Íslendingar gengu til utankjörfundar-atkvæðagreiðslu á Gran Canaria í gær, þriðjudaginn 19. nóvember frá kl. 9-13.

Kosningarnar fóru fram á veitingastaðnum Why Not Lago í Maspalomas.

Margir Íslendingar sem dvelja á Gran Canaria til styttri eða lengri tíma, nýttu kosningarétt sinn til alþingiskosninga.

Javier Betancor Jorge, ræðismaður Íslands á Gran Canaria og starfsfólk hans ásamt Guðbjörgu Bjarnadóttur stóðu vaktina og sér ræðismaðurinn um að koma atkvæðum til síns heima á Íslandi.

Fjöldi manns mætti á kjörstað og var biðröð megnið af tímanum, enda mun meiri skriffinnska hjá kjósendum þegar kosið er utankjörfundar.

Um 370 manns mættu og tóku biðröðinni vel, tíminn var nýttur í blíðviðrinu í léttu spjalli við vini og kunningja.