til að renna ekki niður brattann, en það var haldið enn ofar.

Annars staðar þurfti ég að klífa í klettabeltinu rétt fyrir neðan fjallstoppinn til að krækja fyrir ófærurnar. Alla svellbunkana þar sem hvergi var að finna neina fótfestu.

Stundum þurfti ég að krækja upp eða niður fyrir harðfennið á giljum og lautum, því það var beinlínis lífshættulegt að leggja út á það. Það var hart eins og gler, flughált og svo var hallinn orðinn alveg ótrúlega mikill. Ef ég reyndi að ganga melinn, þá var jarðvegurinn þar lítið skárri við að eiga. Engin leið var að sparka far ofan í hann vegna frostsins, og ef ég reyndi að drepa niður fæti var nokkuð öruggt að ég rann af stað. Mér flaug í hug að líkast væri að ég reyndi að ganga á óteljandi mörgum kúlulegum, en eins og allir hljóta að skilja getur slíkt vart talist skynsamlegt. Það var þarna í klettunum að úrið slitnaði af mér, rann af stað niður brattann og stöðvaðist á lítilli syllu svolítið neðar. Og eftir talsvert klifur niður og síðan aftur upp, var úrið sem ég fékk í 25 ára afmælisgjöf frá afa mínum og nafna í vasanum.

Ferðin gekk seint og tíminn leið. Ég hafði ætlað mér að fara svolítið lengra upp og mun utar í fjallið, en degi var tekið að halla og ljóst var að tímaáætlunin gat tæpast gengið upp úr því sem komið var. Á myndinni hér að ofan er efsti hluti bæjarins í hvarfi neðan við brún Fífladala.


Ég var kominn út og upp að snjóflóðavarnargirðingunni sem er talsvert fyrir ofan miðja Fífladali og skammt fyrir neðan fjallsbrúnina. Þarna hafði ég heldur aldrei komið en nú áttaði ég mig á stærð þessara mannvirkja sem virðast vera frekar lítilsigld séð neðan úr bænum. Það sem sýnast vera venjulegir girðingarstaurar eru kannski eins og einhvers konar girðingarstaurar, nema að þá eru þeir alveg örugglega af stærðinni XXXL.

Ég sá að nú yrði ég að snúa við, því tíminn var alveg hlaupinn frá mér og svo var gilið framundan ófært með öllu. En þá fór málið að vandast. Bæði var að ég gætti þess ekki að fara sömu leið til baka, og svo er bara mun verra að fara niður en upp við þessar aðstæður. Ég fetaði mig í áttina suður frá girðingunni og gilinu. En eftir skamma stund komst ég hvorki ekki lengra í þá áttina, upp eða niður fjallið. Ég reyndi að snúa við en það gekk alls ekki.


Brattinn var hreint ótrúlegur og ég fylgdist með Aríu sem fór um allt og fannst sá gamli vera full rólegur. Ég öfundaði hana svolítið af því að hafa helmingi fleiri fætur en ég, því það var alveg greinilegt að fleiri og hlutfallslega stærri snertifletir við jörðina skiptu höfuðmáli á þessum slóðum. Ég fékk þá snjöllu hugmynd að taka hana til fyrirmyndar, reyndi að loka öllum vösum vel og vandlega og lagðist síðan á fjóra fætur. Ég varð að finna heppilega steina eða steinnibbur sem stóðu upp úr freðinni jörðinni til að stíga eða hafa tak á. Síðan varð ég að þreifa fyrir mér ýmist með höndum og fótum eftir einhverju sem var bæði þurrt og frosið fast. Þannig gat ég komist svolítið áleiðis til baka.

Þá hringdi síminn og ég svaraði standandi á tveimur fótum og hvílandi á annarri hendinni. “Jú, jú, ég fer alveg að koma í mat. Ég er hérna uppi í fjalli að rölta með hundinn og fer bara að drífa mig.

“Krúnk, krúnk,” heyrðist rétt hjá mér og ég leit upp.

Hljóðið var óhugnanlegt þarna í kyrrðinni og ég fann ískaldann hroll skríða upp hryggsúluna. Krummi sveif nánast við hliðina á mér og mér sýndist hann vera eitthvað að skoða mig. Það var engu líkara en hann væri kyrr í loftinu, eða kannski brá mér bara svo mikið að tíminn stöðvaðist svolitla stund. Hvað mundi krummi gera ef ég rúllaði af stað niður hlíðina og þó ekki væri nema rotaðist um stund, en ég vissi svo sem allt um það. Ég fann fyrir svolitlum skjálfta í hnjánum, en verra var að ég var eiginlega hættur að finna fyrir höndunum vegna kulda. Ég heyrði meira krúnk og sá að tveir hrafnar höfðu bæst til viðbótar í áhorfendahópinn.

