Fiskur:

  • þorsk- eða ýsubitar
  • fiskikraftur (teningur)
  • salt
  • pipar

 

Eggjasósa:

  • 2 harðsoðin egg
  • 3 msk smjör
  • 1½ msk hveiti
  • 3 dl mjólk
  • 1 dl rjómi
  • salt
  • pipar
  • steinselja eða dill (má sleppa)
  • beikon

.

 

Skolið og þurrkið fiskbitana og leggið þá á fat. Saltið og piprið vel og leyfið að standa um stund.

Harðsjóðið eggin og hakkið þau fínt (mér þykir gott að skera þau bæði langsum og þversum í eggjaskera). Bræðið smjör í potti og hrærið hveitinu saman við. Hrærið mjólk saman við í smáum skömmtum og þar á eftir rjóma. Látið sósuna sjóða við vægan hita um stund og smakkið til með salti og pipar. Setjið hökkuðu eggin út í sósuna.

Setjið vatn og fisktening í pott og hitið þar til fer að sjóða. Setjið fiskbitana út í sjóðandi vatnið og setjið lokið strax á pottinn. Takið pottinn af hitanum og látið fiskinn liggja í heitu vatninu í ca 10 mínútur.

Steikið beikon og berið það fram með fiskinum, sósunni og kartöflum.

 

Uppskrift: Ljúfmeti og lekkerheit