Á 900. fundi bæjarráðs var fyrirliggjandi tillögu að fjárhagsáætlun fyrir árið 2026, þriggja ára áætlun 2027-2029 og fjárfestingaáætlun, vísað til síðari umræðu í bæjarstjórn með áorðnum breytingum frá fyrri umræðu.

Fjárhagsáætlun Fjallabyggðar fyrir árið 2026 er lögð fram til seinni umræðu ásamt þriggja ára áætlun fyrir árin 2027-2029 og framkvæmda- og fjárfestingaáætlun.

Fjárhagsáætlunin er sett fram í samræmi við 62. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, fyrir A-hluta og samantekinn reikning fyrir A- og B-hluta. Í A-hluta er Aðalsjóður auk Þjónustumiðstöðvar og Eignasjóðs. Í B-hluta eru Veitustofnun, Hafnarsjóður, Íbúðasjóður og Hornbrekka, auk hlutdeildarfélaga sem koma inn í reikningsskil sveitarfélagsins eftir hlutfallslegri ábyrgð bæjarfélagsins. Áætlunin sýnir rekstraráætlun, áætlaðan efnahagsreikning og sjóðsstreymi fyrir sveitarfélagið og stofnanir þess.

Helstu niðurstöður fjárhagsáætlunar fyrir árið 2026 gera ráð fyrir að rekstrartekjur Fjallabyggðar nemi 4.642 m.kr. hjá samstæðunni í heild, A- og B-hluta, þar af eru rekstrartekjur A hluta áætlaðar 4.052 m.kr. Rekstrargjöld án fjármagnsliða og afskrifta eru áætluð 4.318 m.kr., þar af A-hluti 3.812 m.kr.

Rekstrarhagnaður A- og B-hluta fyrir afskriftir og fjármagnsliði er áætlaður 324 m.kr. Afskriftir nema 263 m.kr. og fjármagnsgjöld umfram fjármagnstekjur 8,5 m.kr.
Rekstrarafgangur samstæðunnar í heild A- og B-hluta er áætlaður samtals 51,6 m.kr. Rekstrarhagnaður A-hluta fyrir afskriftir og fjármagnsliði er áætlaður 239 m.kr. Afskriftir nema 201 m.kr. Fjármagnstekjur umfram fjármagnsgjöld nema 30 m.kr. Rekstrarniðurstaða A-hluta sveitarsjóðs er því áætluð jákvæð um 58 m.kr.

Eignir Fjallabyggðar eru áætlaðar í árslok 2026, 8.263 m.kr., þar af eru eignir A-hluta 7.688 m.kr. Skuldir og skuldbindingar eru áætlaðar í árslok 3.258 m.kr.

Eigið fé er áætlað 5.006 m.kr hjá samstæðunni og eiginfjárhlutfall 60,6%. Veltufé frá rekstri samstæðunnar A- og B-hluta verði samtals 522 m.kr.
Skuldaviðmið Fjallabyggðar samkvæmt reglugerð 502/2012 verður samkvæmt áætlun 42,2%% árið 2026.

Helstu niðurstöður áætlunar fyrir árin 2027-2029 hvað samstæðuna varðar eru að áætlaðar tekjur 2027 eru 4.816 m.kr., fyrir árið 2028 4.996 m.kr. og fyrir árið 2029 5.182 m.kr.
Rekstrarniðurstaða samstæðunnar er áætluð jákvæð fyrir árið 2027 um 101 m.kr., fyrir árið 2028 um 131 m.kr. og fyrir árið 2029 um 164 m.kr.
Gert er ráð fyrir að veltufé frá rekstri fyrir árið 2027 verði 544 m.kr., fyrir árið 2028 verði það 578 m.kr. og fyrir árið 2029 verði það 614 m.kr.

Samþykkt

Á fundi bæjarráðs þann 25. nóvember síðastliðinn var fjárhagsáætlun fyrir 2026 auk þriggja ára áætlunar 2027-2029 ásamt fjárfestingaáætlun vísað til síðari umræðu í bæjarstjórn með áorðnum breytingum frá fyrri umræðu í bæjarstjórn.

Framlögð áætlun byggir á eftirfarandi meginforsendum:
– Útsvarsprósenta er óbreytt milli ára þ.e. 14,93%.
– Álagningarhlutföll fasteignaskatts
*Álagningarhlutfall fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði lækkar og verður 0,44 af heildarfasteignamati
*B-flokkur helst óbreyttur eða 1,32% af heildar fasteignamati
*C-flokkur helst óbreyttur eða 1,57% af heildar fasteignamati
– Lóðarleiga
*Lóðarleiga íbúðarhúsa, bifreiðageymslna og félagsheimila lækkar og verður 1,2% af lóðarhlutamati
*Lóðarleiga af öðrum lóðum verður óbreytt eða 3,33% af lóðarhlutamati

– Sorphirðugjald
*Sorphirðugjald íbúðarhúsnæðis lækkar í 85.000 kr. á hverja íbúð

– Fráveitugjald og vatnsgjald
*Fráveitugjald lækkar og verður 0,24% af heilar fasteignamati
*Vatnsgjald lækkar og verður 0,24% af heildar fasteignamati