Mér fannst rannsakandi augnaráð þeirra stinga mig í augun, og ég hugsaði mér að ef nokkurn tíma væri staður og stund til að vanda sig þá væri það líklega núna. Mér sóttist ferðin alveg ofurhægt og eftir skamma stund hringdi síminn aftur.

“Ég er á leiðinni. Ég er kominn svona 10 metra síðan áðan. Já, já, ég veit að það er liðinn hálftími síðan, en við erum samt á leiðinni en ég er bara með svo mikla strengi síðan úr skollans Skollaskálarferðinni í gær.”


Næsta lota hófst og ég þreifaði mig áfram. Ferðin sóttist jafn hægt og áður og ég var orðinn ansi mikið blóðrisa á höndunum sem ég var löngu hættur að finna fyrir. Nú var ég kominn að hæfilega stórum steini til að setjast á og ég var rétt sestur þegar síminn hringdi rétt einu sinni.

“Við erum á leiðinni. Þetta tekur allt sinn tíma. Heyrumst eftir korter.”

Eftir korter var það allra versta afstaðið og hrafnarnir flognir á braut, væntanlega til að leita að einhverju sem var vænlegra til átu. Síminn hringdi rétt þegar ég gat tyllt mér niður á næsta stein.

“Ég er kominn eina 30 metra frá því að þú hringdir fyrst. Ég lenti í nokkurs konar sjálfheldu. Nei láttu björgunarsveitina eiga sig, þetta er alveg komið núna.”Ég hafði verið tæpa tvo tíma að komast þessa 30 metra, en hallinn var núna miklu minni og ég var kominn niður úr klettunum. Eftir að hafa haft hendur í vösum í dágóða stund var blóðið farið að renna aftur og ég hélt af stað, neðar og neðar. Ég hljóp yfir harðfenni í gili þar sem brattinn var hverfandi og mun minna frost en uppi undir toppi fjallsins.

Ég var kominn fram á brúnina og sá uppspretturnar sem ég var búinn að gleyma að væru þarna. En heilmikið tært lindarvatn sprettur upp undan steinunum í urðinni á Fífladalsbrúninni.

Og auðvitað varð ég að stilla myndavélina á “self portrait” áður en neðar yrði haldið því ég var um það bil búinn að jafna mig eftir skelfinguna sem greip mig svolítið ofar. Svo gott sem alveg búinn á því eins og sjá má. Ég skal viðurkenna það fyrir hverjum sem vita vilja að ég varð í alvörunni alveg skíthræddur þegar verst horfði. Nú fann ég mun meira fyrir strengjunum en áður, og sóttist nú ferðin seint þeirra vegna, því sennilega hef ég alveg gleymt þeim tímabundið skömmu áður.

Græna línan sýnir leiðina sem farin var á spariskónum Föstudaginn langa, daginn eftir ferðina upp í Skollaskál til að ganga úr sér strengina.

Rauður hringur merktur 1, er Tröllakirkja.
Rauður hringur merktur 2, er snjóflóðavarnargirðingin.
Rauður hringur merktur 3, er þar sem ég lenti í sjálfheldunni.
Rauður hringur merktur 4, eru uppspretturnar í Fífladölunum.


Niðurleiðin gekk annars alveg sæmilega eftir atvikum og þegar ég var kominn niður á veg, lá næst fyrir að ganga að bílastæðinu við rætur Stóra-bola þar sem bíllinn var. Það tók ótrúlega langan tíma því ég virtist vera orðinn eitthvað svo stuttur til hnésins. Reyndar lögðust strengirnir frá deginum áður og þreytan frá göngunni upp í Hafnarfjall, á eitt með að gera mér lífið erfitt og göngulagið með undarlegra móti.

Þegar ég var svo kominn á Aðalgötuna neita ég því ekki að ég þurfti eiginlega að notast við bæði hendur og fætur til að skreiðast upp stigann.

“Þú ert nú meiri vitleysingurinn” var sagt við mig þegar upp var komið, sem var náttúrulega alveg hárrétt.


Ljósmyndir og texti: Leó R. Ólason.

Söguseríuna “Poppað á Sigló” og fjölmargar fleiri skemmtilegar greinar eftir Leó R. Ólason má finna hér.