Skíðafélag Ólafsfjarðar heldur Fjarðarhlaupið og verða nokkrar vegalengdir í boði eins og fyrri ár. Um er að ræða alvöru fjallahlaup frá Siglufirði til Ólafsfjarðar.
Ræst verður út frá Sigló Hótel í 32 km hlaupið kl. 10:00. Þátttakendur hlaupa sem leið liggur inn Hólsdal í Siglufirði og upp í Hólsskarð. Þar er stefnan tekin niður Ámárdal, niður í Héðinsfjörð að Héðinsfjarðargöngum. Þá er stefnan sett á Víkurdal yfir Rauðskörð og niður Ytri-árdal að Kleifum í Ólafsfirði. Endamark er í miðbæ Ólafsfjarðar og er leiðin alls um 32 km löng. Farið yfir tvo fjallgarða sem báðir eru í um 600 m hæð yfir sjó.
Styttra hlaupið 18 km. er ræst frá Héðinsfjarðargöngum kl. 11:00 og hlaupið sem leið liggur að Víkurdal inn dalinn og yfir Rauðskörð (700m) og niður Ytri-árdal að Kleifum í Ólafsfirði. Endamark er í miðbæ Ólafsfjarðar og er leiðin alls rúmlega 18 km löng.
Einnig er í boði 5/10 km skemmtiskokk sem ræst verður í miðbæ Ólafsfjarðar og hlaupinn 5 eða 10 km hringur á götum og stígum og barnahlaup 500m, 1.000m, 1.500m verður ræst í miðbæ Ólafsfjarðar. Hlaupið ætlað 5 ára og yngri, 6-8 ára og 9-10 ára.
Eins og venja er þá verður fyrst og fremst hrikalega gaman hjá okkur í Fjarðarhlaupinu.
Flott umgjörð, tónlist, veitingar eftir keppni, allir fá þátttökuverðlaun en fyrst og fremst höfum við gaman.
Mynd/ af vefsíðu Fjallabyggðar