Verkefnið miðar að því að auka viðbragðsgetu lögreglu
Bæjarráð Fjallabyggðar hefur samþykkt að taka þátt í tilraunaverkefni lögreglustjórans á Norðurlandi eystra um upptöku fjarstýrðra flugdróna til að auka viðbragðsgetu lögreglu á svæðum þar sem löggæsla er ekki mönnuð allan sólarhringinn.
Samkvæmt erindi sem lagt var fyrir bæjarráð er óskað eftir fjárframlagi frá sex sveitarfélögum á svæðinu, að upphæð 2,5 milljónir króna frá hverju þeirra. Bæjarráð samþykkti samhljóða að leggja fram fjárhæðina, auk kostnaðar við uppsetningu búnaðarins. Kostnaðurinn verður færður á almannavarnir.
Áhersla lögð á að búnaðurinn verði settur upp í báðum byggðakjörnum Fjallabyggðar
Bæjarráð lagði jafnframt áherslu á að verði góð reynsla af búnaðinum verði hann settur upp í báðum byggðakjörnum sveitarfélagsins. Þá var einnig áréttað að drónar geti aldrei komið í stað staðbundinnar löggæslu.
Mynd/pixabay