Fyrir mörgum árum var ég við nám í félagsfræði við háskólann í Osló og vann þar að ritgerð um þróun byggða, einkum sjávarbyggða. Auðvitað var þróun Siglufjarðar mikilvægt viðfangsefni. Þetta var skömmu eftir að síldin brást og ástandið á Siglufirði varð slæmt. Ritgerðin sjálf er að mestu týnd, en ég á enn eitthvað af heimildum og slitrum úr ritgerðinni, sem segja sögu.
Í þremur stuttum greinum segi ég frá skipakomum til Siglufjarðar, breytingu á fjrárhagslegu umhverfi og búferlaflutningum. Þetta meira frásögn en vísindaleg greinargerð.
Fjárhagslegt umhverfi – vöxtur og fall – 2
Í félagsvísindum eru samfélög oft skilgreind eftir efnahagslegu umhverfi. Það er t.d. talað um samfélög sem eru sjálfum sér næg um flesta aðdrætti sem “sjálfsþurftarbúskap”. Að sama skapi er talað um “peningabúskap” þar sem peningar eru notaðir til að verðleggja vinnu og vöru. Flest samfélög síðari tíma eru blanda þessarra, en peningabúskaðurinn verður æ algengari. Ísland var ekki og hefur aldrei verið iðnaðarsamfélag eins og gerðist í mörgum löndum, heldur hafa gildi “veiðimannasamfélags” verið ríkjandi.
Enda þótt landbúnaður hafi löngum verið undirstaða samfélagsgerðarinnar var íslenskur landbúnaður aldrei stórbrotinn og lengst af að mestu sauðfjárbúskapur. Við hlið landbúnaðarins voru fiskveiðar nokkrar og hákarlaveiðar talsverðar. T.d. segir að í Kaupmannahöfn (og raunar fleiri borgum í Evrópu) hafi Íslenskt hákarlalýsi verið notað sem eldsneyti í götulýsingar, svo hrein var sú olía. Bændur sem sóttu fisk í sjó (oft kallaðir útvegsbændur) lögðu fiskinn inn hjá kaupmanni og fengu að taka út vörur í versluninni. Þeir urðu að lúta duttlungum kaupmannsins.
Tilkoma þilskipa, bæði í Noregi og á Íslandi var afgerandi. Norðmenn sóttu fisk á Íslandsmið og þegar síldveiðar Norðmanna fóru af stað fyrir alvöru var mikill fjöldi Norskra skipa við veiðar við ísland. Árið 1881 voru t.d. skráð 187 norsk skip við veiðar við Ísland með um 1800 manns um borð. Það má segja að starfsemi Norðmanna kenndu Íslendingum að veiða og verka síld og silfur hafsins varð að gulli Íslands. Það var keppst við að veiða sem mest.
Síldinni var komið í tunnur og hún send úr landi sem hráefni, oft í rándýra gæðavöru. Síldin var brædd og úr varð lýsi og mjöl og hvort tveggja selt úr landi sem hráefni. Mjölið varð að skepnufóðri og lýsið notaði Unilever fyrirtækið til að framleiða sápur og krem m.a. Með lítilli fyrirhöfn var hægt að herða lýsið og auka þar með verðmætin verulega. En það var aldrei gert á Íslandi. Hugsunin var ekki bundin við að skapa meiri verðmæti, heldur bara að sækja meira í sjóinn, og þannig hefur þetta verið fram á hin síðari ár og er kannski enn. Þetta er hugsun veiðimannasamfélagsins, sem var ríkjandi og tafði fyrir vöruþróun. Þess vegna er það mjög alvarlegt þegar auðlindin þverr og ekki er hægt að sækja meira. Þá vantar bæði þekkingu og allskonar búnað til að skapa meiri verðmæti úr því sem aflað er.
Þegar síldin var ekki lengur undirstaða samfélagsins og byggja þarf nýjan grunn, reynir á samvinnu og samtök fólks. Það gerist þegar á bjátar og eru mörg dæmi það frá frá Noregi og fleiri löndum. Minni atvinna þýðir að tekjur rýrna og jafnvel hverfa og þá um leið eru minni peningar í umferð. Það varð stór framför þegar fólkið sem vann við að salta síld á fyrstu árum síldarsöltunar fékk greidd laun fyrir vinnu sína, en ekki bara að taka út varning hjá kaupmanni sem hafði í hendi sér bæði verð og vöruúrval. Það var þannig samfélag sem var á leið að verða til eftir að síldin brást. En í stað kaupmannsins kom samhjálp og skipti á vöru og vinnu. Trillukarlar skipta á fiski við fólk sem hefur kartöflur, sérþekking og hæfileikar fólks kemur að gagni t.d. við framkvæmdir, rafvirki hjálpar smiðnum og smiðurinn hjálpar bifvélavirkja o.s.frv. Viðskiptin byggjast á sjálfshjálp sem líkist sjálfsþurftarbúskap fyrri tíma.
Vissulega getur slíkt fyrirkomulag ekki þrifist um lengri tíma, enda ekki æskilegt, en samt nógu lengi til þess að samfélagið slapp fyrir horn, það varð ekki algjört hrun. Margir sem undir öðrum kringumstæðum hefðu orðið að flytja fluttu ekki. Þau sem fluttu voru kannski ekki þau sem þurftu að flytja, heldur þau sem vildu flytja. Það voru færri en 100 íbúar á Siglufirði rétt fyrir aldamótin 1900, en svo fjölgaði ört og bærinn byggðist og voru íbúar flestir árið 1948 rúmlega 3000, en svo hallaði undan fæti. Mesta fækkunin varð þegar síldin brást Siglufirði, en veiddist áfram fyrir austan og norður í höfum.
Í næsta pistli segi ég frá fólksflutningum og högum fólks eftir að síldin brást.
Forsíðumynd er tekin í kring um árið 1972, svona litu bryggjur og húsakostur út.
Siglufjörður – skipakomur