Á fundi bæjarstjórnar Fjallabyggðar 25. september 2025 voru samþykktar nýjar innkaupareglur sveitarfélagsins.

Markmið reglnanna er að tryggja hagkvæm, vistvæn og vönduð innkaup, með áherslu á jafnræði, gagnsæi og samkeppni. Lögð er áhersla á að gætt sé mannréttinda-, gæða- og umhverfissjónarmiða við innkaup og að eftir atvikum sé verslað innan nærsamfélagsins.

Reglurnar gilda fyrir allt sveitarfélagið og stofnanir þess, en ekki fyrir fyrirtæki í eigu Fjallabyggðar eða samlög með öðrum sveitarfélögum. Þar kemur fram að allar ákvarðanir um innkaup skuli teknar í samræmi við lög um opinber innkaup, með skýrum verklagsreglum um útboð, verðfyrirspurnir og viðmiðunarfjárhæðir.

Ábyrgð á innkaupum er hjá bæjarráði, en sviðsstjórar og forstöðumenn stofnana bera ábyrgð á framkvæmd á sínum sviðum. Bæjarstjóri og skrifstofustjóri hafa umsjón með samræmingu, eftirfylgni og fræðslu.

Reglurnar kveða jafnframt á um skýra meðferð reikninga, trúnaðarskyldu, siðareglur og reglur um viðskipti við tengda aðila. Þær taka gildi þegar í stað og leysa af hólmi eldri innkaupareglur sveitarfélagsins.

Innkaupastefnuna og reglurnar í heild sinni má lesa hér.