Á 262. fundi bæjarstjórnar Fjallabyggðar var samþykkt samhljóða að hefja undirbúning að útboði á knatthúsi í Ólafsfirði að stærðinni 72 x 50 metrar. Jafnframt verður ráðist í nauðsynlegar breytingar á skipulagi og veitt heimild til fjármögnunar verkefnisins með lántöku á hagstæðum kjörum.
Tillagan tengist breytingum á Stefnumótun og framtíðarsýn íþróttamála í Fjallabyggð 2023–2035, sem Knattspyrnufélag Fjallabyggðar hefur þegar staðfest. Samkvæmt nýrri forgangsröðun verður bygging knatthúss að stærðinni 50 x 72 metrar í Ólafsfirði sett í fyrsta sæti framkvæmdaáætlunar, í stað þess að leggja áherslu á heilan gervigrasvöll. Markmiðið er að bæta aðstöðu til knattspyrnuæfinga og tryggja heilsársæfingaaðstöðu fyrir íþróttafólk í Fjallabyggð.
Bæjarstjórn leggur áherslu á að undirbúningi verði hraðað þannig að hægt verði að hefja framkvæmdir á árinu 2026. Áætlað er að útboðsgögn, skipulagsbreytingar og tilboð í lánveitingu verði unnin samhliða til að tryggja framgang verkefnisins á skilvirkan hátt.
Tillagan var samþykkt með sjö atkvæðum. Til máls á fundinum tóku S. Guðrún Hauksdóttir forseti bæjarstjórnar, Arnar Þór Stefánsson og Helgi Jóhannsson.
Nefndarmenn bæjarstjórnar Fjallabyggðar:
S. Guðrún Hauksdóttir forseti, Tómas Atli Einarsson 2. varaforseti, Helgi Jóhannsson aðalfulltrúi, Guðjón M. Ólafsson 1. varaforseti, Sæbjörg Ágústsdóttir aðalfulltrúi, Þorgeir Bjarnason aðalfulltrúi og Arnar Þór Stefánsson aðalfulltrúi.