– Hækkun útsvarstekna er áætluð í samræmi við áætlun Sambands íslenskra sveitarfélaga og hækkar um 5,3% frá útkomuspá
– Gjaldskrár hækka almennt um 4%
– Afsláttur af fasteignaskatti hjá tekjulágum elli- og örorkulífeyrisþegum hækkar, og verður að hámarki kr. 110.000, ásamt því að tekjumörk fyrir afslætti hækka í samræmi við launavísitölu
– Frístundastyrkur fyrir börn á aldrinum 4 – 18 ára hækkar í kr. 52.000 úr kr. 50.000
– Laun hækka í samræmi við gildandi kjarasamninga

Hvað varðar framkvæmdir og viðhald eigna á komandi ári, er gert ráð fyrir að fjárfestingageta sveitarfélagsins nemi um 522 milljónum króna auk þess sem gert er ráð fyrir lántöku allt að 400 milljónum sem að hluta er gert ráð fyrir að færist á árið 2027 til fjárfestinga. Gert er ráð fyrir því að ríflega 20 milljónum meira verði varið í viðhald á árinu 2026 en áætlað var á árinu 2025 og er sérstök áhersla á skólahúsnæði bæði grunnskóla og leikskóla.

Þrátt fyrir lækkun fasteignagjalda á íbúðarhúsnæði stendur bæjarsjóður sterkt og rekstrarafkoma vel ásættanleg en bæjarfulltrúar hafa verið sammála um að koma til móts við bæjarbúa með lækkun álagningarhlutfalls á íbúðarhúsnæði í ljósi umtalsverðar hækkunar fasteignamats á árinu.

Bæjarstjórn samþykkir að farið verði í eftirfarandi stærri framkvæmdir á árinu 2026:

– Uppbygging þjóðvegar í gegnum Ólafsfjörð ásamt gangstéttarframkvæmdum
– Endurbætur á lagna- og tæknirými í sundlauginni á Siglufirði
– Uppbygging knatthúss á æfingasvæði KF í Ólafsfirði
– Viðbygging við leikskólann í Ólafsfirði
– Endurbætur á skólahúsnæði við Norðurgötu á Siglufirði
– Malbikun á Ránargötu og við kirkjugarð við Saurbæjarás
– Framkvæmdir við nýjan kirkjugarð í Ólafsfirði
– Framkvæmdir við Skálarhlíð, múrviðgerðir, endurnýjun eldhúss og fleira
– Framkvæmdir við vatnsveitu í Ólafsfirði og eftirlitskerfi vatns- og fráveitu í báðum byggðarkjörnum
– Gangstéttarframkvæmdir í báðum byggðarkjörnum
– Frágangur á tjaldsvæðinu í Ólafsfirði
– Hönnun á göngustígum í Ólafsfirði og malbikun og lýsing á göngustíg við ósinn í Ólafsfirði
– Auk þessa ýmis smærri verkefni
Að lokum vill forseti, fyrir hönd bæjarstjórnar, koma á framfæri þökkum til bæjarstjóra, nefndarmanna og starfsmanna sveitarfélagsins fyrir þeirra aðkomu að gerð fjárhagsáætlunar og ánægjulegs samstarfs og óskar íbúum Fjallabyggðar ánægjulegrar hátíðar sem senn gengur í garð.

Til máls tóku S.Guðrún Hauksdóttir, Helgi Jóhannsson, Guðjón M. Ólafsson og Tómas Atli Einarsson.

Fjárhagsáætlun 2026 og þriggja ára áætlun 2027-2029 ásamt fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun ársins 2026 samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum.

Helgi Jóhannsson og Þorgeir Bjarnason, fulltrúar H-lista óskuðu eftir eftirfarandi bókun:

Hér liggur fyrir bæjarstjórn fjárhagsáætlun fyrir árið 2026 og þriggja ára áætlun.
H-listinn kom að gerð áætlunarinnar á vinnufundum bæjarstjórnar og í nefndum og ráðum. Stærsta einstaka framkvæmd næsta árs er bygging knatthúss á æfingasvæðinu við Ólafsfjarðarvöll. H- listinn er þess fullviss að þessi bætta aðstaða fyrir knattspyrnuiðkun muni verða gríðarleg lyftistöng fyrir íþróttina í Fjallabyggð og mun einnig nýtast fyrir aðrar íþróttagreinar og viðburði. Þrátt fyrir að fara þurfi í lántöku vegna þessa verkefnis þá er sveitarfélagið vel í stakk búið að takast á við það og með því skerðist ekki heldur það fé sem þarf til framkvæmda og viðhalds. Það er engin launung að viðhaldsskuld hefur safnast víða upp í gegnum árin sem taka þarf á.

Eitt að því sem H- listinn vill að tekið verði fastari tökum á næsta ári er flutningur á 5. bekk. Því miður hefur þetta mál ekki verið leitt í jörð og er komin tími til að teknar verði ákvarðanir sem uppfylla þá faglegu ákvörðun sem tekin var á sínum tíma að stefna að þessu.
Eins og gengur þá er ýmislegt sem við í H- listanum höfum viljað sjá komast til framkvæmda en ekki náðist í gegn. Við teljum niðurstöðuna vera ásættanlega en höfum gert fyrirvara um nokkur atriði sem gæti þurft að endurskoða á komandi ári.
Við viljum að lokum þakka samstarfsfólki okkar í bæjarstjórn, bæjarstjóra, nefndarfólki og öllum öðrum starfsmönnum sem komu að gerð þessarar fjárhagsáætlunar fyrir samstarfið.